Frammjókkandi taumar

Frammjókkandi taumar, einnig nefndir kónískir taumar eða teiperaðir taumar.

Allt of fáir veiðimenn nota frammjókkandi tauma á flugulínur. Notkun frammjókkandi tauma er ekki síst mikilvæg þegar smáum veiðiflugum er kastað með flotlínu og áríðandi að framsetning veiðiflugunnar sé fullkomin.

Frammjókkandi taumar eru eins og nafnið bendir til taumar sem mjókka eða grennast fram og vinna því sem eðlilegt framhald flugulínunnar sem einnig grennist fram. Með notkun frammjókkandi tauma veltir kastið flugunni eðlilegar og veiðiflugan leggst betur.

Eðlileg lengd frammjókkandi tauma er 9 til 12 fet fyrir einhendur miðað við flotlínur og hefðbundnar stærðir veiðiflugna en 12 til 15 fet fyrir tvíhendur. Mikilvægt er að nota samsvarandi taumaefni til þess að hnýta framan á taumana. Margir klippa eitt fet framan af frammjókkandi taumum en hnýta svo tvö fet af samsvarandi taumaefni í staðinn. Aðrir hnýta taumaefni beint framan á tauminn til þess að lengja í og enn aðrir hnýta framan á tauminn eftir því sem hann styttist þegar skipt er um veiðiflugur.

Ef hnýta á flúrokarbon taumaefni framan á frammjókkandi taum úr næloni er nauðsynlegt að tengja með Rio taumahringjum.

Ef þú ert í vafa eða hefur einhverjar spurningar er þér alltaf velkomið að hafa samband við starfsfólk Veiðihornsins sem hefur áralanga reynslu af hvers kyns veiði.

Góða skemmtun.

Óli

Frammjókkandi taumar