Fluguhjól – Fróðleikur og góð ráð

„Fluguhjólið er bara geymsla fyrir línuna og því þarftu ekki að vanda valið þegar kemur að því.“

Þetta heyrðist oft fyrir fáeinum árum en er nú liðin tíð.

Mikil bylting hefur orðið á fluguhjólum síðustu árin. Í kringum 1980 voru fluguhjól ýmist bremsulaus en búin viðnámsfjöður eða með litlum bremsudiskum sem oft gerðu lítið gagn þegar stórfiskur var þreyttur.

Í dag eru öll betri og vandaðri hjól með öflugum bremsubúnaði, sum hver með korkbremsu en önnur búin bremsudiskum úr grafíti eða öðrum gerviefnum.

Það er fátt skemmtilegra en að þreyta stórfisk með vönduðu hjóli og treysta á góðan bremsubúnað.

Ef um bremsulaus hjól er að ræða þarf að „palma“ hjólið þegar fiskur er þreyttur en með því er átt við að haldið sé við spóluna með fingrum eða lófa.

Miklu skiptir við val á bremsu er að bremsan sé mjúk og „hnökri“ ekki. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar fiskur er þreyttur með grönnum taumum og þegar fiskur er grannt tekinn því við mikla rykki í bremsuátaki getur taumur auðveldlega slitnað eða losnað úr fiski.

Í dag eru flest fluguhjól „large arbour“. Það þýðir að kjarni spólunnar er breiður. Fyrir vikið eru nútíma hjól heldur stærri um sig en eldri hjól en tvennt vinnst með þessu. Annars vegar það að mun fljótlegra er að draga inn línu eða taka af henni óæskilegan slaka en einnig hringast flugulínan ekki eins þétt á spólunni og því ekki eins hætt við að verða eins og gormur þegar hún er tekin af hjóli.

Stærð hjóla ræðst af þeirri línuþyngd sem nota á við stöngina. Þyngri línur svo og flotlínur eru sverari en léttari línur og sökklínur. Því skal velja hæfilega stórt hjól fyrir viðkomandi línuþyngd svo nægilegt magn af baklínu komist fyrir.

Í dag eru allar betri og vandaðri flugustangir mjög léttar. Það er gott að hafa í huga að jafnvægið sé gott í þyngd stangar og hjóls. Við val á fluguhjóli fyrir einhendu viljum við því að hjólið sé létt. Þyngdin skiptir hins vegar ekki eins miklu máli þegar tvíhenduhjól er valið þar sem haldið er með báðum höndum um tvíhenduna sem með lengd sinni og vogarafli vegur á móti þyngd hjólsins.

Vinstri eða hægri

Nánast öll innflutt fluguhjól koma uppsett fyrir vinstri hönd. Flest allir erlendir veiðimenn sem heimsækja Veiðihornið snúa inn með vinstri hönd sem er rökrétt þar sem þeir kasta með þeirri hægri og halda stönginni í sterkari hendinni þegar fiskur er þreyttur.

Flest allir íslendingar snúa inn með hægri hönd. Þeir kasta með hægri og færa stöngina yfir í vinstri þegar fiskur tekur og snúa hjólinu með hægri.

Sá sem þessar línur ritar snýr inn með hægri en er örvhentur, kastar með vinstri og þreytir fisk með sterkari hendinni, þeirri vinstri.

Ekkert eitt er rétt og ekkert rangt í þessum efnum. Erfitt er að kenna gömlum hundi að sitja er sagt og því engin ástæða til þess að venja sig af því sem virkar vel.

Byrjendum ráðleggjum við þó að snúa með vinstri að því gefnu að þeir kasti með hægri.

Gott ráð

Vendu þig á það að losa um bremsuna á hólinu þínu þegar þú tekur það af stönginni og gengur frá eftir veiði.

Ef hjól er geymt lengi í hertri bremsu geta bremsudiskar gróið saman og skemmst. Haltu hjólinu þínu hreinu og vel smurðu. Skolaðu vel ef þú hefur verið í sandi eða salti. Ef þú ferð eftir þessum ráðum veitir hjóllið þitt þér margar ánægjustundir árum saman.

Göngum frá í vetrargeymslu og höfum allt klárt fyrir vorið.

Verið velkomin í Veiðihornið Síðumúla 8 og fáið góð ráð hjá veiðimönnunum þar sem allir hafa áratuga reynslu af hvers kyns veiði.

Góða skemmtun á bakkanum.
Óli

(Fyrst birt í Veiði, veiðiblaði Veiðihornsins 2016)

Fluguhjól Veiðihornsins

Uppselt
52.900 kr.54.900 kr.
-30%
Original price was: 21.995 kr. – 26.995 kr..Current price is: 15.397 kr. – 18.897 kr..
109.900 kr.129.900 kr.
-30%
Original price was: 56.995 kr. – 64.995 kr..Current price is: 39.897 kr. – 45.497 kr..