Á stórfiskaslóðum við Kosta Ríka

Þeir félagar Stefán Kristjánsson og Grétar Þorsteinsson með glæsilegan Tarpoon. Stefán veiddi þennan og hann var um 70 pund. Stærstu fiskarnir koma ekki um borð heldur er losað úr þeim við bátshlið. Ljósmynd/Fish Partner


Sjö veiðimenn frá Íslandi héldu á vit æv­in­týra í leit að risa Tarpoon við strend­ur Kosta Ríka fyrr í þess­um mánuði. Þeir settu í og slóg­ust við fiska í yf­ir­stærð, þrátt fyr­ir erfið skil­yrði en þeir komu á svæðið í kjöl­far felli­byls­ins Irma.

Það var Fish Partner sem stóð að skipu­lagn­ingu ferðar­inn­ar. Flogið var fyrst til New York og svo þaðan til San Jose, höfuðborg­ar Kosta Ríka sem staðsett er á Valle–Central há­slétt­unni. Borg­in er í hvorki meira né minna en 1.170 metra hæð. Til sam­an­b­urðar þá er Esj­an okk­ar 914 metr­ar.

 

Það var mik­il öldu­hæð og aðstæður hinar erfiðustu. Hóp­ur­inn gerði samt fína veiði.
Ljós­mynd/​Fish Partner

Næst var tek­in smárúta og ekið í tvær klukku­stund­ir að stærsta þjóðarg­arði Kosta Ríka. Við þjóðgarðinn mættu hópn­um leiðsögu­menn með hjól­bör­ur og tóku við far­angr­in­um því ekki er heim­ilt að fara um þjóðgarðinn á vél­knún­um öku­tækj­um. „Þetta var labb í tíu mín­út­ur og þá vor­um við komn­ir í veiðihúsið sem bók­staf­lega er inni í frum­skóg­in­um. Þetta er eina veiðihúsið á þess­um slóðum sem er inni í garðinum sjálf­um,“ sagði Kristján Páll Rafns­son far­ar­stjóri í ferðinni.

Eins og gef­ur að skilja er mikið líf­ríki í skóg­in­um, bæði apar, leti­dýr, skjald­bök­ur, slöng­ur og skor­dýr af öll­um gerðum. „Maður vaknaði alltaf um fimm leytið á morgn­ana. Þá var bara eins og ýtt væri á takka og frum­skóg­ur­inn fór í gang og öll dýr­in í skóg­in­um byrjuðu að baula. Það var oft að það voru apar á þak­inu hjá mér. Þú veist; húhh úhh hú hú,“ herm­ir hann eft­ir öp­un­um.

Veiðihúsið sjálft er inni í þjóðgarði á Kosta Ríka og því inni í frum­skógi. Það fór vel um hóp­inn á fram­andi slóðum. Ljós­mynd/​Fish Partner

Kristján seg­ir að þetta hafi verið mögnuð upp­lif­un að vera svona inni í frum­skóg­in­um. Veiðin sem hóp­ur­inn fór í voru fimm dag­ar og veitt var á bát­um við strönd­ina. Fyrst og fremst var verið að kasta fyr­ir stór­an Tarpoon, en á þess­um slóðum eru afar stór­ir fisk­ar af þeirri teg­und. Meðafli var tölu­vert mikið af Jack sem eru líka fín­ir sport­fisk­ar.

„Við lent­um í erfiðum aðstæðum. Öldu­hæð var rosa­lega mik­il enda voru leif­arn­ar af felli­byln­um Irmu skammt frá okk­ar. Við slupp­um hins veg­ar við það úr­helli sem hafði verið spáð. Vegna öldu­hæðar­inn­ar var þetta mjög erfitt.“

Risa Tarpoon á síðustu metr­un­um. Eins og sjá má er vatnið nán­ast kakó, en þeir voru samt að taka við þessi skil­yrði. Hér tek­ur Pálmi Sig­urðsson hraust­lega á. Ljós­mynd/​Fish Partner

Þrátt fyr­ir þess­ar krefj­andi aðstæður setti hóp­ur­inn í flotta Tarpoona, frá fjöru­tíu pund­um og upp í hundrað og tutt­ugu pund sem þykja orðið mjög stór­ir Tarpoon­ar. Þeir hirtu alltaf af og til Jack og létu elda fyr­ir sig í veiðihús­inu og seg­ir Kristján þá afar ljúf­fenga.

„Þegar maður set­ur í svona stóra Tarpoona og þeir eru á ferðinni þá er þetta bara eins og að setja í járn­brauta­lest. Hann tek­ur og rýk­ur af stað. Maður er með brems­una í botni og þarf helst að halda stöng­inni beinni en ekki vera með hana bogna. Bara passa að halda fast í hana svo þú miss­ir hana ekki. Um leið og þeir finna fyr­ir átak­inu þá stökkva þeir og þess­ir fisk­ar geta stokkið svaka­lega.“

Pálmi Sig­urðsson með fal­leg­an Tarpoon en þess­ir fisk­ar eru ótrú­lega sterk­ir. Ljós­mynd/​Fish Partner

Kristján setti sjálf­ur í risa­stór­an Tarpoon á fyrsta degi. Leiðsögumaður­inn full­yrti að sá fisk­ur væri 130 pund. „Hann stökk him­in­hátt og það var svo magnað að við vor­um ofan í öldu­dal þegar hann stökk og hann var þá langt fyr­ir ofan bát­inn. Það var ótrú­legt augna­blik að sjá hann svífa í loft­inu svona hátt fyr­ir ofan okk­ur,“ sagði Kristján. Hann var að fara í þriðja skipti að elta þenn­an eft­ir­sótta fisk og seg­ist þegar vera orðinn Tarpoon junkie eða fík­ill.

Aðstæður þar sem hóp­ur­inn var að veiða voru með þeim hætti að mik­il á renn­ur til sjáv­ar skammt frá veiðihús­inu og fór veiðin að mestu fram í þess­um ós. Þar sem ferskvatnið var að bland­ast sjón­um. Tarpoon­arn­ir leita í þessi skil og þar er kastað fyr­ir þá. Öldu­hæðin gerði það að verk­um að við strönd­ina brimaði og þangað leitaði Tarpoon­inn og því var erfitt að kom­ast í færi við fisk­ana.

Útsýnið úr hót­el­her­berg­inu var fjöl­breytt. Hér er leti­dýr að ferðast um frum­skóg­inn.
Ljós­mynd/​Fish Partner

„Við lent­um tvo daga í því að áin varð al­gert kakó eft­ir rign­ing­ar uppi í fjöll­un­um. Þetta var verra en Urriðafoss, en það var svo magnað að fisk­ur­inn var að taka í þess­um skil­yrðum og greini­legt að sjón­in hjá hon­um er mögnuð. Sama var með Jackinn og hann var að taka þrátt fyr­ir þenn­an mikla lit.“

Kristján seg­ir að þetta svæði sé þekkt fyr­ir gott hlut­fall af stór­um Tarpoon­um, frá þrjá­tíu til hundrað plús pund. Stærsti fisk­ur­inn sem hóp­ur­inn náði að landa var 120 pund, sem er eng­in smá­smíði.

Hvernig er með verð á svona veiði? Eru þetta ferðir sem venju­legt fólk get­ur keypt?

„Þessi ferð kostaði 3.900 doll­ara á mann­inn og það er í kring­um 560 þúsund krón­ur, miðað við gengið núna. Þú færð hvergi á Íslandi laxveiði með fullri þjón­ustu, leiðsögu­manni og gist­ingu fyr­ir þá upp­hæð í þenn­an tíma.“

Við hvað miðast þetta verð? Hvað er innifalið?

„Það er allt frá flug­velli í San Jose og til baka. Áfengi og flug­ur sem hægt er að kaupa á staðnum, er ekki innifalið. Fyr­ir utan þetta er svo flugið frá Íslandi til Kosta Ríka. En veiðihlut­inn legg­ur sig á um hundrað þúsund krón­ur á dag,“ upp­lýsti Kristján. Hann benti líka á að það væru mikl­ar upp­lif­un­ar­ferðir að fara í veiði er­lend­is. Þetta sner­ist ekki bara um veiðina held­ur væri svona ferð eitt stórt æv­in­týri.

Kristján Páll Rafns­son með Tarpoon en hann missti einn sem leiðsögumaður­inn áætlaði 130 pund.
Ljós­mynd/​Fish Partner

Aðspurður um búnað sagði hann að hægt væri að leigja græj­ur á staðnum en hann mælti með að menn tækju frek­ar sín veiðihjól þegar farið væri á þess­ar slóðir. Eða jafn­vel sem best væri að menn væru með sín­ar græj­ur. Hann mæl­ir með níu feta ein­hendu, afar stífri og veiðihjóli með línu tólf.

Sjálf­ur var Kristján með 75 punda und­ir­línu, Tropical flugu­línu með hundrað punda kjarna og flu­or carpon taum, hundrað punda. „Ég get al­veg sagt þér það að við slit­um í nokkuð mörg­um fisk­um.“

Þarna kepp­ast menn ekki bara að við ná fisk­um, held­ur eru einnig færð til bók­ar stökk hjá Tarpoon­in­um. Þannig að Kristján í þess­ari ferð var með þrjú stökk og landaði ein­um. Heilt yfir var veiðin ágæt í ljósi aðstæðna. Ljóst er að ferð á þess­ar slóðir verður end­ur­tek­in, upp­lýs­ir Kristján.

Þetta er önn­ur ferðin sem Fish Partner stend­ur fyr­ir þar sem Íslend­ing­um gefst kost­ur á að fara í veiði er­lend­is. Fyrri ferðin var til Slóven­íu í vor og verður sú ferð end­ur­tek­in. Þá seg­ir Kristján að fleiri ferðir séu í smíðum og verða þær kynnt­ar fljót­lega.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is