Hreindýraskytta í hálfa öld

Sigurður Aðalsteinsson skaut sitt fyrsta hreindýr fyrir rétt tæpum fimmtíu árum Ljósmynd: Golli

Þessi grein birt­ist áður í blaðinu VEIÐI XIII sem Veiðihornið gaf út í maí 2024. 

Hefur sjálfur skotið um 600 dýr og flest í óleyfi

Bærinn Vaðbrekka í Hrafnkelsdal, sem gengur suður úr Jökuldal á Austurlandi er tengdur hreindýraveiði sterkum böndum. Það eru líklega fáar fjölskyldur á Íslandi sem bera ábyrð á fleiri skotnum dýrum en ábúendur á Vaðbrekku í gegnum tíðina. Sigurður Aðalsteinsson skaut sitt fyrsta hreindýr fyrir rétt tæpum fimmtíu árum. „Ég var átján ára og hefði skotið það miklu fyrr ef ég hefði þurft þess. En ég var alltaf með pabba og bræðrum mínum og var að gera að dýrunum og taka innan úr og annað sem fylgdi þessu. Þetta var árið 1975, þannig að það er að detta í hálfa öld.“

Hann er verður 67 ára í haust en labbar enn flesta veiðimenn af sér, ef því er að skipta. Siggi er hreindýraleiðsögumaður á svæðum 1 og 2 og þekkir þær slóðir eins og  lófana á sér. Hann hefur verið í leiðsögn frá árinu 1991 og hefur aðstoðað skyttur við að fella rúmlega fimmtán hundruð dýr á ferlinum. Sjálfur hefur Siggi skotið ríflega sex hundruð dýr og þau flest í óleyfi, upplýsir hann. Komum betur að því síðar.

Að afloknum árangursríkum veiðidegi. Sigurður Aðalsteinsson hefur stundað
hreindýraveiðar og leiðsögn í rétt tæp fimmtíu ár.

„Ég er að fara með sjötíu til áttatíu veiðimenn á hverju tímabili. Nú er þetta fyrst fremst á svæði eitt því að þeir klúðruðu þessu svo rækilega á svæði tvö. Það er einfaldlega mikil sorgarsaga. Það var um árabil settur of hár kvóti á svæðið sem leiddi til þess að það var ofveitt. Síðustu fimm árin voru við leiðsögumenn búnir að liggja grenjandi í þeim að minnka kvótann. Þetta myndi fara illa, en það var aldrei hlustað á okkur. Þetta endaði með því að árið 2022 þá var settur 170 dýra kvóti á svæðið. Sjötíu tarfar og hundrað simlur. Þegar við byrjuðum að veiða 1. ágúst, þegar veiðitímabilið byrjaði þá voru nákvæmlega 130 dýr á svæðinu öllu.“ Sigurður segir að hann sé flesta daga veiðitímabilsins á svæðinu ásamt fleiri leiðsögumönnum og þeir viti upp á hár hversu mörg dýrin séu og að mestu hvar þau haldi sig.

Skemmdi fyrir okkur og fækkaði dýrunum

„Það var ekki hlustað á okkur og ég held að þar spili inn í menntamannahroki. Ég veit ekki hvað þetta ætti annað að vera. Við lögðum til við Umhverfisstofnun að stöðva veiðarnar á svæðinu og endurgreiða leyfin. Þeir vildu það nú ekki en sögðu að þeir veiðimenn gætu fengið leyfin endurgreidd sem vildu það. Svo var þessu skarað yfir á svæði eitt og sex og þar voru menn nú einfaldlega að skera undan sér að auka veiðina á svæðum þar sem þegar voru fullnýttir kvótar. Þetta skemmdi heilmikið fyrir okkur og fækkaði dýrunum. Á þessum tímapunkti fórum við leiðsögumennirnir með þetta í fjölmiðla og þá var allt í einu farið að hlusta á okkur. Í fyrra var kvótinn á svæði tvö settur á fimmtán tarfa og fimmtán simlur. Við höfðum beðið um að ekki yrðu veitt leyfi nema fyrir tuttugu dýrum og þá fyrst og fremst til að við leiðsögumennirnir værum á svæðinu og ættum þangað erindi. Þessi dýr voru veidd í fyrra og við sáum aðeins batamerki á svæðinu.“

Siggi telur misráðið að hlusta ekki meira á leiðsögumennina sem þekkja þetta betur en nokkrir aðrir. Aftur verða þrjátíu leyfi á svæði tvö í haust en nokkur fækkun á svæði eitt út af þessu skörunar fyrirkomulagi sem hann vitnaði til.

„Það er búið að minnka kvótann úr þrettán hundruð dýrum fyrir fimm árum í átta hundruð dýr núna. Það hefði verið hægt að gera þetta svo miklu betur ef menn hefðu haldið kvótanum á bilinu þúsund til ellefu hundruð dýr. Ef við höfum þetta minna og jafnara þá bjargast þetta betur. Það er allt komið fram sem við veiðileiðsögumenn vorum að segja á sínum tíma.“

Sigurður gagnrýnir fyrirkomulagið að Náttúrustofa Austurlands fái hluta af greiðslu hvers veiðileyfis í sinn hlut. Hann segir þetta ekki vera gott fyrirkomulag. Það auki pressuna á að auka kvótann og hafi orðið til þess að kvótinn hafi verið of ríflegur. Hann telur eðlilegt að rjúfa þessa tengingu og Náttúrustofan fái bara fast fjárframlag óháð kvóta hreindýra.

Talið berst að skyttunum sem Siggi er að aðstoða. Getur hann búið til samnefnara yfir íslenska veiðimenn?

„Þeir eru jafn misjafnir og þeir eru margir, eins og þar stendur. Það má kannski segja að þriðjungurinn eru afbragðs veiðimenn. Þriðjungur eru menn sem eru leitandi og taka leiðsögn vel og hafa áhuga á að læra þetta og komast vel inn í sportið. Síðasti þriðjungurinn er svo menn sem vita ansi mikið og taka verr leiðsögn. Ég hef nú alltaf svolítið gaman af síðasta þriðjungnum og sérstaklega þeim tíu prósentum sem eru alveg gaga.

Ljósmynd: Golli

„Ég hef það lag á þessu að ef menn hlýða mér ekki og hafa aðrar hugmyndir þá bara yppti ég öxlum og þeir fá frítt spil. Svo þegar þeir eru búnir að reka sig á og gera einhverja helvítis vitleysu þá segi ég stundum. Það hefði kannski verið betra að gera þetta eins og ég var að tala um. Þá segja menn oftast frekar lítið.“

„Ég ætla í bílinn. Þið ráðið hvert þið farið“

Siggi nefnir að hann var eitt sinn með tvo veiðimenn og þeir höfðu gengið á eftir dýrum og voru búnir að veiða það sem til stóð. Aðeins var byrjað að rökkva og svo skall á þoka. Siggi sagði þá. „Jæja, það er best að koma sér í bílinn.“ Hann labbaði af stað en veiðimennirnir mótmæltu. „Bílinn er ekki í þessa átt,“ sagði sá er var í forsvari fyrir þá. Siggi sagði ekki eitt einasta orð í nokkurn tíma og horfði á þá undrandi. Svo sagði hann. „Ég ætla í bílinn. Þið ráðið hvert þið farið.“ Hann labbaði svo af stað. Veiðimennirnir horfðu tvístígandi á eftir honum. „Þegar ég var alveg að hverfa í þokuna þá ákváðu þeir að lufsast á eftir mér. Þeir sögðu svo ekkert þegar við komum að bílnum stuttu seinna.“ Siggi skellihlær.

Hann rifjar upp aðra sögu úr þessum sama flokki. Vettvangurinn var eldhúsborðið á Vaðbrekku. Siggi kominn í gírinn og byrjaður að segja sögur. Einn í flokki veiðimanna sem á hlýddu var af ætt Konnara. „Það var orðin góð stemming og þeir sátu opinmynntir og hlustuðu á sögur. Nema Konnarinn hann stoppaði mig í miðri sögu og sagði, „Nei. Þetta getur ekki hafa verið svoleiðis.“ Hann hafði eitthvað meira vit á þessu en ég. Ég staldraði við og horfði á hann með miklum fyrirlitningasvip, segja þeir sem á horfðu. Svo þurfti Konnarinn nokkru síðar að ná andanum og þagnaði eitt augnablik og þá greip ég fram í fyrir honum og spurði: Ert það þú eða ég sem er búinn að vera þrjátíu ár á hreindýraveiðum? Hann steinþagnaði og sagði ekki meira það kvöldið. Vinir hans ætluðu hins vegar aldrei að hætta að hlæja.“ Það sama á reyndar við um okkur Sigga þegar hann lýkur sögunni.

Hvað þarf til að vera þokkalegur veiðimaður þegar farið er í þetta sport?

„Það þarf að hafa svona eðlilegan áhuga á veiðum og opinn huga. Menn eru voðalega misjafnir þegar þeir koma. Sumir eru svo miklir veiðimenn í sér að þetta liggur alveg fyrir þeim. Eru opnir og vilja fræðast. Um leið og það er þá yfirleitt gengur þetta vel. En oft eru líka á ferðinni menn sem hafa heilmikið til síns máls og geta komið með afbragðs athugasemdir.“

Hann fær til sín alls konar veiðifólk á hverju hausti. Hér fer hann yfir málin með ungri danskri konu.

Sumir höfðu aldrei skotið úr riffli

Væntanlega hjálpar til að menn séu í þokkalegu formi og þekki vopnin sín?

„Það hefur gerbreyst með vopnin eftir að skotprófin komu til. Því að ég var að lenda í alls konar vandræðum með þann þátt. Ég fékk menn til mín sem höfðu aldrei skotið úr riffli. Gamla byssuleyfið var þannig að þegar þú varst búinn að vera með leyfið í eitt ár, þá fékkstu sjálfkrafa leyfi á riffil. Ég var að lenda í alls konar aðstæðum með menn. Sumir voru með lánsriffla og höfðu aldrei skotið úr þeim og ástandið á byssunum var með ýmsum hætti. En eftir að skotprófin komu þá er þetta yfirleitt í lagi. Hins vegar er það oft aðeins flóknara þegar er komið á veiðar. Menn hafa tekið skotprófið á hundrað metra færi en þegar færið lengist þá geta einhverjir lent í vandræðum. Sumir vita upp á hár hvernig kúlan fellur á tvö og þrjú hundruð metrum og geta stillt rifflana af. Klikkað þá inn eins og kallað er. Ef mönnum gengur illa með þetta þá læt ég menn nota minn riffil sem er auðvelt að stilla sjónaukann á. Það er Bergara riffill sem ég keypti hjá Jóa Vill vini mínum. Riffillinn sjálfur er ekki mjög dýr. Kostar kannski tæp tvö hundruð þúsund. En kíkirinn kostar fjögur hundruð þúsund. Hann er mjög auðveldur í stillingu á fjarlægð.“

Það var efnt til námskeiðs fyrir hreindýraleiðsögumenn og segir Siggi að farin hafi verið skemmtileg leið í því námi. Þeir sem sóttu um að komast á námskeiðið þurftu meðmæli frá reyndum hreindýraleiðsögumanni. „Reyndur leiðsögumaður þurfti að uppfylla það að hafa farið með að lágmarki fimmtíu veiðimenn á veiðar, til að mega gefa meðmæli. Þar við bætist að áður en menn verða fullnuma leiðsögumenn þurfa þeir að fara í tvær reynsluferðir með leiðsögumönnum. Til þess að ég megi fara með menn í prufutúr, þá þarf ég að hafa farið með 25 veiðimenn á það svæði sem viðkomandi er að fá löggildingu á. Í dag er nefnilega bara hægt að sækja um að verða leiðsögumaður á einu tilteknu svæði. Ég er með réttindi til að taka nema á svæði eitt og tvö og það munaði ægilega litlu að ég hefði líka réttindi á svæði sex. Ég var nú feginn að það gekk ekki eftir. Ég var búinn með held ég 24 dýr á því svæði. En við þetta tækifæri varð ég forvitinn og spurði starfsmann Umhverfisstofnunar hvort þeir vissu þá ekki nákvæmlega hvað ég hefði aðstoðað við mörg leyfi, eða dýr. Jú hann sagðist vita það en þeir eru bara með upplýsingar frá árinu 2000 til og með 2023. Það sem var veitt fyrir aldamót var handskrifað og það á eftir að færa það inn í tölvukerfið. Umhverfisstofnun fann ekki tölvurnar fyrr en árið 2000.

Hvað um það. Í fyrra var ég búinn að leiðsegja á 702 dýr á svæði eitt. Á svæði tvö var ég búinn með 690 leyfi og svo er slangur á einhverjum öðrum svæðum. Þannig að ég er búinn að fara með um fimmtán hundruð manns á veiðar frá árinu 2000. Þannig að ég tel mig vera með þokkalega reynslu í þessu.“ Siggi hlær og hefur gaman af þessu, sérstaklega tölvuleysinu á síðustu öld.

Siggi er sérvitringur og hann veit það. Hann notar til dæmis ekki debetkort. Sýslar eingöngu með reiðufé. Enginn ætti að vera hissa á að sjá hann í gulum stígvélum á heiðum uppi.

Villta vestrið og Vaðbrekka

En fyrir aldamót Siggi? Það gengu miklar tröllasögur um að þetta væri hálfgert villta vestrið þegar kom að hreindýraveiði og þar held ég að margir hafi horft til Jökuldals og kannski jafnvel til Vaðbrekku.

„Þetta var alveg villta vestrið. Já. Þessi sex hundruð dýr sem ég skaut á sínum tíma voru flest skotin í óleyfi. Við erum þrír bræðurnir og vorum í þessu af krafti. Ég man að leyfum var úthlutað á bæina og það var tvíbýlt á Vaðbrekku því afi og amma voru þarna ennþá. Þá fengum við iðulega úthlutað átta dýrum á bæinn. Það var talað um fjögur dýr á heimili. Svo var farið og veitt og við vorum mikið í því bræðurnir og við vildum helst skjóta átta dýr í hvert skipti. Það gat alveg teygst upp í tíu til tólf dýr. Við komum með dýrin heim og flógum þau og seldum kjötið. Svo var þetta helvíti étið endalaust. En ef það komst ekki upp að við værum búnir að skjóta þessi átta þá sögðum við bara ekki frá því og fórum svo aftur. Svona gekk þetta oft á hausti og við vorum oft með einhverja tugi hreindýra.

Óli í Merki var eftirlitsmaður og flottur karl. Einhverjir í nágrenninu töldu sig vita að við bræður værum þaulsetnir við þetta. Bændur sumir höfðu horn í síðu okkar og töldu að við værum að stela mörgum hreindýrum. Ég fór og ræddi við Óla og þá sérstaklega um hversu erfiðlega okkur gekk með þessi hreindýr. Við ættum í vandræðum með að finna þau og þegar við loksins finndum þau þá hittum við svo illa. Þá sagði Óli og flissaði; „Já. Ég veit það, þið veiðið aldrei neitt.“ Ég talaði mikið um þetta við hann hvað illa gengi. Svo kom að því að bændur kvörtuðu við Óla undan okkur bræðrum, að við værum kræfir í hreindýrunum. Þá hnussaði í Óla; „Strákarnir á Vaðbrekku, þeir veiða nú aldrei neitt.“ Þar strandaði það og Óli var ekkert tilbúinn til að rannsaka það þar sem hann vissi að við værum klaufar og veiddum aldrei neitt. Mér fannst ágætt að hafa þetta svoleiðis.

Svo var það eitt haustið að ég var búinn að veiða ágætlega. Ég hringdi í Óla í sveitasímanum sem þá var, og sagði honum að við værum búnir að ná fjórum dýrum af þessum átta. Hefðum haft það af. Hreindýratíminn var ekki alveg búinn og ég spurði hann hvort hann gæti ekki selt fyrir mig restina af dýrunum. „Jú. Það er ekkert mál,“ sagði Óli og seldi fyrir mig leyfin og ég fékk þau greidd. En þeir voru víst nokkuð hneysklaðir margir sem voru að hlusta á sveitasímann þegar þessi viðskipti voru rædd. Þarna sérðu alveg hvernig þetta villta vestur var.“

Hann viðurkennir að villta vestrið hafi verið andrúmsloftið á síðustu öld þegar kom að hreindýraveiðum. Sjálfur segist hann hafa skotið um sex hundruð dýr og flest öll í óleyfi.

Vilhjálmur hreindýraþjófur

Sigga leiðist ekki að rifja upp þessa tíma en allt er þetta löngu fyrnt. Hins vegar vissu allir sem vildu vita að fleiri hreindýr voru felld fyrir austan en leyfi voru fyrir. Hann nefnir atvik sem hann hafði óskaplega gaman af á sínum tíma.

„Vilhjálmur á Skjöldólfsstöðum kom einu sinni í viðtal í fréttum í sjónvarpinu vegna þess að hann hafði verið tekinn við að stelast á hreindýr. Ágúst Ólafsson, fréttamaður tók það viðtal og hann spurði Villa um fullt nafn og starfsheiti til að birta á skjánum með viðtalinu. Ágúst spurði hann hvaða starfsheiti hann ætti að nota. Vilhjálmur svaraði; „Er ekki best að setja hreindýraþjófur?“ Svo birtist viðtalið og þá stóð Vilhjálmur Snædal, hreindýraþjófur á skjánum. Gústi var svo að eitthvað að spyrja hann í framhaldinu og meðal annars hvort menn væru alveg hættir að stela hreindýrum. Ertu bara orðinn einn í þessu? Hann svaraði; „Þeir fóru allir í eftirlitið.“ Hann sagði þetta í viðtali í sjónvarpinu. Og það var raunar þannig að við fórum flestir í leiðsögn og eftirlit og eftir það hef ég ekki þorað að stela hreindýrum því að það skiptir mig miklu máli að halda þessu leiðsögumannaleyfi.“

Siggi hlær hátt og innilega þegar hann segir frá viðtalinu við Vilhjálm hreindýraþjóf. Hann hlær reyndar svo mikið að hann er lengi að jafna sig.

Siggi er duglegur á samfélagsmiðlum yfir veiðitímann og má finna hann undir nafninu Veiðimeistarinn, bæði á Instagram og Snapchat. Auðvitað fær hann af og til ósmekklegar athugasemdir frá fólki sem hann heldur að séu grænkerar eða eitthvað svoleiðis. Þá er verið að kalla hann ýmsum nöfnum en hann nennir ekki að vera að eyða tíma í það fólk. Hann einfaldlega blokkar þetta fólk en svarar því aldrei. „Ég rífst ekki við þetta fólk. Ég bara blokka það.“

Simla, það er rétta orðið

Eitt áður en við hættum. Simla. Hvaðan kemur það orð?

„Það er rétta orðið yfir kúna. Þegar norrænir menn flytjast til Íslands í fyrndinni þá þekktu þeir væntanlega hreindýr úr sínum heimkynnum en búa svo hér í hreindýralausu landi þar til 1771 að hingað eru flutt inn hreindýr. Þá er þetta orð gleymt í málinu og dýrin voru bara send með kaupskipi og enginn verið til að kenna þeim. Bændasamfélagið hér fór bara að kalla þetta beljur og tarfa. Þeir kunnu ekki annað.  Stefán hreindýrabóndi á Grænlandi kenndi mér þetta og hreindýrskýr eru kallaðar simlur á öllum norðurlöndunum og ég vil að við höldum okkur við það.“

Við kveðjum Sigga. Þessa lifandi goðsögn sem í haust verður löggilt gamalmenni. Hann er þó í útliti og háttum eins langt frá því starfsheiti eins og hugsast getur. Þegar við kveðjum hann nikkar hann með hausnum um leið og hann hendir á okkur kveðju. Það síðasta sem við sjáum er taglið sem sveiflast hressilega um leið og hann snýr við okkur baki og heldur sína leið.

Sigurður Aðalsteinsson frá Vaðbrekku. Ljósmynd: Golli

Texti: Eggert Skúlason