Annáll 2025

Veiðivötn eða Venesúela, Alphonse eða Aðaldalur, Bólivía eða Blanda, Zambezi eða Sog. Hér býr yfir 200 ára veiðireynsla. Matti, Óli, María, Slavko, Michael og Burkni óska þér gleðilegra jóla og fengsæls nýs árs. Ljósmynd: Golli

Árið var gott

Laxveiðin var reyndar ekkert sérstök og stóð ekki undir væntingum en heilt yfir var silungsveiðin góð í ám og vötnum. Hreindýraveiði gekk vel í sumar. Kvótinn hefur minnkað talsvert en við gerum ráð fyrir að kvótinn verði aukinn verulega á næsta ári. Gæsaveiði var svona upp og niður í haust og við upplifðum eitt besta rjúpnaveiðitímabil í mörg ár.

Árið var gott hjá okkur í Síðumúlanum og mikið að gera. 10 starfsmenn snérust í kringum viðskiptavini og veiðimenn á búðargólfinu í allt sumar og lögðu sig alla fram við að miðla af reynslu sinni og þekkingu til vanra veiðimanna og þeirra sem voru að stíga sín fyrstu skref. Þá fengum við að heyra fjöldan allann af góðum veiðisögum sem vitanlega allar eru sannar.

Árið hófst með vetrarútsölu í janúar þar sem við rýmdum fyrir nýju veiðivörunum sem við kynntum í sumar. Síðan sigldum við inn í fluguhnýtingarnar af miklum krafti í febrúar.

Fluguhnýtingar voru fyrirferðamiklar áfram í mars og svo tók við Apríl með árlegum vortilboðum Veiðihornsins en Apríldaga höfum við haldið í yfir 25 ár. Á apríldögum kynnum við jafnan nýjungar sumarsins og bjóðum allskyns pakkatilboð á veiðibúnaði, vöðlum og fatnaði.

Í maí var allt komið á fullt og mikið að gera.

Sumarstarfsmennirnir tíndust inn þegar skólum lauk í vor og við vorum orðin fullmönnuð þegar vertíðin hófst af krafti.

María og Óli brugðu sér til Belize í Mið Ameríku í apríl, voru óheppin með veður, veiddu þokkalega í roki og rigningu en hafa oft veitt betur. Þau fóru svo til Brasilíu í október og lentu þar í ævintýrum sem birtast í nýju tölublaði Veiði sem kemur út í vor. Auk Belize og Brasilíu lá leiðin í Veiðivötn, Laxá í Kjós, Laxá á Ásum og í Ytri Rangá svo eitthvað sé nefnt. Dásamlegt sem íslenska sumarið er.

Óheppnin elti þau í hreindýraúthlutuninni en jólunum er þó bjargað því það er nóg til í kistunni.

Við kynntum ekki margar nýjungar á árinu en meðal þeirra helstu var ný útgáfa af flugulínunni vinsælu Rio Þyt sem sannarlega hefur slegið í gegn. Auk flotlínunnar fengum við Rio einnig til að framleiða línu með glærum hægsökkvandi haus.

Í góðu samstarfi við Rio kynnum við nýjar línur í vor sem við höfum hannað með snillingunum hjá Rio í Idaho í Bandaríkjunum. Línur sem við segjum betur frá með hækkandi sól en við erum mjög spennt fyrir þeim. Auk nýju línunnar voru það helst flugur sem voru nýjungar hjá okkur. Fjölmargar nýjar laxa- og silungaflugur lifnuðu við á flugubarnum í Síðumúlanum, flugur sem urðu strax vinsælar og færðu veiðimönnum góða veiði.

Sumarið 2026 kynnum við nýjar stangir og hjól frá Sage, skó og jakka frá Simms og margt fleira spennandi sem betur verður sagt frá síðar.

VEIÐI XIV fór í prentun í mars og kom út í apríl. hér er ein örkin í prentun.

14. árgangur blaðsins okkar, VEIÐI kom út í apríl. Veiði er orðið stærsta tímarit landsins, gefið út í 7.000 eintökum og hvergi til sparað í efnistökum, útliti eða pappír. Veiðimenn þekkja orðið blaðið vel og bíða spenntir eftir nýju tölublaði á hverju vori. Ritstjórn hefur hafið störf við undirbúning Veiði XV sem kemur væntanlega út í apríl. Þar verður margt spennandi að sjá og lesa.

Burkni fór tvisvar í himnaríki á jörð, Veiðivötn og átti nokkrar góðar ferðir í perluna sem Elliðavatnið er.
Þá tók hann þátt í sjóbirtingsveiðikeppni í Danmörku í haust en það hefur hann gert nokkrum sinnum áður og alltaf jafn skemmtilegt.

Haustið kom og sumarstarfsmenn hurfu á braut. Takturinn í veiðinni breyttist að vanda, laxveiðiárnar lokuðu hver af annarri en sjóbirtingsárnar lifnuðu við. Hreindýraveiðin gekk vel, gæsaveiðin hófst og síðar rjúpan. Skotasalan var með mesta móti og mörg ár síðan við höfum séð hana svona líflega.

Michael átti góða ferð í Langá með fjölskyldunni en hápunkturinn var urriðaveiði í Laxárdalnum. Michael lenti í góðri veiði með þurrflugu sem er alltaf frábært. Krefjandi köst og langur grannur taumur gaf Michael 67 sentimetra fisk.

Nóvember gekk í garð með öllum sínum tilboðsdögum sem eru komnir til að vera. Netverslun blómstraði sem aldrei fyrr og mikið að gera flesta daga í pökkunardeildinni hjá okkur.

Óneitanlega hafa tilboðsdagar á borð við Einstaka daginn og Bjartan föstudag eins og þeir heita hjá okkur breytt allri jólaverslun frá því sem var. Jólaverslun hefur því teygst langt fram í nóvember og álaagið á verslunarfólk og viðskiptavini dreifst. Nú þarf enginn að vera á harðahlaupum síðustu daga fyrir jól.

Slavko stundaði sjóbirtingsveiðina af kappi. Besti dagurinn gaf Slavko 5.2 kílóa, fallegan, silfurbjartan birting í Ölfusánni.

Árið var gott. Reksturinn gekk mjög vel og mikið að gera á árinu. Margar gleðistundir á búðargólfinu. 250 til 300 manns í búðinni hjá okkur flesta daga í allt sumar.

Það er alltaf skemmtilegt að hitta fasta viðskiptavini á gólfinu og kynnast nýjum. Nú hækkar sól á lofti og margir farnir að hlakka til nýs veiðitímabils. Við hlökkum til að hitta alla vini okkar í búðinni eða á bakkanum 2026.

Matti átti einn sinn besta dag í Hólmsánni sem er með þeim erfiðari. Fullkominn dagur og 7 flottir urriðar. Hápunkturinn var samt Vatnasvæði Lýsu í September þar sem Matti landaði vænum laxi í vondu veðri og slatta af silungi.

Við óskum þér gleðilegra jóla og fengsæls nýs árs!

Texti: Ólafur Vigfússon