Black Labrador White Head
650 kr.
Black Labrador White Head
Black Labrador er ein þessara laxaflugna sem alltof fáir nota.
Það má segja um þessa flugu að hún afsanni kenninguna um að bjartar flugur veiði betur í björtu veðri og dökkar í dumbungi því Black Labrador veiðir líka vel undir bláum, sólríkum miðsumarshimni.
Fyrir fáeinum árum átti ég spjall við eldri veiðimann sem sagði mér að hann hefði eitt sinn landað 27 punda laxi í Vatnsdalsá á einmitt þessa flugu. Ég sagði honum að mér fyrndist flugan afskaplega veiðileg, hefði oft notað hana en aldrei fengið á hana fisk. Nokkrum dögum síðar lá leið mín í árlega veiðiferð í Vatnsdal. Á þriðju vakt var afskaplega rólegt hjá mér, ég hafði farið í hyl úr hyl án þess að verða var við fisk. Nú renndi ég bílnum upp að veiðistað sem heitir Bjarnasteinn og sá strax fisk skvetta sér við steininn úti í miðri á. Ég leit á klukkuna og sá að ég átti einn og hálfan tíma eftir á svæðinu. Nú skyldi unnið í þessum fiski.
Ég reyndi allt sem ég kunni, kastaði litlum flugum og stórum, þungum flugum og léttum, ljósum flugum og dökkum. Kastaði andstreymis, þvert og niður fyrir mig. Veiddi á dauðareki og strippaði hratt. Allt kom fyrir ekki. Ekkert gerðist. Ég rölti upp í bíl og opnaði síðasta fluguboxið mitt. Þar blasti hún við. Þessi fluga sem mér fannst alltaf veiðileg en hafði samt einhvern vegin ekki trú á. Black Labrador var hnýtt undir og bæng! Hann var á í þriðja kasti. Ég landaði, mældi og sleppti.
Að því búnu náði ég í kaffibrúsann, settist niður og hringdi í þennan aldna vin minn sem ég hafði átt spjallið við áður um fluguna góðu. Sagði honum frá og tók fram að það munaði samt 20 pundum á fiskunum okkar. 27 punda fiskinn hafði hann einmitt veitt við Bjarnastein í Vatnsdalsá. (Óli í Veiðihorninu)
Hér er uppskrift þessarar skemmtilegu flugu:
Krókur – Ahrex HR490B
Þráður – Svartur Semperfli Waxed Thread 8/0
Stél – Hár úr svartlituðum kálfshala
Búkur – Svört ull
Hringskegg – Svartlituð hanahálsfjöður
Haus – Svartur, já eða hvítur eins og hér.