Þeir félagar Stefán Kristjánsson og Grétar Þorsteinsson með glæsilegan Tarpoon. Stefán veiddi þennan og hann var um 70 pund. Stærstu fiskarnir koma ekki um borð heldur er losað úr þeim við bátshlið. Ljósmynd/Fish Partner
Sjö veiðimenn frá Íslandi héldu á vit ævintýra í leit að risa Tarpoon við strendur Kosta Ríka fyrr í þessum mánuði. Þeir settu í og slógust við fiska í yfirstærð, þrátt fyrir erfið skilyrði en þeir komu á svæðið í kjölfar fellibylsins Irma.
Það var Fish Partner sem stóð að skipulagningu ferðarinnar. Flogið var fyrst til New York og svo þaðan til San Jose, höfuðborgar Kosta Ríka sem staðsett er á Valle–Central hásléttunni. Borgin er í hvorki meira né minna en 1.170 metra hæð. Til samanburðar þá er Esjan okkar 914 metrar.
Það var mikil ölduhæð og aðstæður hinar erfiðustu. Hópurinn gerði samt fína veiði.
Ljósmynd/Fish Partner
Næst var tekin smárúta og ekið í tvær klukkustundir að stærsta þjóðargarði Kosta Ríka. Við þjóðgarðinn mættu hópnum leiðsögumenn með hjólbörur og tóku við farangrinum því ekki er heimilt að fara um þjóðgarðinn á vélknúnum ökutækjum. „Þetta var labb í tíu mínútur og þá vorum við komnir í veiðihúsið sem bókstaflega er inni í frumskóginum. Þetta er eina veiðihúsið á þessum slóðum sem er inni í garðinum sjálfum,“ sagði Kristján Páll Rafnsson fararstjóri í ferðinni.
Eins og gefur að skilja er mikið lífríki í skóginum, bæði apar, letidýr, skjaldbökur, slöngur og skordýr af öllum gerðum. „Maður vaknaði alltaf um fimm leytið á morgnana. Þá var bara eins og ýtt væri á takka og frumskógurinn fór í gang og öll dýrin í skóginum byrjuðu að baula. Það var oft að það voru apar á þakinu hjá mér. Þú veist; húhh úhh hú hú,“ hermir hann eftir öpunum.
Veiðihúsið sjálft er inni í þjóðgarði á Kosta Ríka og því inni í frumskógi. Það fór vel um hópinn á framandi slóðum. Ljósmynd/Fish Partner
Kristján segir að þetta hafi verið mögnuð upplifun að vera svona inni í frumskóginum. Veiðin sem hópurinn fór í voru fimm dagar og veitt var á bátum við ströndina. Fyrst og fremst var verið að kasta fyrir stóran Tarpoon, en á þessum slóðum eru afar stórir fiskar af þeirri tegund. Meðafli var töluvert mikið af Jack sem eru líka fínir sportfiskar.
„Við lentum í erfiðum aðstæðum. Ölduhæð var rosalega mikil enda voru leifarnar af fellibylnum Irmu skammt frá okkar. Við sluppum hins vegar við það úrhelli sem hafði verið spáð. Vegna ölduhæðarinnar var þetta mjög erfitt.“
Risa Tarpoon á síðustu metrunum. Eins og sjá má er vatnið nánast kakó, en þeir voru samt að taka við þessi skilyrði. Hér tekur Pálmi Sigurðsson hraustlega á. Ljósmynd/Fish Partner
Þrátt fyrir þessar krefjandi aðstæður setti hópurinn í flotta Tarpoona, frá fjörutíu pundum og upp í hundrað og tuttugu pund sem þykja orðið mjög stórir Tarpoonar. Þeir hirtu alltaf af og til Jack og létu elda fyrir sig í veiðihúsinu og segir Kristján þá afar ljúffenga.
„Þegar maður setur í svona stóra Tarpoona og þeir eru á ferðinni þá er þetta bara eins og að setja í járnbrautalest. Hann tekur og rýkur af stað. Maður er með bremsuna í botni og þarf helst að halda stönginni beinni en ekki vera með hana bogna. Bara passa að halda fast í hana svo þú missir hana ekki. Um leið og þeir finna fyrir átakinu þá stökkva þeir og þessir fiskar geta stokkið svakalega.“
Pálmi Sigurðsson með fallegan Tarpoon en þessir fiskar eru ótrúlega sterkir. Ljósmynd/Fish Partner
Kristján setti sjálfur í risastóran Tarpoon á fyrsta degi. Leiðsögumaðurinn fullyrti að sá fiskur væri 130 pund. „Hann stökk himinhátt og það var svo magnað að við vorum ofan í öldudal þegar hann stökk og hann var þá langt fyrir ofan bátinn. Það var ótrúlegt augnablik að sjá hann svífa í loftinu svona hátt fyrir ofan okkur,“ sagði Kristján. Hann var að fara í þriðja skipti að elta þennan eftirsótta fisk og segist þegar vera orðinn Tarpoon junkie eða fíkill.
Aðstæður þar sem hópurinn var að veiða voru með þeim hætti að mikil á rennur til sjávar skammt frá veiðihúsinu og fór veiðin að mestu fram í þessum ós. Þar sem ferskvatnið var að blandast sjónum. Tarpoonarnir leita í þessi skil og þar er kastað fyrir þá. Ölduhæðin gerði það að verkum að við ströndina brimaði og þangað leitaði Tarpooninn og því var erfitt að komast í færi við fiskana.
Útsýnið úr hótelherberginu var fjölbreytt. Hér er letidýr að ferðast um frumskóginn.
Ljósmynd/Fish Partner
„Við lentum tvo daga í því að áin varð algert kakó eftir rigningar uppi í fjöllunum. Þetta var verra en Urriðafoss, en það var svo magnað að fiskurinn var að taka í þessum skilyrðum og greinilegt að sjónin hjá honum er mögnuð. Sama var með Jackinn og hann var að taka þrátt fyrir þennan mikla lit.“
Kristján segir að þetta svæði sé þekkt fyrir gott hlutfall af stórum Tarpoonum, frá þrjátíu til hundrað plús pund. Stærsti fiskurinn sem hópurinn náði að landa var 120 pund, sem er engin smásmíði.
Hvernig er með verð á svona veiði? Eru þetta ferðir sem venjulegt fólk getur keypt?
„Þessi ferð kostaði 3.900 dollara á manninn og það er í kringum 560 þúsund krónur, miðað við gengið núna. Þú færð hvergi á Íslandi laxveiði með fullri þjónustu, leiðsögumanni og gistingu fyrir þá upphæð í þennan tíma.“
Við hvað miðast þetta verð? Hvað er innifalið?
„Það er allt frá flugvelli í San Jose og til baka. Áfengi og flugur sem hægt er að kaupa á staðnum, er ekki innifalið. Fyrir utan þetta er svo flugið frá Íslandi til Kosta Ríka. En veiðihlutinn leggur sig á um hundrað þúsund krónur á dag,“ upplýsti Kristján. Hann benti líka á að það væru miklar upplifunarferðir að fara í veiði erlendis. Þetta snerist ekki bara um veiðina heldur væri svona ferð eitt stórt ævintýri.
Kristján Páll Rafnsson með Tarpoon en hann missti einn sem leiðsögumaðurinn áætlaði 130 pund.
Ljósmynd/Fish Partner
Aðspurður um búnað sagði hann að hægt væri að leigja græjur á staðnum en hann mælti með að menn tækju frekar sín veiðihjól þegar farið væri á þessar slóðir. Eða jafnvel sem best væri að menn væru með sínar græjur. Hann mælir með níu feta einhendu, afar stífri og veiðihjóli með línu tólf.
Sjálfur var Kristján með 75 punda undirlínu, Tropical flugulínu með hundrað punda kjarna og fluor carpon taum, hundrað punda. „Ég get alveg sagt þér það að við slitum í nokkuð mörgum fiskum.“
Þarna keppast menn ekki bara að við ná fiskum, heldur eru einnig færð til bókar stökk hjá Tarpooninum. Þannig að Kristján í þessari ferð var með þrjú stökk og landaði einum. Heilt yfir var veiðin ágæt í ljósi aðstæðna. Ljóst er að ferð á þessar slóðir verður endurtekin, upplýsir Kristján.
Þetta er önnur ferðin sem Fish Partner stendur fyrir þar sem Íslendingum gefst kostur á að fara í veiði erlendis. Fyrri ferðin var til Slóveníu í vor og verður sú ferð endurtekin. Þá segir Kristján að fleiri ferðir séu í smíðum og verða þær kynntar fljótlega.
Eggert Skúlason
Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is