Smith SpaceX

Smith kynnir nú einhverja merkustu nýjung í gleraugnalinsum sem sést hefur í mörg ár.

Smith gleraugun þekkja allir vanir veiðimenn. „Low Light“ linsan frá Smith hefur verið gríðarlega vinsæl hjá okkur um langt skeið enda einhver ljósasta linsan á markaðnum sem er algjörlega nauðsynlegt þegar birtu fer að bregða á bakkanum.

Linsurnar í nýju Smith SpaceX gleraugunum eru afsprengi þróunar vísindamanna SpaceX í Bandaríkjunum en sem kunnugt er er SpaceX í eigu frumkvöðulsins Elon Musk og vinnur nú að undirbúningi geimferðaáætlunarinnar StarLink.

Það var einmitt við hönnun glers í hjálma geimfara að í ljós kom að kristallatæknin sem notuð er þar gerir mönnum kleift að sjá mun betur undir yfirborð vatns, jafnvel mjög litaðs vatns en með hefðbundnum polaroid gleraugum.

Þegar við horfðum í ólgandi Þjórsá síðastliðið haust við Urriðafossinn var það líkast því að horfa í tæran lindarlæk. Margir stórfiskar sáust liggja á stöðum sem líklega enginn hefur kastað á.

Í okkar huga munu nýju Smith SpaceX gleraugun slá algjörlega í gegn, ekki síst meðal aðdáenda Blöndu og Jöklu en með SpaceX gleraugum frá Smith líða þær ár eins og tærar bergvatnsár þrátt fyrir yfirfall.

Þá liggur það fyrir að þessi nýja kristallatækni verður notuð í framrúður Tesla bíla Elon Musk í náinni framtíð og mun koma að miklu gagni þegar ekið verður í þoku og slæmu skyggni.

 

 

Þakka þér fyrir að smella á þessa áhugaverðu frétt. Ó hve það væri skemmtilegt ef Smith SpaceX gleraugun væru til en svo er þó ekki í raun því miður. Þetta er bara góð hugmynd sem fæddist í Veiðihorninu fyrir 1. apríl.

En við eigum gott úrval af Smith gleraugum. Smith gleraugu með Low Light linsum eru sannarlega til. Þau eru líklega einhver þau björtustu á markaðnum og henta því vel til veiða við íslenskar birtuaðstæður.

SMITH Gleraugu í veiðihorninu