Ásgeir Heiðar rekur í þessari færslu hvernig útbúnaður hefur tekið stakkaskiptum frá því að hann hóf að veiða rjúpu fyrir hartnær hálfri öld. Ljósmynd/Ásgeir
Fyrsti rjúpnadagurinn rennur upp á þriðjudag. Fjölmargir bíða spenntir eftir þeirri dagsetningu og ætla til veiða. Aðrir bíða aðeins lengur og taka næstu helgi. Fyrirkomulagið þetta tímabilið er með þeim hætti að veiða má alla daga frá 1. nóvember til 4. desember nema miðvikudaga og fimmtudaga. Þá er sami háttur hafður á að veiði má ekki hefja fyrr en á hádegi.
Ásgeir Heiðar er ein reyndasta rjúpnaskytta landsins og hefur stundað þennan veiðiskap í rúma hálfa öld. Hann birti í gær færslu á facebook þar sem hann fer yfir hvernig tímarnir hafa breyst á þegar kemur að búnaði rjúpnaskyttunnar. Færslan er áhugaverð og birtum við hana hér í heild sinni.
„Undirritaður hefur stundað rjúpnaveiði í hartnær 55 ár. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum tímum. Búnaðurinn t.d. hefur tekið miklum breytingum. Ég var fyrstu árin í vel þæfðri ullarpeysu, föðurlandi og segljakka utanyfir. Fljótlega uppgötvaði ég frelsið í þessum veiðum og gerðist atvinnumaður í faginu næstu 27 árin. Búnaður breyttist með árunum. Ég gekk fyrstu árin í gúmmístígvélum og klippti neðan af ullarsokkum og togaði upp fyrir hné til að snjór kæmist ekki ofan í stígvélin. Rjúpnavestið var strigapoki sem saumað fyrir í báða enda og gert gat fyrir hausinn…..
Mér var oft heitt á rjúpnaslóð þegar kappið var mikið. Lagði ég áherslu á að nýta skot sem best og var sjaldan skotið á eina rjúpu er fleiri voru á staðnum. Reynslan kenndi manni að “ganga rjúpurnar til” þannig að nokkrar báru saman. Þegar vopnið var einhleypa kom slíkt að góðum notum. Tekin voru 75 skot á fjall, sem og Silva áttaviti. Þegar komið var í bíl voru svo teygaðar 2 kókflöskur í gleri. Sykurþörfin var algjör. Og 2 sígó……
Þetta hefur verið góður dagur. Ásgeir mundi sjálfur ekki hvaða ár þetta var, en sjálfsagt tekin fyrir þremur til fjórum áratugum. Á þeim tíma komu alvöru toppar í stofninn á tíu ára fresti.
Ljósmynd/Ásgeir einkasafn
Árin liðu og Cabelas bæklingur kom í hús. Þvílíkir möguleikar blöstu við á hverri síðu. Ég byrjaði á því að panta mér silki undirföt sem voru lofuð upp í hástert. Eftirvæntingin var ógurleg þegar loks sendingin barst í tollinn. Fötin pössuðu þokkalega og gat ég varla beðið eftir 15. okt. Ég lagði af stað í mínum fínu undirfötum, var þokkalega hlýtt og svitinn yfirgaf gallann. Veiddi vel og helsáttur, kom í hús og afklæddist. Kom þá í ljós að ég var eins og versta frönsk hóra, allur í lykkjuföllum og gallinn ónýtur…..
Á einhverju stórafmæli fékk ég Meindl gönguskó í afmælisgjöf. Þvílík breyting. Klettar og stórþýfi var leikur einn á nýju skónum. En það fór snjór ofan í skóna. Ullarsokkatrikkið var ekki að virka nógu vel og Millet legghlífar kostuðu næstum eins mikið og skórnir. Það var ekkert annað en að þreyja þorrann og bíða eftir næsta stórafmæli….
Strigapokanum var skipt út fyrir næstu nýjung. Bóngrisju..! Þetta voru lengjur sem hægt var að klippa í mátulega lengd, gera gat fyrir hausinn og hnút báðum megin og dugði fínt sem trefill ef illa gekk veiðin…
Einn af hundum Ásgeirs við æfingar. Þessar rjúpur eru á lokametrunum að klæðast vetrarbúningnum.
Ljósmynd/Ásgeir einkasafn
Ekki gafst maður upp á Cabelas og þarna kom fleece kynslóðin inn. Þvílíkur munur…! Þarna var manni hlýtt án þess að svitinn sæti nærst manni. Lopanum var snarlega skipt út fyrir fleece fatnaðinn. Sér saumað rjúpnavesti frá Lalla skóara sem tók 55 fugla og Core-Tex skel. Bylting…! Eini gallinn var að maður hafði elst svo mikið og hafði ekki þetta úthald sem maður hafði sem 16 ára gömul fjallageit. Búnaður í dag: Sitka flecce hettubolur, Kuiu dúnúlpa sem hægt er að renna niður öllum rennilásum undir höndum og víðar (ef þurrt er), annars Kuiu eða Sitka skel. Sitka fleece nærbuxur, Kuiu skel buxur. Gamla vestið frá Lalla skóara……
Nútíminn hefur svo kennt manni að vera svo með GPS+aukabatterí, GSM síma + hleðslubanka, nokkur neyðarblys og álpoka. Sjónauka og góðan hund… Alltaf hægt að éta aflann…og í versta falli hundinn…..“
Eggert Skúlason
Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is