Svona lítur Veiðikortið út fyrir sumarið 2023. Þegar verðbólga mælist um tíu prósent er ánægjulegt að sjá að Veiðikortið kostar það sama og í fyrra. Ljósmynd/Veiðikortið
Veiðikortið, sem nýtur mikilla vinsælda meðal stangveiðimanna kemur út núna í átjánda skipti. Verðið er óbreytt milli ára og er það þriðja árið í röð sem verðið er það sama. Í tveggja stafa verðbólgu er það ákaflega ánægjulegt að sjá að almennar verðhækkanir hafa ekki áhrif á þennan útivistarkost sem sífellt fleiri nýta sér.
Ingimundur Bergsson, sem nýlega tók við sem framkvæmdastjóri hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur hefur haft veg og vanda að Veiðikortinu frá stofnun þess. “Já. Verðið er óbreytt þriðja árið í röð. Við lögðum á það mikla áherslu að geta haldið verðinu óbreyttu. Með góðum vilja landeigenda tókst það og kortið kostar 8.900 krónur eins og í fyrra og sumarið 2021,” upplýsti Ingimundur í samtali við Sporðaköst.
Ingimundur Bergsson, framkvæmdastjóri SVFR hefur haldið utan um Veiðikortið frá því að það kom fyrst út árið 2005. Hér er hann með lax af Kattarfossbrún í Langá. Ljósmynd/Veiðikortið
Veiðikortið í ár veitir aðgengi að 37 vatnasvæðum og bætist Hítarvatn við í ár. Hítarvatn er þar með komið aftur inn í Veiðikortið. Allar upplýsingar um veiðistaði og má finna á heimasíðunni veidikortid.is.
Nú styttist í að veiðitíminn hefjist formlega að nýju og fyrstu veiðisvæðin opna um mánaðamótin. Raunar er það svo að nokkur vötn eru opin allt árið, eins og Hlíðarvatn í Hnappadal, Gíslholtsvatn og Urriðavatn við Egilsstaði og er það tekið fram á síðu Veiðikortsins að þar er leyfilegt að veiða allt árið. Nokkur vötn opna þó formlega 1. apríl og má þar nefna Vífilsstaðavatn, Þveit við Hornafjörð og Syðridalsvatn við Bolungarvík. Önnur vötn miðast við þegar ísa leysir og dagsetningar yfir formlegar opnanir má finna á heimasíðunni. Ljóst er að margir horfa löngunaraugum til 1. apríl þegar veiðitímabilið hefst formlega og sjóbirtingsárnar opna fyrir vorveiði.
Eggert Skúlason
Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is