Hugleiðingar um veiði og veiðiflugur.
Á síðustu áratugum hefur orðið bylting í stangveiði. Á aðeins tveimur áratugum hefur fjölgun fluguveiðimanna á kostnað þeirra sem veiða með beitu eða spónum orðið gríðarleg.
Á síðustu áratugum hefur orðið bylting í stangveiði. Á aðeins tveimur áratugum hefur fjölgun fluguveiðimanna á kostnað þeirra sem veiða með beitu eða spónum orðið gríðarleg.
Rétt fyrir aldamótin var það alþekkt að nýliðar byrjuðu á því að kaupa veiðibúnað fyrir spón- og maðkveiði en í dag sjáum við flesta nýliða sleppa þessu skrefi og hella sér beint í fluguveiðina.
Nokkrar skýringar geta verið á þessum mikla viðsnúningi. Ekki síst sú að í velflestum laxveiðiám er nú eingöngu stunduð veiði með flugu. Þá vegur það einnig þungt að flestum finnst fluguveiði skemmtilegri, búnaðurinn er léttari og ef til vill má færa rök fyrir því að fluguveiði sé meira krefjandi en veiði með spæni eða beitu.
Sá sem þessar línur skrifa hóf sinn veiðiferil með beitu á bryggjupolla austur á fjörðum og dró margan marhnútinn og ufsann. Það lá því beint við að nota orm og spón þegar silungs- og laxveiðiferillinn hófst.
Margar ferðirnar í Stóru laxá og Sog voru farnar með skottið fullt af spónum og ormum en einnig fluguna til vara. Auðvitað var flugan reynd fyrst en þar sem undirritaður hafði innst í hjarta sínu meiri trú á því að hann tæki nú tóbíinn eða orminn skal viðurkennt hér að flugunni var kannski stundum kastað með hálfum huga.
Það vita þeir sem sjónrennt með maðki að fátt er skemmtilegra og það má ekki gera lítið úr þeirri veiðiaðferð því líklega eru flestir bestu fluguveiðimenn landsins í laxveiði í dag einmitt þeir sem hófu veiðiferil sinn með þess konar veiði og má þar nefna nokkur nöfn sem ekki verður gert hér.
Reyndir laxveiðimenn sem stunduðu sjónveiði þroskuðu með sér eiginleika til þess að sjá vel undir vatnsyfirborð og fengu góða tilfinningu fyrir straumþunga vatns og dýpi. Þegar kemur að laxveiði eru að jú e.t.v. þessir þættir sem skipta meira máli en nákvæmlega hvað flugan heitir. Um það eru flestir veiðimenn sammála að „presentation“ eða hvernig fluga berst fyrir fisk er mikilvægasti þátturinn í laxveiði.
Að kunna að lesa vatn, sjá undir glampa yfirborðsins, þekkja strauminn og bera fluguna rétt fyrir fiskinn er grundvallaratriðið.
Silungsveiði er af mörgum talin erfiðari en laxveiði. Enginn veit afhverju lax tekur flugu og má skrifa heilu bækurnar um þær kenningar allar. Lax tekur ekki fæðu þegar hann gengur úr sjó í ferskvatn til hrygninga. Á hinn bóginn velur silungur í flestum tilfellum þær flugur sem hann telur vera æti.
Þegar kastað er á silung skiptir já að sjálfsögðu miklu máli hvernig kastað er og hvernig flugan berst fyrir fisk en þó allt sé gert rétt í þeim efnum fúlsar hann við þeim flugum sem honum finnast ekki matarlegar.
Góða skemmtun á bakkanum.
Óli
(Fyrst birt í Veiði, veiðiblaði Veiðihornsins 2016)
Flugubarinn í Veiðihorninu
Besti barinn í bænum?