Kursk Frances. Þessar eru öðruvísi og sökkva hratt. Ljósmynd/Veiðihornið
Haustveiðin kallar oft á breyttar áherslur í veiðinni. Með kólnandi veðri fylgir oft tökuleysi og laxinn er búinn að sjá flestar flugur og það oft. Hann er lagstur og farinn að huga að hrygningu. Það er við þessar aðstæður sem oft þarf að taka fram þungavopnin. Við leituðum í smiðju Ólafs Vigfússonar í Veiðihorninu sem oft hefur gefið ráð um flugur fyrir lesendur Sporðakasta.
„Haustið er oft tími þungu túbanna. Þegar kólna fer og fiskur leggst er oft þörf á því að koma flugum djúpt og hratt niður til hans. Oft hjálpar það líka til að nota öðruvísi flugur en þær sem búið er að sýna honum svo oft áður. Ég vil nefna til sögunnar Kursk Frances, sagði Óli í samtali við Sporðaköst.
Kursk Frances eru þræddar eins og gárutúbur. Óli mælir með því að nota taumaefni sem þolir mikið hnjask.
Ljósmynd/Veiðihornið
Hvernig er þessi frábrugðin?
„Kursk túbuhausinn er frábrugðinn öðrum að mörgu leiti. Kursk tungsten túbur eru mun þyngri en flestar aðrar en það sem sker Kursk túburnar frá öllum öðrum er það að túban er ekki þrædd að framan líkt og hefðbundnar þungar túbur heldur er taumurinn þræddur inn um hlið haussins líkt og á gárutúbum. Þetta gerir það að verkum að túban hreyfist með allt öðrum hætti í vatni en allar aðrar túbur. Kursk Francestúbur hafa verið í leynihólfum nokkurra veiðimanna hér á landi í ár og í fyrrahaust og hafa heyrst margar ótrúlegar sögur af aflabrögðum þeirra.
Best er að nota stíft taumaefni sem þolir mikið hnjask og núning eins og Maxima Chameleon sem sannað hefur sig í áratugi. Nú þegar haustið er komið ættu allir veiðimenn sem eru á leið í síðustu túrana í sjóbirting og lax að eiga nokkrar Kursk Francestúbur í boxum sínum. Það er nóg eftir, meira en mánuður er eftir af veiðitímanum.“
Þó svo að margar laxveiðiár séu að loka þessa dagana er víða veitt langt fram í október. Gildir það bæði í ám sem byggja á seiðasleppingum og einnig sjóbirtingsánum. Þannig er veitt í Rangánum báðum fram til 20 október og einnig í Affalli, Þverá og Skógá svo einhverjar séu nefndar.
Eggert Skúlason
Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is