Black Brahan og Elliðaárnar

Fyrir mörgum árum sagði við mig góður maður sem nú er fallinn frá; „Óli, ef þú ferð með eina flugu í Elliðaárnar skaltu taka með þér Black Brahan á silfurþríkrók númer 10 eða 12.“

„Þú ferð með þessa flugu í Fljótið en athugaðu að það verður að vera gára. Þú stendur í vesturlandinu og kastar að austurbakkanum. Neðarlega á austurbakkanum er sef og rétt utan við það er steinn. Þú sérð aðeins dökkan blett þar því steinninn er á kafi. Kastaðu nú þessari flugu og láttu hana reka yfir steininn. Ef það liggur fiskur þarna sem gerist oft þá tekur hann þessa flugu.“

Ég, ungur maðurinn þá hlustaði með athygli á Guðjón Tómasson heitinn, þann kunna fluguveiðimann og hnýtara.

Skömmu síðar átti ég Elliðaárnar. Þetta var síðsumars og ég rauk beint uppá frísvæði minnugur leiðbeininga Guðjóns. Þegar ég var kominn að Fljótinu rýndi ég yfir vatnsflötinn og fann steininn. Strax í fyrsta rennsli tók hann og skömmu síðar lágu þrír laxar á bakkanum sem allir lágu við steininn og allir tóku þeir þessa flugu.

Svo oft hef ég sagt viðskiptavinum mínum þessa sögu, standandi við flugubarinn í Veiðihorninu þar sem veiðiflugur eru ræddar. Og svo oft hafa komið til mín viðskiptavinir brosandi út að eyrum, nýkomnir úr Elliðaánum sem hafa sagt „Óli, mannstu þegar þú sagðir mér frá Black Brahan og Fljótinu?“

Það er svo magnað með þessa fallegu og einföldu flugu hvað hún veiðir vel, ekki síst síðsumars og ekki síst við steininn í Fljótinu þegar vatnið gárar.

Góða skemmtun á veiðislóð,
Óli

Lax stekkur í Sjávarfossi. Ljósmynd/HÓ