Samspil stangar og línu

Að velja rétta línu á flugustöngina þína ræður úrslitum um hvernig þér gengur að kasta.

Það er hægt að bæta sæmilegar flugustangir heilmikið með góðri línu og að sama skapi er hægt að rýra kastgæði góðrar flugustangar með lélegum línum.

Þess vegna mælum við eindregið með því að þú endurnýir flugulínuna þína þegar þú kaupir nýja flugustöng.

Kaststíll okkar er misjafn og flugustangir ólíkar. Þá er mikil fjölbreytni í uppbyggingu flugulína. Til að mynda hentar Rio Gold  mjög vel sem alhliða lína á miðhraðar stangir en Rio Grand passar betur hröðum flugustöngum.

Rio Outbound Short er hefðbundin skotlína sem auðvelt er að kasta jafnvel á móti sterkum vindi en sökum þess hve haus línunnar er þykkur og mikill getur hún haft truflandi áhrif þegar hún lendir á vatnsfleti sé ekki vandað til kasta.

Rio Predator er svo hönnuð til að bera stórar og þungar flugur langa leið. Rio Single Handed Spey er byggð upp með haus þar sem þyngdin er aftarlega í hausnum en línan mjókkar svo langt fram og hentar því einnig afar vel til rúllukasta sem er mikill kostur þar sem ekki er pláss fyrir gott bakkast.

Af framansögðu er ljóst að fjölbreytni flugulína er mikil og línufrumskógurinn stundum vandrataður. Þegar öllu er á botninn hvolft er afar mikilvægt að velja flugulínu sem passar stönginni þinni og hentar vel fyrir þína veiði.

Allir starfsmenn Veiðihornsins hafa áratuga langa reynslu af fluguveiði og gefa þér góð ráð um val á vandaðri flugulínu sem hentar þér og stönginni þinni.

Góða skemmtun.

Óli

Flugulínur