Sage R8 TripleHand

Merk nýjung frá Sage

Það er rétt ár síðan að bandaríski flugustangaframleiðandinn Sage kynnti Sage R8 Core, stöngina sem strax sló í gegn enda hér á ferð án efa besta stöng sem Sage hefur framleitt.

Það vakti undrun að Sage R8 Core kom einungis í einhenduútgáfu og ákveðið var að halda hinni vinsælu Sage X tvíhendu áfram í umferð. Nú í byrjun árs kom næsta lína R8 stanganna á markað, Sage R8 Salt og hefur sú stöng heldur betur slegið í gegn í sjávarveiði erlendis. Sage R8 Salt er hreint út sagt stórkostleg stöng sem við höfum reynt mikið við Seychelles kóralrifin.

Nú loks er komin skýring á því að einungis einhendur hafa verið kynntar í R8 fjölskyldunni því það hefur tekið langan tíma að þróa til fulls og reyna nýju þríhenduna.

Vitanlega er nýja Sage R8 TripleHand stöngin ekki framleidd fyrir þríhent fólk enda sá markaður ekki stór.

Í aftara handfangi stangarinnar er annað útdraganlegt handfang sem breytir kasthorni stangarinnar þegar í fullri reisn. Með því að grípa um aukaskaftið breytist kasthorn stangarinnar algjörlega og auðvelt er að teygja fluguköstin um þessa 5 til 10 metra sem við þurfum stundum þegar veitt er í stærstu ám og hann liggur utarlega.

Nýja Sage R8 TripleHand stöngin kemur sem 11 feta „switch“ stöng og svo 12 og 13 fetum fyrir línuþyngdir 7 og 8. Ekki þarf að framleiða þessar stangir lengri því með nýju Sage R8 TripleHand stönginni kastar maður nánast eins langt og mann langar til.

 

 

Þakka þér fyrir að smella á þessa áhugaverðu frétt. Það væri ekki amalegt að geta lengt fluguköstin verulega með nýju Sage R8 þríhendunni en hún er því miður ekki til í raun. Þetta er bara góð hugmynd sem fæddist í Veiðihorninu fyrir 1. apríl.

En Sage R8 Core flugustangirnar eru sannarlega til og hafa slegið í gegn á Íslandi sem og annars staðar. Sage R8 Core er að okkar mati sú besta sem komið hefur frá Sage. Vertu velkominn í Veiðihornið Síðumúla og prófaðu R8 Core með góðri Rio línu.