Keppa í sjóbirtingsveiði í Danmörku

Viktor Burkni með fallegan danskan sjóbirting sem hann veiddi í einni keppninni. Hann hefur best náð níunda sæti sem frábær árangur þegar fjöldi keppenda er í kringum sex hundruð. Ljósmynd/VBP


Tvisvar á ári er hald­in vel sótt keppni í sjó­birt­ingsveiði í Dan­mörku. Keppn­in fer fram við strend­ur Fjóns og að hluta til á strand­lengju Jót­lands. Veitt er frá strönd­inni og hafa tveir Íslend­ing­ar sem Sporðaköst vita um stundað þessa keppni og tekið þátt níu sinn­um.

Þetta eru þeir frænd­ur Vikt­or Burkni Páls­son og Sig­urður Már Bjarna­son. Sá síðar­nefndi er bú­sett­ur í Óðinsvé­um og not­ar Burkni tæki­færið og heim­sæk­ir fjöl­skyld­una um leið og tekið er þátt í keppn­inni.

Regl­urn­ar eru í sjálfu sér ein­fald­ar. All­ir geta tekið þátt en þurfa að kaupa sér einskon­ar rík­is­leyfi til mega veiða við strend­ur Dan­merk­ur. Það árs­leyfi kost­ar um 3.500 krón­ur minn­ir Burkna. Þátt­töku­gjaldið í keppn­ina sjálfa er svo um níu þúsund ís­lensk­ar krón­ur og er það greitt við skrán­ingu í veiðibúðinniGo-fis­hing.

 

Hér eru vinn­ings­haf­ar sam­an­komn­ir, vorið 2019. Vikt­or Burkni náði þarna ní­unda sæti og fékk for­láta flugu­veiðihjóla í verðlaun. Okk­ar maður er í efri röð, ann­ar frá vinstri. Ljós­mynd/​VBP

Burkni sem tók þátt í haust­keppn­inni sem fram fór í októ­ber seg­ir að þetta sé virki­lega skemmti­legt en al­veg krefj­andi. Byrjað er að veiða um miðjan dag á föstu­degi og stend­ur keppn­in til há­deg­is á sunnu­degi. Þá eru fisk­ar vigtaðir og keppt er um þyngsta fisk­inn.

„Þetta var í ní­unda skiptið sem við frænd­ur tóku þátt sam­an. Við höf­um báðir kom­ist hæst í ní­unda sæti og verið mjög sátt­ir við það en kepp­enda­fjöldi er oft að hlaupa á fimm til sex hundruð manns. Þetta er mjög vin­sæl keppni og veiðifólk kem­ur víða að úr Evr­ópu til að taka þátt,“ sagði Burkni í sam­tali við Sporðaköst.

Það er oft mik­il stemmn­ing í aðdrag­anda keppn­inn­ar þegar veiðimenn eru að skrá sig og þá er gjarn­an tek­inn einn bjór eða Viskí snafs og ólíkt því sem ger­ist á Íslandi mega veiðibúðir í Dan­mörku selja áfengi, enda Dan­ir „ligeglad“ eins og við vit­um.

Sig­urður Már los­ar úr fal­leg­um birt­ingi. Þeir frænd­ur hafa tekið þátt níu sinn­um og báðir náð ní­unda sæti.
Ljós­mynd/​VBP

„Regl­urn­ar eru ein­fald­ar. Það má veiða á all­ar græj­ur. Beitu og spúna og flug­ur. Bæði má nota flugu­stöng og kast­stöng. Það eina sem er í raun bannað er að trolla á báti. Veiðin fer fram frá strönd­inni, eða á bát­um. Það er búið að kort­leggja svæðið mjög vel, enda er það mjög stórt og hægt er að kaupa bók í veiðibúðinni þar sem bent er á tugi af góðum veiðisvæðum og staðirn­ir út­skýrðir mjög vel. Er betra að veiða þá að vori eða hausti og hvort flóð eða fjara eru lík­legri.“

Burkni hlær þegar hann er spurður hvort þetta sé skemmti­legt. „Ég elska að veiða og já þetta er mjög skemmti­legt. All­ir kepp­end­ur geta skráð fisk með því að taka mynd af hon­um og senda inn. Það er hins veg­ar skil­yrði að mynd­in sé tek­in yfir vatni eða í háf. Ekki má senda inn mynd­ir af fiski sem ligg­ur á landi eða grjóti. Svo er dregið úr inn­send­um mynd­um og veitt verðlaun. Hins veg­ar keppn­is­fisk­ar sem fólk vill skrá þarf að mæta með í búðina. Það gera veiðimenn sem fengið hafa stóra fiska. Þar er fylgst með því þegar veiðimaður ger­ir að fiski svo allt sé nú lög­legt og ekki búið að þyngja fisk­inn með blýi eða slíku,“ upp­lýs­ir hann.

Stærstu fisk­arn­ir sem þeir frænd­ur hafa fengið í keppn­inni hafa slagað hátt í þrjú kíló. „Minn stærsti var 2,8 kíló og mig minn­ir að Sig­urður hafi fengið fisk sem vigtaði 2,9 kíló. Sig­ur­veg­ar­ar hafa oft verið að fá fiska sem vigta í kring­um fimm kíló­in. Hins veg­ar í ár var þyngsti sjó­birt­ing­ur­inn í keppn­inni um sjö kíló. Það eru stærri fisk­ar á sveimi eða al­veg upp í tíu kíló en þeir veiðast ekki oft.“

Eins og fyrr seg­ir er keppn­in hald­in bæði að vori og hausti. Í októ­ber sem leið gekk vel hjá þeim fé­lög­um. „Ég hef aldrei veitt jafn vel og í ár. Ég var með ein­hverja átján sjó­birt­inga og sá stærsti var rétt tæp tvö kíló. Tí­unda sætið í ár var með fisk sem var um 2,2 kíló þannig að ég var ekki langt frá því sæti,“ seg­ir Burkni spurður um gengi í síðustu keppni.

Ekki svo stór­ir þess­ir en komu báðir í sama kasti. Ljós­mynd/​VBP

Veitt eru verðlaun fyr­ir tíu fyrstu sæt­in og er þau veg­leg. Þegar Burkni hafnaði í ní­unda sæti í apríl 2019, fékk hann Bau­er flugu­veiðihjól af vönduðustu gerð. Fyrstu verðlaun eru gjafa­kort með ferðaskrif­stof­unni Get Away tours sem sér­hæf­ir sig í veiðiferðum um heim all­an. Gjafa­kortið er upp á hálfa millj­ón ís­lenskra króna þannig að til nokk­urs er að vinna.

Einnig er keppt í ung­linga­flokki og veg­leg verðlaun líka þar í boði.

En eiga þeir fé­lag­ar Burkni og Sig­urður ein­hvern upp­á­halds stað sem hægt væri að benda ís­lensk­um veiðimönn­um á sem vilja leggja land und­ir fót og taka þátt í keppn­inni eða bara veiða við strönd­ina, ein­ir og sér?

„Já. Við för­um oft út í Epla­eyju eða Æbelö sem er rétt fyr­ir utan Fjón. Þetta er mögnuð eyja og þar er mikið dýra­líf. Dá­dýr og ein­stakt sauðfjár­kyn sem hvergi er að finna nema á eyj­unni. Fugla­lífið þarna er líka með ólík­ind­um og magnað að veiða í þess­ari para­dís. En þetta er tölu­vert mikið labb. Um tutt­ugu kíló­metr­ar þegar allt er talið og við vöðum út í eyj­una og þá er sjór í ökkla eða upp fyr­ir hné eft­ir því hvernig stend­ur á flóði. Það er auðvelt að finna hana á korti ef menn vilja fara þangað og kasta. Þarna er alltaf fisk­ur og fáir sem leggja leið sína þangað.“

Nú þegar er farið að aug­lýsa næstu keppni á heimasíðunni Go-fis­hing.dk. Að þessu sinni mun hún fara fram dag­ana 14. til 16. apríl. Fyr­ir áhuga­sama er hægt að benda á að all­ar upp­lýs­ing­ar er að finna á heimasíðunni sem nefnd er hér að ofan.

Hér vant­ar ekki plássið. Sjálft Atlants­hafið er veiðistaður­inn. Ljós­mynd/​VBP

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is