Fóru 15 í „sturlaða“ ferð til Grænlands

Barmarnir á Grænlandi, frá vinstri: Margrét Lísa Steingrímsdóttir, Halla Fróðadóttir, Sandra Sif Morthens, Margrét Arnardóttir, Þórunn Auðunsdóttir, Sif Jóhannsdóttir, Alma Anna Oddsdóttir, Dögg Hjaltalín, Sylvía Kristín Ólafsdóttir, Guðný Helga Herbertsdóttir, Ingveldur Ásta Björnsdóttir, Erla Tryggvadóttir, Kristín Klara Grétarsdóttir, Sóley Kristjánsdóttir og liggjandi er Anna Lea Friðriksdóttir Ljósmynd/Barmarnir


Fimmtán ís­lensk­ar veiðikon­ur eru ný­komn­ar heim eft­ir veiðiferð til Græn­lands þar sem þær veiddu bleikju í fjóra daga. Hóp­ur­inn hef­ur veitt sam­an í mörg ár og kall­ar sig Barm­ana. Meðal veiðisvæða sem þær hafa veitt má nefna Langá, Laxá í Kjós og Stóru-Laxá svo ein­hverj­ar ár séu til­greind­ar.

Dögg Hjaltalín er ein af þeim sem fóru til Græn­lands og hún seg­ir ferðina hafa verið ótrú­lega. En hvernig kom það til að hóp­ur­inn valdi Græn­land og það síðari hluta sept­em­ber?

Dögg Hjaltalín með fal­lega bleikju sem er kom­in í haustlit­ina.

Ljós­mynd/​Barm­arn­ir

„Ég var búin að heyra Árna Bald­urs­son dá­sama þessa veiði í Græn­landi. Mál æxluðust þannig að við fór­um til hans á sölufund og nátt­úr­lega seldi hann okk­ur þetta á staðnum, sem sól og blíðu og hörku­veiði,“ sagði Dögg í sam­tali við Sporðaköst.

Og hvernig var þetta svo á skal­an­um einn til tíu?

Hún hugs­ar sig ekki um. „Fimmtán. Þetta var al­gjör­lega sturluð upp­lif­un og engu líkt,“ hlær hún. Þær flugu fimmtán frá Reykja­vík til Nars­ar­su­aq á Græn­landi en nauðsyn­leg­ur aukafar­ang­ur var kom­inn á und­an þeim, sam­tals 120 kíló. „Við vor­um bún­ar að vinna heima­vinn­una og viss­um hvað við þurft­um að taka með okk­ur.“

Græn­lands­jök­ull í bak­sýn. Hóp­ur­inn nýtti tím­ann vel og á hverj­um degi voru líka skoðun­ar­ferðir.

Ljós­mynd/​Barm­arn­ir

Og hvað var þetta?

„Veit­ing­ar og hátal­ar­ar. Við viss­um að það var lítið til á veiðislóðum, t.d. ekki tónik, og við þurft­um því að koma með allt með okk­ur.“

Veiðin þarna er bleikja og seg­ir Dögg að víða hafi verið mikið óhemju­mikið magn af fiski. „Það kom okk­ur al­veg á óvart hvað bleikj­an var sterk og gam­an að spila hana en við vor­um bæði að veiða fiska sem voru legn­ir og svo nýrri bleikj­ur í bland. Við veidd­um aðallega á púp­ur og straum­flug­ur en prófuðum alls kyns leyni­vopn úr boxun­um okk­ar. Við þurft­um al­veg að hafa fyr­ir bleikj­un­um á köfl­um en sums staðar var al­veg pakkað af henni og þá gekk allt upp. Við vor­um að fá fiska allt upp í sex­tíu sentí­metra, sem eru fanta­bleikj­ur.“

Mar­grét Lísa Stein­gríms­dótt­ir með stærstu bleikj­una í ferðinni. Þessi mæld­ist sex­tíu sentí­metr­ar.

Ljós­mynd/​Barm­arn­ir

Frá Nars­ar­su­aq var siglt í þrjá klukku­tíma í veiðibúðirn­ar sem eru, að henn­ar sögn, æðis­leg­ur staður og ekki skemmdi fyr­ir að þær komu þangað í sól og blíðu. Strax var farið út að veiða í vatni sem er stutt frá veiðihús­un­um. Ekki nema fimm mín­útna sigl­ing. Ann­ars var tölu­vert lengri sigl­ing á aðra veiðistaði. „Við vor­um reynd­ar það heppn­ar að upp­lifa að fara eitt­hvað á hverj­um degi sam­hliða veiðinni. Við fór­um og skoðuðum ólíka staði enda all­ar komn­ar í bát­ana snemma á morgn­ana og magnið af fiski þannig að það þarf ekki al­veg tólf tíma veiðidaga.

Prins­inn af Quassimiut. Eina barnið í þorp­inu. Hann naut þess að vera með hópn­um í þeirra æv­in­týr­um.

Ljós­mynd/​Barm­arn­ir

Einn dag­inn var sjálf­ur Græn­lands­jök­ull heim­sótt­ur sem skríður fram í sjó þar sem hafern­ir sveimuðu um. Það var al­gjör­lega stór­feng­legt sjón­arspil. Ann­an dag­inn heim­sótt­um við Quassimiut, heimaþorp gæd­anna okk­ar þar sem nú búa ell­efu manns og þar af eitt barn en í þorp­inu var fisk­verk­un og ein versl­un sem meðal ann­ars veiðihúsið kaup­ir frá. Það var svo­lítið spes að sjá sam­an í einni búð bæði páska- og jól­anammi. Snakk og bjór var hápunkt­ur­inn.“

Einn af leiðsögu­mönn­un­um ger­ir að ný­skotnu hrein­dýri. Dögg seg­ir að mat­ur­inn hafi verið góður. All­ur ný­veidd­ur í ná­grenn­inu. Bleikja, lax, hrein­dýr og þorsk­ur.

Ljós­mynd/​Barm­arn­ir

Mat­ur­inn í veiðihús­inu var mjög góður enda Græn­land mik­il mat­arkista. Boðið var upp á bleikju, þorsk og hrein­dýr, allt ný­veitt úr ná­grenn­inu. Einnig er al­gengt að boðið sé upp á lax sem er veidd­ur í net í sjón­um en lax­inn kem­ur ekki upp í árn­ar á Græn­landi. „Aðstaðan í veiðikof­un­um okk­ar var eins og best ger­ist á Íslandi svona kannski fyr­ir utan síma- og net­sam­bands­leysi og raf­magns­leysi á nótt­unni. Það var ekki mikið vanda­mál enda yljuðum við okk­ur við varðeld­inn, með mikl­um hlátri og söng. Við dýfðum okk­ur líka til sunds í Græn­lands­haf­inu og gát­um hitað okk­ur í góðu gufubaði eft­ir á.“

Þær voru dug­leg­ar við að flaka og tóku fullt af flök­um með sér heim.

Ljós­mynd/​Barm­arn­ir

Þetta er í fyrsta skipti sem Dögg kem­ur til Græn­lands. „Ég hef aldrei upp­lifað svona menn­ing­ar­sjokk áður. Mamma spurði mig hvort þarna væri mik­il fá­tækt. Það orð er ekki nógu sterkt til að lýsa því sem við sáum í þeim bæj­um sem við heim­sótt­um. Ítrekað raf­magns­leysi, tak­markað ferskvatn og óboðleg frá­veitu­kerfi eru ekki al­veg aðstæður sem hægt er að ímynda sér að búa við yfir vetr­ar­mánuðina hér á norður­hjara ver­ald­ar. Einn leiðsögumaður­inn okk­ar, sem er frá Quassimiut, var með son sinn með okk­ur í tvo daga. Hann er eina barnið í þorp­inu og það er tveggja tíma sigl­ing í bæ­inn þar sem hann fer í skóla. Ég hugsa að hann fari ekki oft í viku í skól­ann.“

Dögg með eina af mörg­um bleikj­um. Sól og blíða á þess­ari mynd en þær fengu ýms­ar út­gáf­ur af veðri.

Ljós­mynd/​Barm­arn­ir

Þetta er ein­hver magnaðasta ferðin sem Barm­arn­ir hafa staðið fyr­ir frá upp­hafi. Þær langaði í eitt­hvað nýtt og öðru­vísi og ferðin var ein­mitt þannig. Það verður spenn­andi að vita hvaða á verður fyr­ir val­inu næst hjá þess­um magnaða veiðihópi.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is