Í tilefni af 150 ára afmæli Hardy vörumerkisins var boðið upp á kökur og kræsingar í Veiðihorninu í Síðumúla. Þar var meðal annars farið yfir sögu þessa hornsteins veiðimennskunnar á Bretlandseyjum. Þorsteinn Joð tók að sér að gera stuttmynd þar sem tiplað er á þessari sögu. Við frumsýnum hér myndina en báðum Þorstein Joð að lýsa aðeins innihaldinu.
„Hardy vörumerkið er auðvitað einhvers konar skjaldamerki fluguveiðinnar, 150 ára saga hvorki meira né minna. Það var gaman að heyra um sögu og þróun Hardy í spjalli við tvo sérfræðinga, Ólaf Vigfússon í Veiðihorninu og Christen Stenild frá Hardy í Danmörku. Mér fannst sérstaklega áhugaverð grein sem Ólafur sýndi mér, Veiðar á Íslandi, eftir Albert Erlingsson sem var umboðsmaður Hardy á Íslandi um miðjan síðustu öld. Það segir sína sögu um hverskonar áfangastaður og fluguveiðiparadís Ísland hefur verið á þeim tíma fyrir veiðimenn, þótt sögulegu stórlöxunum hafi heldur fækkað. Það vekur mig til umhugsunar um þá ábyrgð sem við berum á þeirri auðlind sem lax og silungsveiði er á Íslandi í dag.
Christen lýsti sömuleiðis á áhugaverðan hátt hvernig Hardy er komið upp úr öldudal sem fyrirtækið var í, hvernig það hefur þróað nýjar og spennandi stangir og hjól, samhliða því að framleiða áfram klassíkina. Svo var auðvitað ekki annað hægt en að spyrja Christen um Hardy sándið í fluguhjólunum, sem er alveg einstaklega fallegt, söngur eilífðarinnar í fluguveiði.“
Svo mörg voru þau orð frá sögusmiðnum. En sjón er sögu ríkari.
Eggert Skúlason
Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is