Gylfi Pálsson: Taktu mark á hugboði

Taktu mark á hugboði

Hugboð er skyndileg hugdetta, hugmynd, sem oft er betra að fylgja en hundsa. Þótt þú sért búinn að kasta „síðasta kasti“ kastaðu þá aftur ef þér finnst þú verðir að gera það.

Það gaf mér eitt sinn 14 punda lax við Bergsnös í Stóru Laxá. Af sömu ástæðu – kastaðu einu sinni enn þótt þú teljir að þú sért búinn að veiða veiðistaðinn alveg á enda. Ég hlýddi hugboðinu og fékk 16 punda lax í Illakeri; hann tók á blábrotinu og demdi sér niður í Kálfhagahyl þar sem honum var landað eftir talsvert basl og busl.

Ef þér finnst þú verða að fara á stað sem e.t.v. er ekki í sérlegu áliti og þónokkur spölur að ganga að, farðu samt. Líklegt er að ekki hafi margir lagt leið sína þangað; fiskurinn þar sé óstyggður og í tökustuði.

Lítil saga um hugboð á Hornströndum.

Við gengum úr Aðalvík yfir Stakkadalsfjall niður á Hesteyri og ég auðvitað með veiðistöng þegar kom niður að Læknishúsinu þar sem Hesteyraráin rennur framhjá – sagði ég í bríaríi við samferðafók mitt:

„Ég ætla að taka hérna þrjá fiska.“ Það fussaði og sagði: „Þú, alltaf með þetta prik hvað ætli þú veiðir?“ Ég lét það ekki á mig fá, setti saman stöngina, hnýtti á línuna heimagerðan spón, kastaði og það var bleikja á í fyrsta kasti. Náði tveimur í viðbót og tók að því búnu stöngina sundur þótt mig klæjaði í lófana að halda áfram – en stillti mig.

Þá sögðu félagarnir: „Ætlar þú ekki að reyna meira?“ „Nei,“ sagði ég „það voru bara þrír fiskar þarna.“ „Hvað ætli þú vitir um það,“ sögðu þeir, „kastaðu aftur.“

Ég gaf engan kost á því þótt mig blóðlangaði.

„Megum við prófa?“ var þá spurt.
„Já, gjörið svo vel – en það eru ekki fleiri fiskar í ánni,“ staðhæfði ég en lánaði þeim stöngina, skíthræddur um að þeir settu í fisk.

Allt kom fyrir ekki, þeir fengur ekki bein. Létu mig fá stöngina eftir dágóða stund og spurðu: „Hvernig vissir þú að fiskarnir væru ekki fleiri?“ „Ég vissi það bara,“ ansaði ég og sneri mér undan.

Auðvitað hef ég enga yfirskilvitlega hæfileika en þetta var svona hugboð, grunur eða hvað má nefna það þegar maður hefur eitthvað á tilfinningunni – og trúir því.

 

(Fyrst birt í Veiði X – 10. árgangi veiðiblaðs Veiðihornsins 2021)

Gylfi Pálsson