MATCH THE HATCH

Þessi grein birt­ist áður í blaðinu VEIÐI XIII sem Veiðihornið gaf út í maí 2024. 

Kastað á klakið!
– Í takt við klakið!
Parað við pödduna!

Tungutakið okkar virðist stundum stirt og ekki alltaf auðvelt að snara öllum þessum flottu ensku frösum yfir á íslensku. Við eigum fjölda orða yfir snjó, vind og veður yfir höfuð en erum fátæk í orðavali þegar kemur að skordýrum og klakinu.

Veiðimenn sem veitt hafa silung í Colorado og Montana í Bandaríkjunum og kíkt í veiðibúðir á þeim slóðum rekur oft í rogastans. 

Gjarnan eru flugubarir þar tæmdir og nýjar flugur settar upp, allt eftir árstíma því þar er veitt í takt við klakið.  Jafnvel eru flugubarir veiðibúða gjörbreyttir aðeins fjórum til sex vikum eftir að þeir voru heimsóttir síðast.

Þetta hefur vakið athygli okkar Maríu þegar við höfum heimsótt flugubúðir og kastað fyrir silung í Colorado River í Klettafjöllunum, Lower Madison og Missouri River í Montana, mekka silungsveiða í Bandaríkjunum.

Síðasta veiðiferð gekk svo vel og við ætluðum að fylla á boxin með flugunum sem virkuðu svo vel þá en viti menn, gömlu góðu flugurnar allar horfnar og nýtt úrval komið á flugubarinn.

Lífið hjá veiðibúðaeigendum á Íslandi er einfaldara.  Við skutlum bara Peacock, Héraeyra, Krók og Fasanastéli í flugubarina í mars og fyllum vel á út september að viðbættum nokkrum Squirmy orma­flugum sem bæst hafa við síðustu árin.

Auðvitað er þetta nokkur einföldun

Silungsveiðin hefur tekið miklum breytingum síðustu árin.  Fjölmargir fluguveiðimenn, ekki síst af yngri kynslóðinni hafa náð mikilli leikni í silungsveiði ekki síst vegna þess að þeir hafa komið sér upp mikilli þekkingu á lífríkinu og hegðun fiskanna sem þeir kasta á.  Glögg merki þess má sjá í grein Óla urriða og viðtali við þá Caddisbræður sem lesa má hér í blaðinu þínu.

Fyrir bráðum þrjátíu árum þegar við fórum að selja flugur í Veiðihorninu seldum við Killer, Peacock, Black Zulu, Peter Ross, Teal & Black  og nokkrar fleiri í stærðum 10 og 12 og allar silungaflugur vour hnýttar á tvíkrækjur.  Ég minnist þess að það var erfitt að sannfæra silungsveiðimenn fyrir kvartöld um að einkrækjur veiddu ekki síður en tvíkrækjur.

Það eru einhverjar óútskýrðar skapsveiflur í laxinum sem valda því að hann tekur flugu.  Silungur tekur flugu einfaldlega af því hann er svangur og tilbúinn að éta.  Silungsveiðimenn þurfa því að finna út hverjir eru vinsælustu réttirnir á matseðlinum þá stundina ef ná á árangri á bakkanum.

Til þess að auðvelda okkur lífið höfum við látið setja saman nokkra flugupakka í takt við klakið. Flugupakkarnir eru fáanlegir í nokkrum útfærslum; “Midge Subsurface”, “Green Drake Life Cycle”, “Early Season Stonefly” og “Early Season Caddis” svo eitthvað sé nefnt.

Samsetningar pakkanna eru byggðar á reynslu og ráðgjöf reyndra veiðimanna og allar flugurnar eru vandaðar, hnýttar af snillingunum hjá Shadow Flies.

Fylgjumst með lífríkinu og pörum við pöddurnar í sumar.

Flugupakkar í vefverslun

Texti: Ólafur Vigfússon