Nærmynd af horninu á silfurtarfinum. Tarfar flokkast í gull, silfur og brons eftir stærð hornanna.
Þessi grein birtist áður í blaðinu VEIÐI XIII sem Veiðihornið gaf út í maí 2024.
Tveir kátustu og um leið stoltustu ferðamenn í Leifsstöð að morgni 14. september 2023 voru þær Elsa og María. Kátínan stafaði af því að loksins var að hefjast draumaferðin til Eistlands að skjóta rauðhjört. Stoltið kom hins vegar til af því að þær voru báðar búnar að pakka niður fyrir fjögurra daga veiðiferð og tókst að koma öllum farangri í svo litlar ferðatöskur að þær mátti taka með í handfarangur. Eftir að þær voru komnar í gegnum öryggisleit og sestar yfir kaffibolla sagði María; ”Ég er stolt af okkur. Bara með handfarangur.” Elsa brosti brosinu, Já. Ég líka.
Ferðaáætlunin var hins vegar býsna knöpp þannig að þær urðu að ferðast létt. En afrekið sem þær upplifðu sig hafa unnið var staðreynd. Lokaskipulagning ferðarinnar var frágengin fyrir fjórum mánuðum, eða í maí. Þá væri Elsa búin að opna veitingastaðinn Silli kokkur með Silla sínum og María væri komin aftur frá Bólivíu með Óla sínum.
María og Elsa fyrir utan Leifsstöð. Bara með handfarangur.
Ferðalagið gekk vel. Tvær flugvélar, akstur og loks ferja. Áfangastaðurinn var lítið þorp á eyjunni Saaremaa í Eystrasaltinu. Þar er mikið skóglendi og fjöldi dýra sem hægt er að veiða. Allt frá úlfum til bjarndýra. Veiðunum er vel stjórnað og leyfi gefin sérstaklega út á dýr á borð við úlfa og birni. Síðari hluti september mánaðar er besti tíminn þegar kemur að hjartardýrum eða elg. Þá er fengitíminn hafinn og líf færist í skóginn.
Úrvals leiðsögumenn við krefjandi aðstæður
Eldsnemma voru þær stöllur, María Anna Clausen og Elsa Blöndal Sigfúsdóttir á fótum. Klárar í morgunmat og í fyrsta sokkaparinu af sjö. Morgunmat með þeim tók Triin Roostfeldt sem stjórnar Baltic Throphy fyrirtækinu sem skipuleggur veiðar á svæðinu. Hún sagði þeim að þær yrðu mikið að ganga um veiðisvæðið og fyrir þrjá daga þyrfti sjö pör af sokkum. Það reyndist þörf ábending.
Illviðri hafði gengið yfir eyjuna síðustu daga og var það að ganga niður þegar haldið var út á veiðilendurnar. Tré höfðu rifnað upp með rótum og fallið yfir slóða. Skógurinn var enn að svigna undan vindinum og það brakaði og brast í öllu. Triin hafði valið úrvals leiðsögumenn, vinahjón sín sem hún þekkti mjög vel og treysti til að skapa með þeim ævintýri.
Veiðifyrirkomulagið er þannig að farið er af stað snemma á morgnana, eða bara eins og birta leyfir. Veitt er fram til klukkan tíu en þá er haldið til baka. Seinni vaktin er svo frá fimm síðdegis fram í myrkur. Aðstæður sem þær Elsa og María voru í reyndust krefjandi. Læðast um skóginn og af og til tók við mýri þannig að gott var að vita af þurrum sokkum á hótelinu. Yfir miðjan daginn var svo boðið upp á skoðunarferðir og kynni við eistneska menningu.
Triin er af miklum veiðimönnum komin og tók sjálf veiðiprófið þegar hún var sextán ára. „Eldri bróðir minn sagðist myndi borga fyrir mig leyfið. Ég átti ekki fyrir því á þeim tíma. Mér gekk vel í verklega hlutanum en nennti hreinlega ekki að lesa fyrir sjálft prófið. Bróðir minn setti þetta þá þannig upp að ég yrði að gera betur en hann í skriflega prófinu. Annars myndi hann láta mig borga prófgjaldið til baka. Þetta voru umtalsverðir peningar fyrir sextán ára man ég. Hann kom svo til mín og sagðist hafa gert bara eina vitleysu á prófinu. Hann glotti og ég vissi að það var eins gott að undirbúa sig vel, annars yrði ég að endurgreiða honum. Svo kom að prófinu og ég var búin að pína mig til að lesa þetta alveg í drep. Það tókst. Ég fékk tíu á prófinu. Hann var alveg jafn ánægður og ég,“ hlær Triin þegar hún segir þessa sögu.
Fyrsta daginn sáu íslensku skytturnar nokkra rauðhirti en ekki með nægilega flottar krónur að mati leiðsögumanna. Leiðsöguhjónin höfðu metnað og vildu ná í eins flotta hirti og mögulegt var.
Íslandsvinurinn Triin
Um kvöldið var veisla og veitingar úr héraði af bestu gerð. Sagðar voru sögur af veiði bæði í Eistlandi og frá Íslandi. Triin er mikill Íslandsvinur og rekur áhuga sín og kynni til ársins 2015 þegar hún kynntist Hörpu Hlín Þórðardóttur hjá Iceland Outfitters, en Harpa og Stefán Sigurðsson maðurinn hennar reka meðal annars Ytri – Rangá og hafa stundað veiðiskap með byssu og stöng víða um heim. „Við Harpa smullum strax saman og erum í dag mjög góðar vinkonur. Ég og maðurinn minn fórum í heimsókn til þeirra á Íslandi og skoðuðum endalaust af fallegum stöðum. Harpa hefur komið hingað til okkar og veitt mörg af dýrunum okkar. Næst er stefnan hjá mér sett á að fara til Íslands og veiða í Ytri – Rangá. Yngsta stelpan mín er þriggja ára og ég er að bíða eftir að hún verði nógu gömul til að geta munað vel eftir ferðinni. Þar munum við saman skapa minningar sem endast alla ævi.” Triin er ekkert að ýkja þegar hún segir að þær Harpa séu góðar vinkonur. Litla stelpan hennar heitir einmitt í höfuðið á Hörpu og þær munu hittast nöfnurnar eitthvert næsta árið á bökkum Ytri – Rangár.
Dagur tvö rennur upp. Snemma að sofa – vakna snemma. Nú skal haldið á svæði þar sem þéttleiki rauðhjarta er með því mesta sem þekkist í Eistlandi og þótt víðar væri leitað. Fyrri hluti dagsins er spennandi. Mikið af dýrum og flottum. Það er tekist á. Tarfarnir nota hornin og kljást með þeim. Þeir baula og láta vita af sér.
Um kvöldið koma María og leiðsögumaðurinn hennar á stað þar sem þau heyra hornaglamur og atgang. Tveir vígalegir tarfar takast harkalega á. María mundar riffilinn. Færið er um þrjú hundruð metrar. Veðrið er stillt og leiðsögumaðurinn og skyttan skoða dýrin gaumgæfilega í öflugum sjónaukum. Báðir tarfar eru vígalegir. María má velja. Hún velur þann sem henni sýnist vera með aðeins stærri horn. Hún stillir kíki og bíður átekta eftir að hlé verði á bardaganum. Loksins gerist það. Tarfarnir eru vígamóðir og við tekur störukeppni. María kreistir gikkinn. Tíminn frá hvellinum þar til dýrið fellur er oft lengri í huga skyttunnar en í raunveruleikanum. Tarfurinn fellur. Dauðskotinn.
Þetta er stórkostlegt eintak og með horn og krónu sem flokkast sem silfurkróna. Það er eiginlega eins langt og hægt er að komast í þriggja daga veiðiferð. Gullkróna er eitthvað sem vanir veiðimenn eyða heilu veiðitímabilunum í að ná og tekst alls ekki alltaf.
Elsa fékk mörg færi þennan dag en leiðsögumaður með metnað vildi stærri krónu. Þetta snýst um þolinmæði og á morgun er nýr dagur.
Ný ævintýri.
Það er aftur veisla. Elsa spyr um úlfaveiðina. „Geta allir farið í hana?“
Triin útskýrir að það séu aðeins fá leyfi veitt á hverju hausti og þá snúist þetta um að taka skyndiákvörðun. „Við viljum helst hafa snjó og það má byrja að veiða þá 1. nóvember. En þá þarf allt að ganga upp, veður og aðrar aðstæður.“
Triin með úlfinn sem hún skaut. Hún var heppin viðurkennir hún.
Kvikmyndatökumaður var með í för og náði að mynda veiðina.
Allt í einu á úlfaveiðum
„Hefur þú þú skotið úlf?“ spyr María.
Triin brosir og andar djúpt. Það er eins og hún hafi beðið eftir þessari spurningu. ”Já. Það var svo magnað. Við vorum að skipuleggja rekstrarveiði þegar tilkynnt var um að sést hefðu sex úlfar í skóginum rétt hjá okkur. Þetta voru um áttatíu manns og allir vildu taka þátt í úlfaveiðinni. Fremur stórt svæði var merkt með rauðum veifum og veiðimenn stilltu sér upp við veifurnar. Ég var með kvikmyndatökumann og við ætluðum að gera þátt um rekstrarveiði. Við höfum gert marga slíka þætti og sýnum þá á Youtube rásinni okkar.
Við komum okkur fyrir og biðum. Þetta er náttúrulega spurning um mikla heppni hver fær sénsinn. Við máttum skjóta þrjá af þessum sex. Við vorum búin að bíða í nokkra stund ég og tökumaðurinn þegar ég sá hreyfingu ekki langt frá okkur. Og vá. Það var úlfur. Ég hvísla að tökumanninum. Úlfur. Hann var klár og við náðum bæði skotinu. Ég á úlfinn og hann að mynda skotið. Það fór alveg straumur um mig. Ég hvíslaði í talstöðina til veiðistjórans. Úlfur felldur.” Triin er á flugi þegar hún segir frá þessari veiði og stoltið leynir sér ekki.
„Já. Þessi er flottur“
Þriðji morguninn rennur upp. Fimmtu sokkapörin eru tekin úr litlu ferðatöskunum. Aftur er farið á sama stað og á degi tvö. Nú gengur allt upp. Elsa og leiðsögumaðurinn hennar sjá fljótlega myndarlegan tarf á rúmum tvö hundruð metrum. „Á ég að taka þennan,“ hvíslar hún. Leiðsögumaðurinn skoðar tarfinn vandlega í sjónaukanum. Lítur svo á Elsu og brosir. „Já. Þessi er flottur.“ Elsa er með gott skyggni á hann og hittir eins og lög gera ráð fyrir. Bronskróna er niðurstaðan. Ekki langt frá silfrinu. Vantar herslumuninn.
Þær eru báðar himinlifandi með túrinn. Triin er líka afskaplega sátt. „Við leggjum mikinn metnað í veiðina hér hjá okkur. Við gerum þetta af því að okkur finnst þetta skemmtilegt og með veiðinni erum við að hugsa um náttúruna. Það þarf að stýra því hversu mörg dýr geta komist vel af í skóginum. Þetta er ekki eins og maður heyrir af víða, verið að byggja upp gríðarlegar væntingar og rukka fyrir þær fyrirfram.“
Elsa og María fóru með dýrin í kjötvinnslu þar sem gert var að þeim og kjötið selt. Krónurnar eru verkaðar sérstaklega og þær fengu að fylgjast með þeirri vinnu. Pabbi annars leiðsögumannsins verkaði hauskúpurnar og hornin. Íslensku skytturnar gátu rétt svo komið krónunum í skottið á litla fólksbílnum.
Þær neyddust til að borga Odd-sized gjald undir krónurnar en sultan og niðursoðið bjarndýrakjötið sem Elsa vildi taka með fyrir Silla slapp í ferðatöskuna. Ekki álitlegt að fara með niðursoðið bjarndýrakjöt í öryggishliðið. Sjálfsagt hefði þurft að opna allar dósir.
Elsa, leiðsöguhjónin og María að afloknu ævintýrinu. Allt gekk upp.
Veiðistjórnun á svæðinu er til fyrirmyndar og mikil virðing borin fyrir náttúrunni og dýrunum. Þannig hefur veiðisamfélagið á Saaremaa eyju tekið upp þann sið á þessari öld að lýsa yfir friðun skógarins rétt fyrir jól. Þá er öll veiði aflögð fram yfir áramót, þó svo að lögum samkvæmt megi stunda veiðar. „Við gerum þetta meðal annars til að fara með börnin okkar út í skóg og skoða dýrin og kynna þau fyrir þeim og hvernig þau lifa. Við köllum þetta Skógarfrið og allir virða þennan sið. Margir fara með nesti og myndavélar og kveikja eld og njóta þess að skoða lífríkið án þess að vera að veiða.”
Þegar þær vinkonurnar kveðjast fyrir utan Leifsstöð hvíslar Elsa að Maríu. ”Þetta ætla ég aldrei að gera aftur.” María verður hissa. ”Hvað áttu við?”
„Að fara bara með handtösku.“
María er í Veiðihorninu flesta daga. Ef þú ert forvitin/nn um Eistnesku veiðilendurnar er best að mæta í Síðumúla og forvitnast hjá Maríu. Henni leiðist ekki að tala um Triin vinkonu sína og veiðina hjá þeim í Baltic Trophy.
Elsa, leiðsöguhjónin og María að afloknu ævintýrinu. Allt gekk upp.
Texti: Eggert Skúlason

