Loksins er hún að taka á sig mynd, ný vefsíða Veiðihornsins.
Fyrsta vefsíða okkar leit dagsins ljós 1998 og fyrsta netverslunin 1999.
Þá fór verslun á netinu gjarnan fram með þeim hætti að viðskiptavinir mættu með útprentun af vöru á vefsíðunni í verslun okkar í Hafnarstræti 5 og sögðust ætla að fá það sem á blaðinu var. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.
Önnur kynslóð þjónaði okkur í um 15 ár og var löngu orðin barn síns tíma.
Þar til fyrir fáeinum misserum hafa íslenskar netverslanir fyrst og fremst þjónað viðskiptavinum sem einskonar gluggi á vöruframboð verslana. Sökum þess hve stutt er í allt, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu hefur fólki þótt þægilegra að skoða vörur og jafnvel taka ákvarðanir við tölvuskjáinn eða með símann í höndunum og fara svo í verslunina sjálfa til þess að ganga frá kaupunum.
Á tímum kórónufaraldurs lærðum við íslendingar að versla á netinu og uppgötva þægindin við það.
Í byrjun 2021 hófst undirbúningur að þriðju kynslóð vefsíðu Veiðihornsins með fullkominni netverslun, beintengdri við birgðakerfi fyrirtækisins. Við ákváðum að gefa okkur góðan tíma, gera hlutina vel og ekki rasa um ráð fram. Hægt og bítandi hófum við að byggja upp vöruúrval og upplýsingar á nýjum vef.
Útlit vefsins birtist veiðimönnum snemmsumars en við ákváðum að bíða með allar vörutengingar fram á haustið vegna mikilla anna á búðargólfinu sjálfu í allt sumar.
Við erum hvergi hætt hér. Við erum rétt að byrja.
Næstu daga, vikur og mánuði mun vöruúrvalið aukast jafnt og þétt dag frá degi bæði í skotveiðiverslun og stangveiðiverslun Veiðihornsins, veiðibúðar allra landsmanna á netinu.
Fylgstu með, fáðu fréttirnar fyrst og lukkan gæti leikið við þig.
Skráðu þig á póstlistann okkar hér.
Vertu velkomin/n í Veiðihornið á netinu.
Óli