Allt sem þú þarft að vita um hundraðkalla

Aðalsteinn Jóhannsson með 104 sentímetra fisk af Mjósundi í Laxá í Aðaldal. Veiddur í júlí í fyrra og var einn sá allra stærsti sem veiddist á Íslandi það sumarið. Laxá hefur gefið tuttugu fiska í þessum flokki síðustu þrjú ár. Ljósmynd/VBJ


Síðastliðin þrjú veiðitíma­bil hafa Sporðaköst haldið úti svo­kölluðum Hundraðkalla­lista. Þar höf­um við skráð laxa sem hafa veiðst á Íslandi og hafa mælst hundrað sentí­metr­ar eða lengri. Þessi fisk­ar eru fá­gæt­ir og því merk­is­feng­ur fyr­ir hvern veiðimann.

Laxá í Aðal­dal gef­ur flesta slíka fiska og kem­ur það sjálfsagt eng­um á óvart enda lengi verið henn­ar aðals­merki. Þessi þrjú ár sem hér eru til skoðunar hafa tutt­ugu fisk­ar í þess­um flokki verið færðir til bók­ar. Víðidalsá er af­ger­andi í öðru sæti með fjór­tán fiska á þrem­ur árum. Í Stóru – Laxá hafa veiðst sjö slík­ir á þrem­ur árum. Miðfjarðará hef­ur gefið sex og Vatns­dalsá fimm. Sama fjölda er að finna í Laxá í Döl­um og Jöklu.

Rob Williams með 103 sentí­metra hæng úr Dals­árósi í Víðidalsá, sem hann veiddi 17. sept­em­ber í ár. Víðidalsá hef­ur gefið fjór­tán slíka síðustu þrjú árin. Ljós­mynd/​NFJ

Árið 2020 var áber­andi best af þess­um þrem­ur árum. Þá veidd­ust 44 hundraðkall­ar en 30 í fyrra og fram til þessa hafa verið skráðir 29 í sum­ar.

Hér fylg­ir listi yfir þær ár sem slík­ir fisk­ar hafa veiðst í und­an­far­in þrjú ár.

[table id=6 /]

Þessu til viðbót­ar gáfu eft­ir­tald­ar ár einn hundraðkall hver, í sum­ar. Norðurá og Þverá í Borg­ar­f­irði. Sæ­mundará, Deild­ará, Hauka­dalsá og Laxá í Lei­rár­sveit.

Þegar horft er til mánaða kem­ur í ljós að þess­ir fisk­ar eru að veiðast býsna jafnt í júlí, ág­úst og sept­em­ber. Fæst­ir þeirra veiðast í júní.

[table id=7 /]

*Einn af þess­um löx­um veidd­ist 1. októ­ber í Fos­sá.

Af þess­um 104 stór­löx­um sem við höf­um skráð voru nítj­án tekn­ir á Sunray eða Skugga út­færsl­ur. Sautján tóku rauða Frances í ýms­um út­færsl­um og sjö svarta Frances.

Ef þú ert að reyna við hundraðkall þá viltu sam­kvæmt þessu helst fara í Laxá í Aðal­dal eða Víðidalsá í sept­em­ber (lægsta verðið) og kasta þar Sunray, Skugga eða rauðri og svartri Frances.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is