Mega veiða frá föstudegi til þriðjudags

Veiðitímabil rjúpu verður frá 1. nóvember til 4. desember í ár. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson


Veiðitíma­bil rjúpu verður frá 1. nóv­em­ber – 4. des­em­ber í ár. Heim­ilt verður að veiða rjúpu frá föstu­degi til þriðju­dags, frá kl. 12 þá daga sem veiði er heim­il og skal veiði ein­göngu standa yfir á meðan að birtu nýt­ur.

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, hef­ur staðfest þetta er seg­ir í til­kynn­ingu á vef Stjórn­ar­ráðsins.

Veiðimenn flykk­ist ekki á Norðaust­ur­land

Seg­ir í til­kynn­ing­unni að ráðlögð veiði úr stofn­in­um á þessu ári er um 26 þúsund fugl­ar, en stærð rjúpna­stofns­ins hef­ur dreg­ist sam­an síðustu ár. Biðlar ráðherra til veiðimanna að sýna hóf­semi í veiðum í ljósi viðkomu­brests á Norðaust­ur­landi og Vest­ur­landi, en slæmt tíðarfar í vor og sum­ar er lík­leg­asta skýr­ing­in á viðkomu­brest­in­um.

Þá hvet­ur ráðherra veiðimenn til þess að flykkj­ast ekki á Norðaust­ur­landið til veiða og eru veiðimenn á því svæði hvatt­ir sér­stak­lega til að sýna hóf­semi.

„Ég hef lagt áherslu á að Um­hverf­is­stofn­un setji í for­gang að hraða vinnu við gerð stjórn­un­ar- og verndaráætl­un­ar fyr­ir rjúp­una og að á grund­velli henn­ar verði fyr­ir­komu­lag veiða í framtíðinni ákveðið,“ seg­ir Guðlaug­ur í téðri til­kynn­ingu.

Er veiðimönn­um bent á að kynna sér tak­mark­an­ir á veiðum á friðlýst­um svæðum og eru þeir hvatt­ir til góðrar um­gengi um nátt­úru lands­ins. Þá er ít­rekað að sölu­bann er á rjúp­um og á það jafnt við um sölu til end­ur­söluaðila og annarra.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is