Einar Páll Garðarsson: Silungsveiði

Silungsveiði

Með tilkomu Veiðikortsins og vegna þess hve laxveiði er orðin dýr hefur ásókn í silungsveiði jafnt í ám sem vötnum aukist gífurlega síðustu árin. Því er tilvalið að nefna það sem miklu máli skiptir varðandi þá veiði.

Það er eitt sem veiðimenn mega ekki gleyma en það er að silungurinn borðar fæðu þveröfugt við laxinn sem gerir það ekki þegar hann gengur í ár og því er mikilvægt að velja flugur sem líkja eftir æti sem er í vatninu.

Vatnshiti hefur gríðarlega mikið að segja þar sem lífríki vatnsins lifnar eftir því sem hitastig hækkar. Í maí opna mörg vötn og ef maður nefni vatn eins og Elliðavatn þá er hitastigið oft í gringum 5 til 7 gráður í byrjun en mánuði síðar er það komið í 10 til 12 gráður og svo seinnipartinn í júlí getur vatnshiti náð 16 til 18 gráðum á heitustu dögum.

Veiðimenn ættu að hafa það í huga að velja staði við vatn t.d. voga eð avíkur þar sem vatnið er grynnra því þar kemur flugan fyrst upp. Vinsælast er að nota litlar silungsflugur en þær geta verið frá púpustigi upp í venjulegar flugur og jafnvel þurrflugur.

Ef veiðimaður sér engar uppitökur þegar hann kemur að vatni er ljóst að flugan er ekki komin á kreik og þá er gott að nota púpur, bæði léttar en einnig þyngdar með kúluhaus.

Dropper er gott að nota því þá getur maður prufað tvær flugur í einu. Þegar kastað er og línan lögst á vatnsflötinn er oft gott að telja rólega upp í 10 áður en byrjað er að draga.

Ef ekkert gerist og flugan festist ekki í gróðri eða botni er hægt að bíða aðeins lengur, leyfa flugunni að sökkva betur og endurtaka leikinn.

Sjái maður uppitökur getur verið gott að nota púpur sem eru lengra komnar á þroskastiginu í að líkjast flugu og jafnvel þurrflugur en þá er gott að leggja línuna og byrja strax að draga löturhægt til sín.

Allir sem stunda silungsveiði ættu að eiga vatnshitamæli og sýnatökuskeið sem er frábært verkfæri til þess að ná sýni úr maga fisksins til þess að greina hvað silungurinn er að éta hverju sinni því þá er auðveldara að leita eftir svipaðri flugu úr boxinu sínu.

Straumflugur eru líka frábærar en þá er agnið dreigð með misjöfnum hraða og stundum svolítið rykkjótt eftir að hafa leyft þeim að sökkva svolítið.

Það hefur komið fyrir að tveir veiðimenn standa hlið við hlið og annar veiðir en hinn ekkert þrátt fyrir að nota sama agn og því ætti sá sem ekki veiðir að fylgjast með hinum, sjá hvort hann bíði eftir að vera búinn að leggja línuna eða hvernig hann dregur fluguna.

 

(Fyrst birt í Veiði X – 10. árgangi veiðiblaðs Veiðihornsins 2021)