Stærsti framleiðandi sjónauka í Bandaríkjunum

Höfuðstöðvar Leupold í Oregon.

Þessi grein birt­ist áður í blaðinu VEIÐI XIII sem Veiðihornið gaf út í maí 2024. 

Saga Leupold er merkileg en fyrirtækið fagnar brátt 120 árum frá stofnun. Leupold er fjölskyldufyrirtæki, enn í eigu afkomenda innflytjandanna sem stofnuðu félagið árið 1907.

Í stjórnarsamþykktum Leupold er kveðið á um að ekki megi selja hluti félagsins út fyrir fjölskylduna enda er félagið nú í eigu fimmtu kynslóðar en það er afar sjaldgæft að fyrirtæki haldist innan sömu fjölskyldu í svo marga ættliði.

Í lok 19. aldar voru miklir mannflutningar frá Evrópu til Bandaríkjanna. Fólk flykktist yfir hafið í leit að nýjum tækifærum til betri lífskjara. Tveir ungir menn, Frederick Leupold og Adam Voelpel höfðu kynnst í kristilegu félagi ungra manna í New York nokkrum árum áður en þeir ákváðu að leggja leið sína þvert yfir Bandaríkin líkt og fjöldi manna á þessum árum í leit að gulli.

Adam Voelpel átti rætur sínar í Austuríska hluta Póllands en Markus Frederick Leupold kom frá litlum þýskum bæ við landamærin að Sviss.

Þessir tveir eru stofnendur Leupold í Bandaríkjunum en fyrirtækið hét þá Leupold Volpel & Co.

Fyrstu árin framleiddi fyrirtækið allskyns mælitæki til vísindarannsókna.

Árið 1914 bættist við nýr eigandi, John Cyprian eða Jack Stevens. Jack var frumkvöðull og hafði fundið upp byltingarkenndan vatnsrennslismæli. Hann fór á stúfana í leit að fyrirtæki sem gæti framleitt þessa nýjung og úr varð að Jack keypti sig inn í félag Adam og Frederick, Leupold.

Við þessar breytingar stækkaði Leupold ört. Félagið var staðsett í Portland, Oregon þar sem keypt var landsvæði og verksmiðja byggð.

Eftir andlát Adam Voelpel árið 1940 var nafni félagsins breytt í Leupold & Stevens Instruments.

Handverk í bland við hárnákvæma vélsmíði.

Leupold hóf framleiðslu riffilsjónauka upp úr 1940. Nú var ný kynslóð tekin við. Marcus og Ruth Leupold voru útivistarfólk og veiðimenn. Í veiðiferð einni með vinahjónum í austurhluta Oregon fylkis missti Marcus af stórum tarfi vegna lélegs sjónauka.

“Hell! I could build a better scope than this!”

Þessi veiðiferð og setningin “Hell! I could build a better scope than this!” er upphafið af framleiðslu Leupold á einhverjum bestu sjónaukum á markaðnum.

Leupold sjónaukar eru gerðir til að þola allar aðstæður.

Heimsókn til Leupold í Oregon

Á ferð okkar um vesturfylki Bandaríkjanna nýverið heimsóttum við vini okkar í Leupold í Beaverton rétt við Portland í Oregon. Það hafði lengi verið á dagskrá hjá okkur að heimsækja þetta stórkostlega fyrirtæki sem við höfum átt viðskipti við í 20 ár.

Leupold er staðsett í Oregon fylki sem fyrr segir, í paradís veiðimanna. Fjöldi tegunda alls kyns veiðidýra eru í skógunum í kring og í vötnum, ám og Kyrrahafinu sjálfu er hægt að veiða allt árið um kring.

Okkur varð hugsað heim. Lax og silungur, hreindýr rjúpa og gæs. Vart mikið meira en það.

Við fengum höfðinglegar móttökur, hittum alla helstu stjórnendur fyrirtækisins og var boðið að skoða alla verksmiðjuna. Það kom okkur á óvart hve Leupold fyrirtækið er stórt. Þarna starfa um 700 manns á tvískiptum vöktum og þar af 60 til 70 verkfræðingar í þróunar og framleiðsludeildum fyrirtækisins.

Á verksmiðjugólfinu eru sérstakar vélar eingöngu til framleiðslu á „prótótýpum“ það er nýjungum til prufu áður en þær fara endanlega í framleiðslu. Þetta kemur í veg fyrir að stoppa þurfi framleiðsluna sjálfa þegar framleiða þarf nýjar prufur.

Eftir dag í verksmiðjunni og höfuðstöðvum Leupold var okkur boðið að eiga dag á skotsvæði í nágrenninu með starfsmönnum Leupold sem kynntu okkur allar þær vörur sem við vildum prófa og þær nýjungar sem eru væntanlegar á markað.

Fylgst með árangri skyttanna með öflugum útsýnissjónaukum.

Skotsvæðið

Á skotsvæðinu eru riffilbrautir upp í 600 yarda eða um það bil 550 metra auk margra svæða fyrir bogfimi, skammbyssur, sjálfvirka riffla og margt fleira. Aðstaða sem er til fyrirmyndar og aftur varð okkur hugsað heim, nú á Álfsnesið.

Við vörðum hálfum deginum við að skjóta úr alls kyns veiðirifflum með hinum ýmsu sjónaukum en seinni part dagsins notuðum við til að kynnast ýmsum miðum á skammbyssum, haglabyssum og sjálfvirkum rifflum.

Notaðir voru fjarlægðarmælar og stórir sjónaukar til að fylgjast með árangrinum á skotskífunum.

Óli í Veiðihorninu gerir sig kláran í 300 yardana. Það glittir í skotskífurnar lengst til vinstri á myndinni.

Tarfur á skotsvæðinu

Þar sem við vorum að prófa hina ýmsu veiðiriffla og sjónauka um morguninn og ég að skjóta á stál­skífur í steyptu skýli á tæpum 300 metrum kemur tarfur út úr skóginum.

Whitetail tarfur og stillir sér upp beint fyrir framan “bunkerinn” minn, algjörlega í dauðafæri. Ég benti aðstoðarmanni mínum á hvað hafði gerst. Hann leit í sjónaukann sinn, rétti strax upp höndina og kallaði hátt og snjallt “Ceasefire, ceasefire”. Miðjukross sjónaukans míns var á dýrinu í á aðra mínútu þar til hann rölti aftur í rólegheitum inn í skóginn. Við höfðum á orði að þetta væri úrvals æfingasvæði með veiði í bland.

Veiðihornið umboðsaðili Leupold í 20 ár

Veiðihornið er stoltur umboðsaðili fyrir Leupold á Íslandi í 20 ár. Bandarísku Leupold riffilsjónaukarnir eru í hópi þeirra bestu í heiminum í dag og gefa margfalt dýrari sjónaukum ekkert eftir eins og margoft hefur verið sýnt fram á.

Verið velkomin til okkar í Síðumúla 8 til að kynnast Leupold betur, bestu kaupum í sjónaukum á Íslandi í dag.