Sá stærsti sem veiðst hefur hér á landi

Stefán Jones með 107 sentímetra sjóbirtinginn. Hann tók Krókinn í Búrhyl í Tungufljóti. Þetta er einn stærsti sjóbirtingur sem veiðst hefur í heiminum á flugu. Ljósmynd/Kristján Geir


Stærsti sjó­birt­ing­ur sem veiðst hef­ur á flugu á Íslandi veidd­ist í Tungufljóti í Vest­ur-Skafta­fells­sýslu á laug­ar­dag. Sporðaköst hafa í það minnsta ekki upp­lýs­ing­ar um svo stór­an fisk með staðfestri mæl­ingu. Stór­fiska­æv­in­týrið í Tungufljóti virðist eng­an endi ætla að taka.

Þetta er þriðji sjó­birt­ing­ur­inn þar í haust sem er hundrað sentí­metr­ar eða stærri og þessi fisk­ur var svo sann­ar­lega mun stærri en hinir tveir.

Fisk­inn veiddi Stefán P. Jo­nes og mæld­ist hann hvorki meira né minna en 107 sentí­metr­ar. „Þrjá­tíu punda plús kvik­indi,“ sagði einn veiðifé­lagi hans í sam­tali við Sporðaköst.

Stefán var að kasta á Búr­hyl í fyrra­dag þegar þessi tröll­vaxni sjó­birt­ings­hæng­ur tók. Gef­um hon­um orðið. „Veðrið var hrein­lega af­leitt. Hávaðarok af norðri og þegar við vor­um að byrja var heiðskírt og það er ekki gott fyr­ir sjó­birt­ing­inn. Hann er mjög viðkvæm­ur fyr­ir sól í Tungufljót­inu. Þetta voru ekki bestu aðstæður til að kasta flugu fyr­ir sjó­birt­ing. En maður þekk­ir svo sem að á þess­um árs­tíma er allra veðra von. Þegar við Kristján Geir Gunn­ar­son fé­lagi minn kom­um að Búr­hyl var sem bet­ur fer skuggi á hyln­um. Vegna roks­ins fór­um við yfir og maður þurfti svo­lítið að kasta og vona það besta, bæði að ná flug­unni út og að maður fengi þokka­legt rek, því við vor­um að veiða á púp­ur, and­streym­is.

Þetta byrjaði á að Kristján Geir tók einn átta­tíu og sex sentí­metra fisk. Eft­ir það fór ég og var með dropp­er eða tvær púp­ur. Ég var með þyngri flugu neðar. Það var Copp­er John græn og svo létt­ari púpu ofar. Það var fluga sem góður vin­ur minn hnýtti og er Krókur­inn en hnýtt­ur á Hea­vy Wire krók sem eru mjög sterk­ir krók­ar. Þetta voru agn­halds­laus­ir krók­ar. Það þýðir ekk­ert að fara með venju­lega króka þegar er von á birt­ing­um átta­tíu plús sentí­metr­ar. Ég nota ekki töku­vara en dreg bara lín­una að mér og fylg­ist vel með. Ég náði ein­hvern veg­inn að smygla lín­unni í gegn­um vind­inn. Rekið var fínt. Svo sá ég lín­una stoppa aðeins og brá við fisk­in­um. Auðvitað vissi ég ekk­ert hvernig fisk­ur þetta var. Hann var fyrst bara al­veg kj­urr en eft­ir smá tíma þá sigldi hann hægt og ró­lega upp hyl­inn en hann var all­an tím­ann ró­leg­ur. Þetta var svo­lítið eins og að setja í vöru­bíl. Hann fór það sem hann ætlaði sér þó að ég væri með ein­hend­una í keng.  Ég réð í raun ekk­ert við hann. Ég var með ein­hendu fyr­ir línu sjö og fjór­tán punda taum og ég tók á hon­um eins og græj­urn­ar þoldu. Ég hef veitt marga sjó­birt­inga á þessa stöng og þar á meðal fisk yfir níu­tíu sentí­metra. Ég þekki vel hvað þess­ar græj­ur þola.

 

Það var ekki auðvelt að ná góðri pósu með þenn­an mikla fisk. Stefán er 181 sentí­metri og það var bras að ná réttu mynd­inni. Ljós­mynd/​Kristján Geir

Hann tók tvær rok­ur þannig að við þurft­um að hlaupa á eft­ir hon­um. Samt var hann al­veg gæf­ur ef hægt er að tala um það. Það voru ekki mik­il læti í hon­um. Maður veit að ef svona fisk­ur væri með al­vöru læti þá ætti maður ekki séns í hann. Ekki séns. Hann hefði bara sagt bless. Þessi fisk­ur var merkt­ur mér. Ég upp­lifði þetta þannig að ég átti bara að fá þenn­an fisk.

Við sáum hann ekki nærri strax. Það var ekki fyrr en eft­ir lík­lega kortér að það fór að glitta í hann. Við sáum þá strax að þetta var dreki. Sáum móta fyr­ir brún­leit­um hlunk. Strák­arn­ir sem voru með mér telja að viður­eign­in hafi tekið um 25 mín­út­ur. Það var líka mjög mik­il­vægt að ég var með góðum mönn­um. Fé­lag­arn­ir sem voru með okk­ur á svæði hættu að veiða og komu og aðstoðuðu og hjálpuðu til. Ég hefði aldrei landað þess­um fiski ef ég hefði ekki notið þeirra aðstoðar. Við vor­um sem bet­ur fer með stór­an háf og það kom sér vel. Þeir mættu til okk­ar Bjart­ur Ari Hans­son og Tóm­as Helgi Kristjáns­son.

Eft­ir að fisk­ur­inn var kom­inn í háfinn þá klikkaði bara eitt­hvað í hausn­um á mér. Ég vissi bara ekki hvað ég átti að halda þegar ég sá hann al­menni­lega. Við all­ir fjór­ir öskruðum og öskruðum lengi. Hvað er þetta? Þetta var bara eins og sel­ur. Við trúðum ekki okk­ar eig­in aug­um. Þetta var svo rosa­legt. Öll stærð og öll hlut­föll og allt svo stórt. Haus­inn á hon­um og sporður­inn. Þetta er bara eitt­hvað annað. Hann var líka svo full­kom­inn. Eng­inn för eða sár eft­ir sel eða steinsugu. Í góðum hold­um með þykk­an hnakka. Þessi fisk­ur var einn vöðvi. Frá skolti aft­ur á sporð,“ seg­ir Stefán Jo­nes um viður­eign­ina við þenn­an mikla sjó­birt­ing sem hann landaði. Það þurfti tvö mál­bönd til að ljúka mæl­ing­unni.

Hér er hann kom­inn í fangið á Stefáni og þá er stutt í réttu stell­ing­una. Stefán seg­ir þetta dæmi­gerðan Kúðafljóts­fisk. Hann hef­ur heyrt trölla­sög­ur af birt­ing­um sem koma upp í Tungufljótið þegar kom­inn er vet­ur. Ljós­mynd/​Kristján Geir

„Fyrst var Kristján Geir með mál­bandið og ég dró það út en hann togaði á móti og ég spurði hann hvað hann væri að gera. „Ertu ekki að grín­ast Það er bara ekki lengra. Það stopp­ar á hundrað sentí­metr­um. Við get­um ekki notað þetta.“ sagði hann. Vó sögðum við báðir. Bjart­ur Ari kom þá með mál­band sem er einn og fimm­tíu. Hann mæld­ist 107 sentí­metr­ar í miðjan sporð og við fjór­ir sáum það all­ir. Það var mjög traust­vekj­andi að Bjart­ur sem er starf­andi lög­reglumaður fylgd­ist með mæl­ing­unni,“ bros­ir Stefán.

Hann var í mesta brasi með að ná al­menni­legri stell­ingu með fisk­inn. Bæði er hann svo lang­ur og þung­ur. Stefán er hraust­ur og í góðu formi en þetta voru engu að síður veru­leg átök. Mynd­irn­ar sem fylgja frétt­inni segja sína sögu.

„Mér fannst merki­legt að fisk­ur­inn tók efri flug­una. Hún var létt­ari og minni. Ég hef heyrt marga tala um að stór­ir fisk­ar taki frek­ar minna agn og það gerðist í þessi til­viki. En það var magnað að sjá þegar við skoðuðum púp­una sem hann tók að hann hafði rétt al­veg úr krókn­um, sem samt er úr sér­styrktu efni. Ég held að hann hafi verið bú­inn að vinda upp á krók­inn og þegar við náðum hon­um í háfinn voru átök og þá gæti hafa rést meira úr krókn­um. Maður beyg­ir ekki svona krók svo létti­lega. Þetta er Hannock hea­vy wire og þeir eru níðsterk­ir.“

Tek­ist á við tröllið í Búr­hyl. Stefán seg­ir að það magnað að vera með ís­lenskt, Ein­ars­son hjól og ís­lenska flugu, Krók­inn og landa þess­um stór­fiski á þær græj­ur. Ljós­mynd/​Kristján Geir

Þú nefnd­ir að þetta væri að öll­um lík­ind­um fisk­ur úr Kúðafljóti.

„Þetta er dæmi­gerður Kúðafljóts­fisk­ur. Maður sér það á bygg­ing­unni á þeim og lag­inu. Ég hef heyrt trölla­sög­ur af þess­um fisk­um. Ólaf­ur Guðmunds­son vin­ur minn var í leiðsögn og viðskipta­vin­ur hjá hon­um setti í svaka­leg­an dreka í Fitja­bakka og missti hann eft­ir langa viður­eign. Það hef­ur ör­ugg­lega verið fisk­ur af þess­ari stærðargráðu og Óli sagði þetta hafa verið stærsta fisk sem hann hef­ur nokk­urn tíma séð. Og hann hef­ur líka séð stóra fleka vera að krúsa upp ána eft­ir lok­un veiðitím­ans. Þess­ir fisk­ar eru mjög sér­stak­ir á lit­inn og eru svona brún silf­ur græn­ir. Þeir eru mjög fram­byggðir og með þenn­an mikla hnakka. Við höf­um verið að sjá þessa fiska niður í 75 sentí­metra og við þekkj­um þá úr. Lit­ur­inn kem­ur ör­ugg­lega frá því að þeir hafa verið lengi í jök­ul­vatn­inu í Kúðafljóti.“

Svona leit Krókur­inn út eft­ir viður­eign­ina. Þetta er agn­halds­laus fluga þannig að þetta hef­ur staðið býsna tæpt þegar hann kom í háfinn. Ljós­mynd/​Stefán

Þessi 107 sentí­metra sjó­birt­ing­ur sem Stefán veiddi er einn af allra stærstu sjó­birt­ing­um sem veiðst hafa á flugu í heim­in­um. In­ter­netið seg­ir að sá stærsti hafi mælst 108 sentí­metr­ar og sá veidd­ist í ánni Em í Svíþjóð. Einnig er þar getið um 107 sentí­metra sjó­birt­ing og var báðum þess­um fisk­um sleppt. Rétt er að hafa í huga að evr­ópska mæl­ing­in á fisk­um er endi í enda en ekki miður sporður í trjónu, eins og mælt er hér á landi og gert var við fisk Stef­ans.

Drapstu fisk­inn?

„Nei. Ég sleppti hon­um og er af­skap­lega fylgj­andi veiða og sleppa þegar kem­ur að sjó­birt­ingi. Ástæður þess að þess­ir fisk­ar eru farn­ir að veiðast núna er ein­mitt veiða og sleppa,“ sagði Stefán ákveðinn.

Hollið sem hann og fé­lag­ar hans veiddu í hvassviðri skilaði sam­tals 59 sjó­birt­inga og stærðin er ótrú­leg. Þeir voru með tvo 89 sentí­metra, 90, 92, tveir 93, 96, 97 og svo þessi ótrú­legi 107 sentí­metra fisk­ur. Þetta er veiði á heimsklassa þegar kem­ur að stór­um sjó­birt­ing­um.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is