Seductive Flies

Shadow Flies kynnir „Seductive Flies“

Hér er skemmtilegur orðaleikur á ferð því „seductive“ þýðir „tælandi“ en Shadow Flies framleiðir einmitt flugur fyrir okkur í Thailandi en það er önnur saga.

Seductive Flies“ eða tælandi flugur eru bylting sem eftir verður tekið þegar veiðar hefjast af fullum þunga nú í vor og sumar.

Undir klæðningu flugunnar er lítið hylki með lyktarefni sem tælir fisk. Hægt er að fá flugur með þrennskonar lykt a) hrognalykt, b) rækjulykt og c) ánamaðkalykt

Þessi skemmtilega nýjung er framleidd og þróuð í samstarfi við Veiðihornið. Við þróuðum þessa hugmynd í fyrra og reyndum meðal annars Frances og Snældutúbur með ánamaðkalykt í klakveiði í Vatnsdalsá síðastliðið haust. Við renndum yfir alla hylji í annarri umferð á eftir reyndustu veiði- og leiðsögumönnum sem þekkja hvern krók og streng í ánni og árangurinn var ótrúlegur.

Ekki verða allar flugur fáanlegar í þessari útfærlu því flugurnar þurfa að hafa þykkan búk til að fela lyktarhylkið. Flugur á borð við Frances, Snældur, Killer, Peacock og margar fleiri verða fáanlegar sem „Seductive Flies“.

Áberandi er hve vel flugurnar virka andstreymis en það skýrist náttúrulega af því að lyktin berst niður strauminn að bráðinni.

Margir veiðileyfasalar banna nú þungar flugur og sökklínur svo við höfðum vaðið fyrir neðan okkur og skv. vottorði frá Hafrannsóknarstofnun teljast „Seductive Flies“ hefðbundnar flugur sem ekki verða bannaðar.

Nú er bjart framundan þó hann verði tregur til töku í sumar.

 

 

Þakka þér fyrir að smella á þessa áhugaverðu frétt. Það væri gaman ef Shadow Flies framleiddu flugur með lyktarhylki fyrir okkur en svo er því miður ekki í raun. Þetta er bara góð hugmynd sem varð til í Veiðihorninu fyrir 1. apríl.

En flugubarinn í Veiðihorninu er nú smekkfullur af tælandi veiðiflugum sem eru ómissandi í allar veiðiferðir.