Þetta þarftu að vita um silunginn

Ég veit eitthvað, en langt því frá allt. Og ef ég fyndi nú anda í flösku einn góðan veðurdag sem biði mér á því augnabliki að gerast fullnuma hvað silungsveiði varðar, myndi ég hafna því boði með því sama. Því sá sem allt hefur lært, hefur lítið til að lifa fyrir.

Þessi grein birt­ist áður í blaðinu VEIÐI XIII sem Veiðihornið gaf út í maí 2024. 

Ólafur Tómas Guðbjartsson, Óli urriði, upplýsir um lykilatriði sem hann hefði viljað vita fyrr á ferlinum.

Það er í sjálfu sér hálf furðulegt að óska sér þess að hafa aldrei að fullu farið í gegnum það langa lærdómsferli sem silungsveiðin er og hafa þess í stað hreinlega vitað flest allt í upphafi. Ég er vissulega þakklátur fyrir hvern þann lærdóm sem ég hef dregið á mínum uppvaxtarárum sem veiðimaður. Það var æðislegur tími. Eftir hvert sumar hafði maður lært eitthvað nýtt, sem myndi síðan gjörbreyta veiðinni á komandi tímabili. Það komu sumur þar sem mér fannst ég vera óstöðvandi í veiðinni. Þá stóð ég sperrtur við bakkann með stöngina í annarri höndinni og nokkra dauða silunga í kippu hangandi í hinni og fannst ég vera búinn að sigra leikinn. En rak mig svo síðar á þá köldu staðreynd, þegar fiskurinn var ekki jafn tökuglaður, að ég kunni nú lítið eftir allt saman. Þannig hefur þetta verið allan minn veiðiferil og er sem betur fer enn í dag. Ég veit eitthvað, en langt því frá allt. Og ef ég fyndi nú anda í flösku einn góðan veðurdag sem biði mér á því augnabliki að gerast fullnuma hvað silungsveiði varðar, myndi ég hafna því boði með því sama. Því sá sem allt hefur lært, hefur lítið til að lifa fyrir.

En það eru nokkur atriði sem ég held að hefðu gert þetta veiðiferðalag mitt ánægjulegra ef ég hefði haft um þau vitneskju í upphafi. Í það minnsta grunnskilning á þeim. Það er óþarfi nú til dags að eyða svo löngum tíma og þrjátíu árum í að viða að sér því litla sem ég kann nú í dag.

Skilningur á lífríkinu

Ég hefði fyrir það fyrsta viljað skilja lífríkið betur. Það hefði vissulega gert mig að betri veiðimanni mun fyrr, en einnig gert hvern dag við bakkann ánægjulegri. Á mínum æskuárum var það töluvert meira mál að verða sér úti um fróðleik en það er í dag með internetinu. Það tók í það minnsta meiri tíma og vinnu. Í huga mínum fyrir þrjátíu árum voru flugnategundir á Íslandi fáar og höfðu fæstar eitthvað með veiði að gera. Mýflugur sem bitu veiðimenn, röndóttar flugur sem stungu veiðimenn, fiðrildi á fræsekkjum sem góð voru í beitu fyrir lækjalontur og síðan allskonar samtíningur af mis óþolandi flugum sem höfðu lítið sem ekkert með veiði að gera. Silungar átu mýflugur, ána, gular baunir og spúna. Lækjalontur borðuðu fiðrildi og stöku tyggjó sem skyrpt var ofan í hylji og laxar átu túbur, Toby og skoska ána. Þetta þurfti ekki að vera flóknara. Ég fékk helling af silungi og jafnvel stöku lax.

Nú til dags hef ég mun meiri þekkingu á skordýralífinu og hef unun af því að fylgjast með því um leið og ég pæli í á hvaða stigi þau eru hverju sinni og hvaða þýðingu þau stig hafa fyrir fiskana sem ég er að reyna að veiða. Og ekki aðeins eru það skordýrin sem gott er að skilja, heldur fuglana líka. Þeir eru oft á tíðum bestu veiðileiðsögumenn sem völ er á. Hvað er krían að kroppa upp af vatnsyfirborðinu? Er það laxalús og ný laxaganga að koma inn? Eða er straumbyttan að klekjast út og von er á feitum silungum á þurrfluguna? Éta kríur fræ hvannar­innar eða er komið að að klunnalegum ástarleikjum galdraflugunnar? Er óðinshaninn að reyna að segja mér eitthvað þegar hann lætur sig hvað eftir annað fljóta niður sömu straumlínuna fyrir framan mig? Af hverju er himbriminn farinn að þvælast meir og meir fyrir mér, því færari veiðimaður sem ég verð? Vita þeir að ég er að verða betri veiðimaður og treysta á mig að finna fiskinn? Eða vissu þeir allan tímann hvar bestu fæðuslóðir fiskana eru eftir allt saman? Allt eru þetta vísbendingar sem svo gott er að geta lesið í. En til þess að hafa getað nýtt mér slíka þekkingu sem veiðimaður, hefði ég þurft að hafa grunnskilning á næsta atriði.

Skilja fæðuhegðun silunga

Ég leiddi hugann lítið að því af hverju ég væri að veiða best snemma morguns og síðan seinnipartinn. Í barnslegri hugsun hef ég líklega haldið að silungar ætu mikið á morgnana því þeir væru nývaknaðir og svangir og síðan væri það kvöldmatur og kvöldsnakkið sem fengi þá til þess að álpast á færið hjá mér í lok dags. Lífríkið og hvernig það bregst við ytri aðstæðum hefur allt með það að gera hvenær silungurinn étur.

Er sólin tekur að rísa, þarf hlaðborðið við botninn að koma sér í skjól eftir sína eigin átveislu í skjóli skugganna. Hægfara vatnabobbar fullir af þörungum og grjóthlaðin hylki vorflugunnar skríða hægt undir steina og hornsílin forða sér í skjól gróðurbelta og grjóta. Þau snúa síðan aftur í varnarleysið þegar ljós tekur að minnka. Þarna eru þau auðveld bráð. Það sem flest rándýr eiga sameiginlegt er að vilja sem mesta orku fyrir sem minnsta vinnu. Silungurinn er ekkert frábrugðinn. Sem veiðimaður þarf ég að skilja hvernig fæðan hagar sér til þess að líkja sem best eftir henni. Það er hægt að hnýta heimsins nákvæmustu eftirlíkingar af öllu þessu æti, en ef agnið okkar hagar sér ekki eins og náttúrulegt agn, skiptir það litlu.

Við myndum varla leggja í það að taka bita af heimsins girnilegasta hamborgara, ef hann kæmi skríðandi eftir gólfinu að matarborðinu eða fljúgandi á hvolfi inn um eldhúsglugga. Ljót púpa sem dansar eftir hjartslætti vatnsins, er alltaf betri en sú allra fallegasta sem hreyfir sig taktlaust.

Skilja gönguhegðun sjógöngusilunga

Þar sem ég eyddi mestum hluta unglingsáranna í það að eltast við sjógöngusilung í sjó, hefði ég haft gott af því að vita meira um gönguhegðun hans. Ég er ekki viss um að ég hafi nokkuð spáð í það sem nýgræðingur. Ég vissi bara að sjóbleikjan sem ég eltist hvað mest við birtist bara einn góðan veðurdag, oftast í maí og hvarf síðan aftur í enda ágúst. Þær komu í torfum fram hjá mér og ef þær snéru höfðinu í átt að nærliggjandi á, þá voru þær á leið heim úr partýinu, en ef þær snéru höfðinu í átt frá ánni, þá voru þær á leið á eitthvað langt í burtu, mögulega á Flæmska hattinn og sæjust ekki aftur fyrr enn að ári. Það var því aðeins eitt tækifæri við hverja torfu.

Ég spáði lítið í það hvað þær væru að bardúsa annað en að koma sér út á ballarhaf eða upp í sína heimaá. Þær átu Íslandsspún og það var nóg fyrir mig. Ég hefði líklega hoggið skarð í sjóbleikjustofna norðurlands ef ég hefði bara haft vit á því að halda mig við lækjarósa og allt frárennsli og kasta sílalíki í kringum litlar þaraþyrpingar á svörtum söndum rétt fyrir og eftir flóð. Þessar torfur gengu nefnilega fram og til baka með strandlengjunni aðeins nokkra kílómetra frá ósum ár sinnar og mokuðu í sig seiðum, marflóm, klakpúpum og lirfum sem berast í sjó með lækjum. Dag frá degi var ég vitaskuld oftast að kasta á sömu torfurnar. Ég kastaði á þeim tíma bara eitthvað og vonaði það besta.

Holræsin og frárennsli frá rækjuvinnslunni voru reyndar mjög gjöfulir staðir í þá daga, en það tengdi ég ekki við annað en að sjóbleikjan vildi rækjuskel og klósettpappír. Nú þekki ég lífsferil þeirra mun betur og hef átt æðislegar stundir með lítinn hvítan Nobbler á fallegum júní dögum. Þær stóru ganga fyrst aftur upp í á og eru sjaldan að eyða meiri tíma en fjórum til sex vikum í sjó. Júní er því frábær tími til að ná þeim akfeitum og þrælsterkum. Geldfiskurinn tekur sér lengri tíma í sjó og því lengra sem líður á sumarið, því ólíklegra er að fá þær allra stærstu. Þetta má síðan á vissan hátt heimfæra á sjóbirtinginn líka, því lítið af honum, ef hreinlega eitthvað annað en einstaka fiskar eyða vetrinum út í sjó hér við land, ólíkt því sem margir kannski þekkja frá Skandinavíu.

Ólafur Tómas sem ungur og æstur veiðimaður.
Þroskaferill veiðimanna er fjölmargir kaflar og fléttast saman við reynslu sem þeir afla sér.

Bera virðingu fyrir stærð bráðar

Þegar vel gekk í veiðinni á mínum uppvaxtarárum gat ég átt það til að sýna vanþakklæti. Ef fiskurinn var undir tvö pund þegar hann loks kom á land, varð maður hálf fúll. Stór hluti af veiðinni snerist um að koma með sem stærstan fisk heim í soðið. Svipurinn á foreldrum mínum er ég þrumaði upp útidyrahurðinni með vænan silung í hendi og öskraði „upp með potta og pönnur“ var á við þúsund „likes“ á samfélagsmiðlum nútímans. Það voru teknar ófáar myndir af silungum í eldhúsvaskinum heima rétt áður en þeir voru flakaðir.

Nú til dags skiptir stærðin vissulega alltaf einhverju máli, en þó ekki öllu. Fyrir mig skiptir takan mestu máli. Ég fæ fljótt leið á því að púpa upp fiska andstreymis, þó þeir séu vænir. En hraustur og sprækur eins til tveggja punda silungur sem tekur þurrflugu á fallegan hátt, þrumar allur upp á eftir yfirborðsskauti eða neglir straumflugu af krafti getur verið betri sportveiðibráð en stærri fiskur sem tekur púpuna á dauðareki, þó það sé auðvitað alltaf skemmtilegt líka. Í dag er hægt að velja um ótrúlegt úrval silungsveiðistanga sem gera jafnvel minnstu fiska að þrælskemmtilegum bardaga. Einna þekktastar eru glertrefjastangirnar, eins og Butterstick frá Redington og síðan sérhannaðar silungsveiðistangir eins og Sage Trout LL og fleiri sem gera alla veiði svo skemmtilega. Eftirminnilegustu fiskarnir eru ekki endilega þeir stærstu.

Að vera þakklátur fyrir hvern veiðidag

Ég man þegar kom að því að ég fór að heyra meir og meir setningar eins og „Nei byrja þú bara“ eða „Nei taktu annan ég horfi á“ frá pabba mínum þegar við veiddum saman. Ég hafði af þessu töluverðar áhyggjur, því ég hélt að kallinn væri hættur að hafa gaman af þessu. En ég lærði það svo er ég varð eldri, að það voru óþarfa áhyggjur. Sá gamli skemmti sér konunglega. Hann naut þess að eiga dag í veiði. Hann naut þess bara að vera við bakkann og gerir enn. Það var um tíma svo mikið fart á mér í veiðinni að ég gleymdi því oft á tíðum að setjast niður og njóta þess líka. Veiðin var hamagangur og það þurfti að ná að veiða fyrir hverja einustu krónu. Veiða hvern einasta hyl. En nú er ég farinn að eyða meiri og meiri tíma við bakkann án þess að kasta. Þar sem ég sit og hlusta er ég leyfi fegurðinni að grafa sig rækilega í huga mér. Ég finn fyrir þakklæti fyrir þau forréttindi að fá að stunda slíkt unaðssport sem veiðin er. Ég er auðvitað ekki orðinn einhver kuflmunkur og raka sand hummandi á sandölum í stað þess að kasta, langt því frá. En köstunum hefur fækkað en á móti hefur árangurinn aldrei verið betri. Það hefur oft komið fyrir, er ég sit við bakkann, hlusta og stari á hjartslátt vatnsins að ég standi allt í einu rólega upp og segi lágt við sjálfan mig „þarna var fiskur“ þó ég hafi í raun ekki séð fisk. En undirmeðvitundin greindi einhverja breytu í hjartslættinum og það var nóg. Það eru þessi yndislegu augnablik sem ég leyfi sjálfum mér að eiga við bakkann, sem leyfa þakklætinu að flæða í gegnum mig. Ég tók þessu sem sjálfgefnu allt of lengi.

Texti: Ólafur Tómas Guðbjartsson, myndirnar eru einnig úr hans safni