Bluetooth málbönd og nýtt smáforrit frá Precision Inc.
Þetta virta bandaríska fyrirtæki hefur nú sett á markað skemmtilegt málband sem tengist með bluetooth við símann þinn. Hlaðið er niður Precision „appinu“ sem leiðréttir lengdarmælingar fiska sé ekki mælt rétt.
„Appið“ er svo hægt að beintengja við gagnagrunn Hafrannsóknarstofnunar og allir mældir fiskar eru sjálfvirkt komnir rétt skráðir í vísindalegan gagnagrunn stofnunarinnar. Þá er innbyggð reikniformúla í „appinu“ sem reiknar út fjarlægð fisks frá bringu veiðimanns þegar mynd er tekin af veiðimanni með fisk í höndum og segir nákvæmlega til um lengd hans (fisksins sko).
Guðni Guðbergsson hjá Hafró var himinlifandi þegar við kynntum nýja Precision málbandið fyrir honum enda stendur til í að fara í átak í ár og fá veiðimenn til að skrá rétt í veiðibækur sem eru þegar allt kemur til alls nauðsynleg vísindagögn þar sem haldið er til haga fjölda og stærð veiddra laxa um allt land en við Íslendingar erum svo lánsamir að eiga þessa sögu skráða áratugi aftur í tímann.
Við skimanir veiðibóka síðustu ár hefur nefnilega komið í ljós að laxar frá 84 sm til 93 sm eru nánast ekki til lengur og virðast vera að deyja út. Á hinn bóginn hefur 100 sm löngum löxum og lengri fjölgað um 386,4% frá því að veiða / sleppa aðferðin fór að verða almenn.
Við viljum hvetja alla veiðimenn til að bæta nýja Precision málbandinu við veiðibúnaðinn sinn í sumar og hlaða Precision „appinu“ niður í síma sína og skrá rétt svo þessi vísindalegi gagnagrunnur verði nú sæmilega nákvæmur aftur.
Þakka þér fyrir að smella á þessa áhugaverðu frétt. Auðvitað er engin þörf á vöru sem þessari því veiðimenn segja alltaf satt og engar lognar veiðisögur eru til. Þetta er bara góð hugmynd sem fæddist í Veiðihorninu fyrir 1. apríl.
Mældu rétt með stafrænu vogunum frá Berkley.