Veiddu villisvín og rauðhirti í Eistlandi

Bára og Guðrún Hafberg fá sér hressingu á miðjum veiðidegi. Bára er mjög hrifin af því að Eistarnir nota ekki einnota plast við þessar aðstæður. Bara leirtau. Kjarngóð súpa og nýbakað brauð. Ljósmynd/BE


Kon­um í skot­veiði hef­ur fjölgað um­tals­vert á síðari árum. Er það í takt við það sem er að ger­ast í stang­veiðinni. Bára Ein­ars­dótt­ir og veiðifé­lagi henn­ar Guðrún Haf­berg voru í Eistlandi í janú­ar og skaut hóp­ur­inn bæði vill­is­vín og rauðhirti. „Þetta kom bara upp með stutt­um fyr­ir­vara og eft­ir að hafa ekki kom­ist í nokk­ur ár vegna Covid, þá grip­um við tæki­færið. Við höf­um ekki kom­ist síðastliðin tvö ár,“ upp­lýs­ir Bára í sam­tali við Sporðaköst.

Þær héldu sem leið lá út í eyj­una Hiiumaa, eða Dagey, úti fyr­ir strönd Eist­lands. Hiiumaa er næst­stærsta eyj­an við Eist­land og þar er að finna bæ­inn Kar­dla þar sem búa 3.500 manns. Eyj­an er þekkt sem vin­sæll ferðamannastaður, og þá ekki síst að sum­ar­lagi og er svæðið rómað fyr­ir ríku­lega mat­ar­hefð.

Bára með fal­lega bráð. Öll dýr­in eru nýtt fyr­ir sam­fé­lagið í heild sinni og all­ir sem taka þátt fá kjöt og er boðið í mikla veislu í lok veiðinn­ar. Ljós­mynd/​BE

Bára hef­ur áður skotið á Hiiumaa og var það í árs­byrj­un 2020, og þá var Hild­ur Harðardótt­ir með í för. „Við feng­um heim­boð frá fólki sem við höfðum kynnst og þetta er eins og ein stór veiðifjöl­skylda og bara ynd­is­legt að koma þarna. Við Íslend­ing­ar njót­um mik­ill­ar virðing­ar í Eistlandi og þeir eru sko ekki bún­ir að gleyma því að við vor­um fyrsta þjóðin til að viður­kenna sjálf­stæði þeirra árið 1991,“ upp­lýs­ir hún.

Það var ekk­ert verið að tvínóna við hlut­ina. Þær komu til eyj­ar­inn­ar að kvöldi fimmtu­dags og klukk­an sex morg­un­inn eft­ir var haldið út í skóg til að veiða. „Þetta var rekstr­ar­veiði sem er mjög spenn­andi. Þegar liðið var á morg­un var súpu­stopp og þá mætti súpu­bíll­inn með kjarn­mikla og frá­bæra súpu. Þeir gera þetta svo flott. Það er komið með súpu í stór­um pott­um og þeir nota al­vöru leirtau. Ekk­ert plast eða einnota. Þetta er svo vel gert allt hjá þeim og til mik­ill­ar fyr­ir­mynd­ar að maður hrífst með. Svo er boðið upp á kaffi og alls kon­ar eft­ir­rétti. Jafn­vel mar­engstert­ur. Eft­ir súp­una var haldið áfram og skipt um veiðistað og dag­ur­inn all­ur var ein sam­felld keyrsla á veiðinni. Al­veg fram í að tók að skyggja. Fjór­um sinn­um yfir dag­inn skipt­um við um staði og með því er verið að tryggja að all­ir fái sem best­an mögu­leika á að kom­ast í góða veiði. Svo er passað upp á allt. Ef ein­hver er slæm­ur í fæti eða á í vand­ræðum með að labba langt þá er fund­inn staður sem hent­ar. Það er þetta sem ég elska við þetta. Virðing­in er svo mik­il fyr­ir öllu. Veiðimönn­un­um, nátt­úr­unni og ekki síst dýr­un­um. Maður dett­ur þarna inn í al­veg sér­heim og það er svo magnað.“

Fóru ekki berrassaðar í sánu

Þær fóru út á fimmtu­degi og veiddu í tvo heila daga. Leik­ur­inn var end­ur­tek­inn á laug­ar­degi og í lok dags var dýr­un­um safnað sama í klúbbhúsi sem er út­búið með full­kom­inni aðstöðu. Bára seg­ir að all­ir fái að njóta af afl­an­um. All­ir sem tóku þátt í veiðinni og þeir sem eiga sum­ar­hús í ná­grenn­inu og fjöl­skyldumeðlim­ir. „Þeir gjör­nýta allt sem til fell­ur. Gera pyls­ur og saga og skera í steik­ur og svo er full­kom­in frystiaðstaða þar. Í klúbbhús­inu er svo líka sam­veruaðstaða og þar er borðað um kvöldið, eft­ir helgar­veiðina. Það eru mik­il ræðuhöld og all­ir veiðimenn standa upp og gera grein fyr­ir sér og sinni veiði og sama gild­ir um þá sem koma í borðhaldið sem gest­ir.“

Guðrún og Bára á leið á veiðistað. Fjöl­menni tek­ur þátt í veiðunum og hver og einn hef­ur sitt hlut­verk. Bára er svo heilluð af þessu að hún stefn­ir á tvær ferðir á þessu ári. Ljós­mynd/​BE

Eft­ir mat­inn fara all­ir sam­an í sánu, en hér hlær Bára og seg­ir að ís­lensku kon­urn­ar hafi ávallt sleppt þeim þætti. „Við kunn­um ekki við það að fara alls­ber­ar í gufu með fullt af fólki. Það er ekki í okk­ar menn­ingu.“

Sunnu­dag­ur er svo heim­ferðardag­ur.

Bára seg­ist nota kalíber 30,06 þegar hún er í veiðinni i Eistlandi en tek­ur fram að hún hafi ekki ferðast með eig­in vopn þegar hún fór til Hiiumaa. Þar er hægt að ganga að góðum riffl­um og því þarf ekki að standa í skri­fræði með toll­vörðum á ferðalag­inu.

Hver er spenn­an í þessu þegar þú ert kom­in á veiðistað og allt er klárt?

„Um leið og þú heyr­ir eitt­hvert hljóð í skóg­in­um fer adrenalínið af stað. Það eru dýr á ferðinni og þú heyr­ir and­ar­drátt, fóta­tak, grein­ar brotna og þetta er eig­in­lega bara ólýs­an­legt. Við erum ekki alltaf með leiðsögu­mann en ef við biðjum um það þá er það sjálfsagt. Í rekstr­ar­veiðinni er ekki alltaf leiðsögumaður með hverj­um veiðimanni en þegar við för­um gang­andi út í skóg að leita að dýr­um, eða erum í turn­veiðum, þá erum við með leiðsögu­menn. En ég hef al­veg farið ein út í skóg að leita að dýr­um. Í eitt skiptið man ég eft­ir að birta var far­in að falla og ég var ein á ferð. Allt í einu tók ég eft­ir fót­spori eft­ir bjarn­dýr. Ég nota skó núm­er 39 en farið eft­ir hann var mun stærra. Sporið var ný­legt og þá kom pínu öðru­vísi adrenalín,“ bros­ir Bára.

Hæg­eldað vill­is­vína­kjöt. Mjög góður mat­ur seg­ir Bára. Meðlætið er svo hefðbundið, kart­öfl­ur og græn­meti. Ljós­mynd/​BE

Stíf­ar regl­ur gilda um veiðarn­ar. Í janú­ar er til að mynda bannað að skjóta gylt­ur á vill­is­vína­veiðum, þar sem þær eru á þess­um tíma „ólétt­ar“, ef nota má það orð. Gelt­irn­ir og yngri svín eru hins veg­ar án kvóta enda er til­gang­ur­inn með veiðinni að tryggja að stofn dýr­anna sé ekki of stór og raski ekki því jafn­vægi sem rík­ir í skóg­um á Hiiumaa.

Er vill­is­vín góður mat­ur?

„Já. Þetta er svo­lítið gróft kjöt en þeir elda þetta gjarn­an við lág­an hita í lang­an tíma. Kjötið er lunga­mjúkt og mjög bragðgott þegar það er borið fram. Meðlætið er svo gul­ræt­ur og kart­öfl­ur og fleira græn­meti. Svo er allt nýtt þannig að morg­un­mat­ur­inn dag­inn eft­ir var steikt­ar kart­öfl­ur og kjöt frá deg­in­um áður og þá setja þeir egg út á og þetta er mjög ljúf­fengt. Við erum í veislu þarna frá því að við kom­um og þar til við för­um. Þetta er gert í svo mik­illi ein­lægni fyr­ir alla þátt­tak­end­ur að það er ekki hægt annað en að hríf­ast af þessu.“

Bára er al­vön skot­vopn­um og hef­ur æft skot­fimi í Skotíþrótta­fé­lagi Kópa­vogs í fjöl­mörg ár og er marg­fald­ur Íslands­meist­ari, síðast 2021. Bára kepp­ir und­ir merkj­um Skotíþrótta­fé­lags Ísa­fjarðar. Hún byrjaði hins veg­ar ekki að stunda skot­veiði með riffl­um fyrr en hún kynnt­ist Hörpu Hlín Þórðardótt­ur og Maríu Önnu Clausen í Veiðihorn­inu. „Ég held að þær hafi farið út árið 2015 til Eist­lands og þegar þær komu svo í æf­ingaaðstöðuna okk­ar í Kópa­vogi kynnt­ist ég þeim og þær segja mér af þessu og ég bara kol­féll fyr­ir þeim og þeirra frá­sögn. Ég fór svo út með þeim næsta ár og ein­mitt til Eist­lands.“

Sum spor í skóg­in­um vekja meiri at­hygli en önn­ur. Hér varð Báru ekki al­veg um sel þegar hún gekk fram á þessi spor und­ir kvöld og hún var ein á ferð. Spor­in eru eft­ir bjarn­dýr og ný­leg.
Ljós­mynd/​BE

„Fyr­ir­gefðu, er eitt­hvað að?“

Bára er senni­lega eins góð skytta og þær ger­ast. Íslands­meist­ara­titl­arn­ir henn­ar eru í loftskamm­byssu, riffli í liggj­andi stöðu á fimm­tíu metr­um og í þrístöðu með riffli. Slík­um frama í skotíþrótt­um fylg­ir að um­gengni um skot­vopn­in er eins og best ger­ist og þá ekki síst þegar kem­ur að veiðinni. „Við leggj­um mikið upp úr því að fara vand­lega yfir öll ör­yggis­atriði og al­menna um­gengni með þeim kon­um sem fara út með okk­ur til að veiða. Það hef­ur líka skilað sér í að þeir sem stjórna veiðinni í Eistlandi og þangað sem við höf­um farið eru mjög ánægðir með okk­ur. Það hef­ur ekk­ert vesen fylgt okk­ar kon­um. All­ar regl­ur og ör­yggi upp á tíu.“

Bára rifjar upp skemmti­legt at­vik þegar hún fór í fyrstu veiðiferðina sína árið 2016. Þá var henni til halds og trausts ung­ur leiðsögumaður og hann vissi að hún var að koma í fyrsta skipti. „Maður­inn þekkti mig ekki neitt og ég var að vissu­lega að byrja í riff­il­skot­veiði en hafði stundað fugla­veiðar hér heima. Leiðsögumaður­inn taldi mig byrj­anda og það var eðli­legt. Svo leggj­um við af stað og eft­ir að hafa labbað ein­hverja fimm eða sex kíló­metra set ég út hönd­ina og gef hon­um merki um að stoppa. Ég tók upp riff­il­inn og skaut þrjú rá­dýr á nokkr­um sek­únd­um. Þegar ég sný mér svo við þá sé ég hann standa með báðar hend­ur á lofti og hugsaði með mér. Ó, nei. Ætli ég hafi bara mátt skjóta eitt? Veiðigræðgin í mér var svo mik­il að ég skaut þau bara öll. Ég spurði hann svo. Fyr­ir­gefðu. Er eitt­hvað að? Hann svaraði: „Nei. Ég hef bara aldrei séð þetta gert áður. Aldrei.“ Hann hélt að hann væri með byrj­anda sem væri að taka sín fyrstu skot og vissi ekk­ert að ég væri búin að æfa skot­fimi.“ Hér hlæj­um við bæði.

Glæsi­leg­ur elg­ur sem Bára felldi í suður Eistlandi. Veiðar byggja á því að viðhalda jafn­vægi í nátt­úr­unni og skóga­svæðið ber aðeins til­tek­in fjölda dýra. Það er því öll­um til góðs að jafn­vægið sé tryggt með tak­mörkuðum og stjórnuðum veiðum. Ljós­mynd/​BE

Bára seg­ir fé­lags­skap­inn stórt atriði í þessu. Hún veiðir ekki bara með þess­um kon­um, þær æfa líka sam­an skot­fimi og hún seg­ir þetta frá­bær­an kjarna. Harpa Hlín, María Anna, Guðrún Haf­berg, Elísa­bet Ólafs­dótt­ir, Hild­ur Harðardótt­ur og Elsa Blön­dal Sig­fús­dótt­ir mynda kjarna­hóp­inn henn­ar. Svo eru þær líka í stang­veiðinni og ljóst að veiði á þessi miss­er­in hug henn­ar all­an.

Hún kom heim frá Eistlandi 16. janú­ar og seg­ist hafa verið byrjuð að skipu­leggja næstu ferð dag­inn eft­ir. „Ég ætla aft­ur út að skjóta í sept­em­ber og svei mér þá ef ég fer ekki jafn­vel líka í sum­ar,“ seg­ir Bára og nýr sam­an hönd­um.

Frá 2016 hef­ur hún farið á hverju ári sem hef­ur verið „fært“ vegna Covid. Leiðin hef­ur fyrst og fremst legið til Eist­lands, þar sem hún kann mjög vel við allt skipu­lag og viðmót. Skot­land heim­sótti hún einu sinni og veiddi þá rá­dýr og kastaði fyr­ir lax. Það var í maí 2019. En Eist­land hef­ur verið nán­ast henn­ar heima­völl­ur og þar skaut hún fyrsta elg­inn, þá stödd syðst í land­inu. Það var árið 2018. „Þetta var í rekstr­ar­veiði og ég heyrði löngu áður en ég sá hann að stórt dýr var á leiðinni til mín. Hljóðin eru minn­is­stæð. Hann baulaði sínu sér­kenni­lega bauli og fnæsti og braut grein­ar og rakst utan í tré og maður heyrði að hann var að nálg­ast. Svo ger­ist þetta á núll-einni og adrenalínið er á fullu. Maður fer í ein­hverja dá­leiðslu og ég skaut hann frístand­andi.“

Loka­kvöldið. Þá er slegið upp mik­illi veislu þar sem þátt­tak­end­ur, bæði gest­ir og heima­menn taka hraust­lega til mat­ar síns. Villi­bráð er á boðstól­um. Ljós­mynd/​BE

Ítrekað fengið morðhót­an­ir

Bára hef­ur alla tíð, frá því að hún man eft­ir sér, verið með veiðibakt­erí­una. Byrjaði með stöng ung að árum en hún átt­ar sig ekki á hvaðan hún hef­ur þetta. „Þetta hef­ur bara ein­hvern veg­inn loðað við mig. Búin að vera svo­lítið í sjó­stöng­inni og verið að skjóta fugla frá því að ég tók byssu­leyfið. Það voru eng­ir mikl­ir veiðiá­huga­menn í kring­um mig í upp­eld­inu þannig að ég veit ekki hvaðan þetta kem­ur. Hins veg­ar er yngri strák­ur­inn minn for­fall­inn veiðiá­hugamaður. Maður­inn minn skil­ur þetta líka þannig að ég er í mik­illi sátt með minn veiðiskap. Ég er al­veg þekkt fyr­ir að vera dellu­kona og taka hlut­ina svo­lítið með trompi. Er frek­ar ný­byrjuð í flugu­veiði en búin að skipu­leggja marga túra í sum­ar og svo ætla ég út að veiða á stöng á næsta ári.“

Leiðsögumaður og Guðrún Haf­berg með rauðhjört í skóg­um Hiiumaa í Eistlandi. Ljós­mynd/​BE

En það eru dökk­ar hliðar á þessu sporti sem er líf og yndi Báru. „Ég hef fengið ófá­ar morðhót­an­ir vegna mynd­birt­inga. Ég hef hins veg­ar ákveðið að taka það ekki inn á mig.“

Hvernig hót­an­ir hef­urðu fengið?

„Bara hrein­ar og klár­ar morðhót­an­ir. Til dæm­is mann­eskja sem ég kann­ast við án þess að hún þekki mig sendi mér hót­un um að hún ætlaði að drepa mig fyr­ir að vera að fella dýr. Sagði að ég þyrfti að kíkja í kring­um mig þegar ég færi út úr hús­inu heima hjá mér. Ég hef líka fengið hót­an­ir frá fólki sem ég þekki ekki neitt. Ég man þegar birt­ist mynd af okk­ur stelp­un­um í Morg­un­blaðinu þegar við vor­um að fara í fyrstu ferðina, 2016. Þá feng­um við morðhót­an­ir og á þeirri mynd vor­um við bara í veiðigöll­um og með byss­ur. Eng­ir dauðir fugl­ar eða dýr. En ég hef tekið þann pól í hæðina að graf­ast ekki frek­ar fyr­ir um þetta og vil helst ekki veita þessu at­hygli því það get­ur ýtt frek­ar und­ir þetta.“

Rétt er að taka fram að Bára vildi nefna þessa skugga­hlið án þess að gera hana að aðal­atriði. Þess vegna kem­ur þetta til tals síðast í þessu viðtali. Fyr­ir­sögn á borð við: Ítrekaðar morðhót­an­ir eft­ir Eist­lands­ferð hefði vakið mun meiri at­hygli og sjálfsagt orðið til að skapa mikið um­tal. Það er hins veg­ar niðurstaða okk­ar Báru í þessu viðtali að veita ekki heiftúðugu fólki of mikla at­hygli, en engu að síður eru hót­an­ir af þessu tagi kær­an­leg­ar til lög­reglu og ekki síst þegar þær eru sett­ar fram und­ir nafni og því auðvelt fyr­ir lög­reglu að rann­saka slík mál.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is