Hvernig hnýtir þú þinn Peacock?
Viltu ekki koma, fá þér rjúkandi kaffibolla eða kakó, og koma þér þægilega fyrir við hnýtingaborðið í Veiðihorninu og taka þátt í Peacock hnýtingarkeppni?
Fyrir þrjá áhugaverðustu Peacock-ana sem hnýttir verða, verða veitt verðlaun, glæný flugulína að eigin vali. En eins og allir fluguveiðimenn vita, til þess að koma flugunni á réttan stað, er nauðsynlegt að hafa góða og vandaða flugulínu.
Það er án alls efa hægt að fullyrða að heimsins besti Peacock sé sá sem fiskurinn tekur hverju sinni. Betri Peacock er ekki hægt að biðja um. Flugan eða réttara er nú að kalla Peacock púpu, var hönnuð af Kolbeini Grímssyni kennara við bókagerðardeild Iðnskólans í Reykjavík og einum af stofnendum veiðifélagsins Ármanna. Kolbeinn er auðvitað flestum íslenskum fluguveiðimönnum kunnur, enda mikill frumkvöðull í fluguveiði á Íslandi.
Peacock hefur frá því hún var fyrst hnýtt, verið afar gjöful í silungsveiðinni. Púpan er einföld í grunninn, þó hún líki nú eftir afskaplega flókinni og vandaðri hönnun í náttúrunni. Það er vel hægt að segja að vorflugulirfan sé listamaður náttúrunnar. Hún byggir utan um sig afar vandað klakhylki. Hylkið er svo misstórt, enda lirfurnar misstórar eftir aldri og tegund. Þær stærstu verða um 2 sm. Í straumvatni er hylkið oftar en ekki samsett úr fínni möl eða sandi, en einnig má finna vorflugutegundir þar sem lirfan gerir sér klakhylki úr gróðurleyfum. Peacock púpan hans Kolbeins getur í raun líkt eftir þeim báðum. Svo vandvirk er lirfa vorflugunnar við smíði klakhylkisins að hún velur af kostgæfni hvert steinkorn sem í grjóthylkið fer, og allt verður að passa 100%. Svo ótrúlegur hagleikssmiður er lirfan að franski listamaðurinn Hubert Duprat hefur unnið náið með lirfum vorflugunnar við hönnun á ótrúlegum skartgripum, þar sem listamaðurinn sáldrar gullflögum og öðru skarti í lítinn straumtaum á vinnustofu sinni og leyfir lirfunni að gera það sem hún gerir best.
Margir fluguhnýtarar nú til dags, hafa byrjað sinn hnýtingarferil á því að hnýta Peacock. Púpan er enda frábær til þess, þar sem hún er frekar einföld hnýting, veiðir mjög vel og gefur um leið nýjum hnýtara sjálfsöryggið til að treysta á sínar eigin flugur. En þó hnýtingin sé mögulega einföld, þá er lærdómurinn mikill ef fyrirmyndin er skoðuð nánar. Hver sem er getur brugðið sér að næsta læk er fer að vora og velt þar við stein við bakkann og þar má oftar en ekki finna grjóthylki vorflugunnar. Lirfuna má þó finna í vatni allan ársins hring, en líklega auðveldara að stunda slíkar rannsóknir þegar fer að vora. Forvitnir og fróðleiksfúsir hnýtarar ættu að taka eitt slíkt hylki upp og opna. Verðlaunin má finna innan í. Oft á tíðum gulgrænn próteinbiti, sem er lirfan sjálf. Silungurinn lætur þó grjóthylkið ekki stoppa sig í því að ná sér í álíka orkubita, heldur gleypir hylkið heilt og meltir lirfuna innan úr. Grjótmulningnum skilar hann síðan út um meltingarveginn.
Vorflugan fer í gegnum svokallaða fullkomna myndbreytingu, það er að segja lífsstigin eru egg, lirfa, púpa og flugan sjálf. Vorflugan fylgir fluguveiðimönnum því allt tímabilið. Allt frá Peacock yfir í gjöfular þurrflugur eins og Caddis. Þá er vorflugan komin í það form að vera 10-20 mm tvívængja, ekki ólík fiðrildi. Vorflugan er því gríðarlega mikilvæg lífríkinu sem og okkur veiðimönnum.
Það er svo æði misjafn hvernig veiðimenn vilja hafa sinn Peacock. Við hjá Veiðihorninu sátum einn hvítan og kaldan vetrardag við hnýtingarborðið í búðinni og létum okkur dreyma um sumarið. Talið barst að Þingvallavatni og út frá því tali, yfir í þessa mögnuðu púpu sem Peacock er. Krókar fóru í væsana og eftir stutta stund voru tilbúnir nokkrar glæsilegir Peacock, en þó hver ólíkari öðrum. Einn vildi hafa sinn Peacock vindlalaga og feitan en annar beinan og mjóan. Enn einn hnýtti sinn með kúlu en annar kúlulausan. Þetta fannst okkur afar áhugavert og settum því til gamans af stað litla keppni um heimsins besta Peacock. Því eins og sagði hér í upphafi, þá er heimsins besti Peacock, sá sem fiskurinn tekur hjá veiðimanni hverju sinni. Keppnin vatt upp á sig og fljótlega fóru viðskiptavinir að setjast niður við væsana hjá okkur í búðinni og hnýta sínar eigin útgáfur af Peacock og úr varð enn frekari keppni.
Okkur fannst þetta virkilega skemmtileg þróun og ákváðum að auka spennuna enn frekar með glæsilegum vinningum. Fyrir þrjá áhugaverðustu Peacock-ana sem hnýttir verða, verða veitt verðlaun, glæný flugulína að eigin vali. En eins og allir fluguveiðimenn vita, til þess að koma flugunni á réttan stað, er nauðsynlegt að hafa góða og vandaða flugulínu. Við í Veiðihorninu búum einmitt svo vel að vera með landsins glæsilegasta úrval af flugulínum.
Hvernig hnýtir þú þinn Peacock? Viltu ekki koma, fá þér rjúkandi kaffibolla eða kakó, og koma þér þægilega fyrir við hnýtingaborðið í Veiðihorninu og taka þátt? Það er fátt betra en að byrja nýtt veiðitímabil með glænýja flugulínu ef þú verður svo fyrir valinu.