Adrenalínið flæddi á Seychelleseyjum

María og Óli með GT, eða Giant Trevally. Hann kallar þetta konung fiskanna og víst er að fáir sportfiskar jafnast á við þennan þegar kemur að spretthörku og átökum. Ljósmynd/ÓV


Það er hægt að stunda stang­veiði allt árið þó svo að ís­lenska veiðisum­arið sé stutt. Marg­ir leita í heit­ari lönd eða þar sem árstíðir eru á öðrum tíma en á norður­hveli. Svo er það sjó­stöng­in sem hægt er að stunda allt árið. Veiðihjón­in Ólaf­ur Vig­fús­son og María Anna Clausen hafa verið iðin við að kanna miðin á Seychell­es­eyj­um. Við náðum sam­bandi við þau hjón­in í lok ferðar.

„Já. Við María erum á leið heim frá kór­alrif­inu Farquh­ar sem er eitt þeirra bestu af veiðisvæðunum á Seychell­es í Ind­lands­haf­inu, aust­ur af Afr­íku. Und­an­far­in nokk­ur ár höf­um við kannað öll helstu veiðisvæði Seychell­es­eyja, svo sem Alp­hon­se, Farquh­ar, Provi­dence og Cos­mo­ledo. Það sem tog­ar mest í okk­ur þarna er kon­ung­ur fisk­anna, Gi­ant Trevally eða GT eins og hann er oft­ast nefnd­ur,“ upp­lýs­ir Ólaf­ur.

María Anna Clausen lyft­ir GT upp úr krystal­tær­um sjón­um við Farquh­ar kór­alrifið. Þau hafa nú prófað flest veiðisvæði á Seychell­es­eyj­um. Ljós­mynd/​ÓV

Hvernig hef­ur gengið?

„Við veidd­um nokkuð vel þrátt fyr­ir erfiðar aðstæður. Það er búið að vera nokkuð hvasst, sem ger­ir veiðimönn­um erfitt fyr­ir að koma stór­um flug­um af nokk­urri ná­kvæmni upp í vind­inn. Þrátt fyr­ir að það væri lítið af GT á rif­inu núna gerðum við fína veiði eins og stund­um áður. Við veidd­um góðan slatta af flott­um GT frá rúm­um 70 sentí­metr­um upp í tæpa hundrað og tals­vert af minni fisk­um.“

Var þetta hóp­ur frá Íslandi, eða blandað?

„Veiðimenn­irn­ir sem veiddu nú voru frá Nor­egi, Svíþjóð, Englandi, Írlandi, Kan­ada, Banda­ríkj­un­um, Þýskalandi auk okk­ar Maríu. Veitt er á allt að 12 stang­ir við Farquh­ar. Farið er út snemma á morgn­ana á litl­um bát­um; tveir veiðimenn á hverj­um báti ásamt leiðsögu­manni. Við erum á sjó all­an dag­inn, fáum með okk­ur nest­is­box og kom­um ekki í land fyrr en langt er liðið á dag. Þegar lagt er í hann á morgn­ana hef­ur maður með sér vatns­held­an bak­poka, nokkr­ar flugustang­ir og flugustang­ir til vara. Reynd­ar verður maður að hafa eig­in­lega tvennt af öllu, auka gler­augu, auka húfu, auka flug­línu, gott úr­val af flug­um og sterka tauma allt uppí 120 pund. Ef eitt­hvað kem­ur fyr­ir yfir dag­inn er maður úr leik gler­augna­laus, húfu­laus, stang­ar­laus eða flugu­laus.

Þetta eru mikl­ir fisk­ar og og þeim er stund­um líkt við lest á fullri ferð. Óli var hepp­inn að slasa sig ekki þegar flugu­lín­an vafðist um fót­inn á hon­um. Snar­ræði þeirra og leiðsögu­manns­ins bjargaði mál­um.
Ljós­mynd/​ÓV

Stærsti fisk­ur­inn okk­ar nú var 97 sentí­metr­ar sem er um 16 til 17 kíló eða 32 – 34 pund. Tök­urn­ar eru ofsa­fengn­ar. Fisk­arn­ir snúa sér á sek­úndu­broti og synda á allt að sex­tíu kíló­metra hraða. Mik­il læti og mikið adrenalín fylg­ir þess­ari veiði. Við lent­um í mörg­um æv­in­týr­um í bar­áttu við þessa ótrú­lega sterku fiska. Sú eft­ir­minni­leg­asta er lík­lega þegar ég stóð frammi í stefni báts­ins okk­ar og var rétt ný­bú­inn að setja í einn af stærri gerðinni og það kom í ljós að flugu­lín­an mín var vaf­inn utan um vinstri fót­inn. Við vor­um nátt­úru­lega viss um að fisk­ur­inn væri far­inn af en ein­hvern­veg­in tókst okk­ur Maríu ásamt leiðsögu­manni okk­ar að leysa flækj­una svo ekki þyrfti að taka fót­inn af,“ hlær hann og held­ur svo áfram.

„Um leið og fisk­ur­inn var laus var hann rok­inn ein­hverja 150 metra og festi lín­una aft­ur í kóröll­um. Við ædd­um á eft­ir hon­um á bátn­um og vor­um aft­ur viss um að fisk­ur­inn væri far­inn en þegar okk­ur tókst að losa lín­una úr kóröl­un­um tók hann aft­ur 100 metra roku. Þegar loks­ins tókst að ná þess­um magnaða fiski upp að bátn­um og háfa hann datt flug­an úr kjafti hans og var krókur­inn nán­ast orðinn upp­rétt­ur en flug­ur hnýtt­ar fyr­ir þessa fiska eru aðeins hnýtt­ar á króka af sterk­ustu gerð. Þess má geta að agn­hald allra króka er klemmt aft­ur svo þeir skaði ekki fisk þegar sleppt er. Þess vegna er gríðarlega mik­il­vægt að aldrei komi slaki á línu svo ekki losni úr fiski.“

Bleika flug­an sem sá stóri tók. Sú efri er illa far­in eft­ir átök­in. Það er ekki mikið hald eft­ir í krókn­um og hann nán­ast orðinn upp­rétt­ur. Þetta er Gamakatsu krók­ar sem eru með þeim sterk­ari. Sú neðri er ónotuð til sam­an­b­urðar. Ljós­mynd/​ÓV

En það get­ur verið stór­hættu­legt að lína vefj­ist um hand­legg eða fót?

„Að fá lín­una utan um fót­inn eða um hönd get­ur verið mjög var­huga­vert. Kjarni flugu­lín­unn­ar er um sex­tíu pund og átök­in mik­il. Menn geta því slasað sig nokkuð al­var­lega þegar svona slys koma upp. Við vor­um hins veg­ar hepp­in og áttuðum okk­ur á því sem var að ger­ast nokkuð fljótt svo þetta fór ekki illa.“

Tvennt af öllu. Farið er af stað að morgni og komið í land að kvöldi. Þú ert úr leik þann dag­inn ef eitt­hvað glat­ast og ekki eru græj­ur til vara. Ljós­mynd/​ÓV

Hvað með meðafla? Hvaða aðra fiska voru þið að setja í þarna?

„Fána fiska við Seychell­es og þá einkum Farquh­ar er mjög fjöl­breytt. Við erum helst að sækj­ast í Gi­ant Trevally sem ég kalla kon­ung fisk­anna. Ann­ar eft­ir­sókn­ar­verður fisk­ur þarna er Bump­head Parrot­fish. Því miður veidd­ist eng­inn slík­ur í þess­ari viku. En við veidd­um tals­vert af öðrum svo sem ýms­ar teg­und­ir af Grouper, Snapp­er, svo og Bo­nef­ish. Þá veidd­ist einn segl­fisk­ur og nokkr­ir Triggerf­ish.“

Veiðimenn og starfs­fólk á Farquh­ar. Hóp­ur­inn tókst á við krefj­andi aðstæður en veiddi engu að síður vel.
Ljós­mynd/​ÓV

Verðið á svona veiði. Er það sam­bæri­legt við verð sem við þekkj­um hér heima?

„Veiðileyf­in þarna eru nokk­urn veg­in á pari við laxveiðileyfi í betri ám heima. Um­gjörðin og öll starf­sem­in þarna er mun meiri fyr­ir hvern veiðimann á þess­um fjar­lægu stöðum en hjá okk­ur. Það eru marg­ir starfs­menn á hvern veiðimann. Hægt er að fara í flugu­veiði í sjó fyr­ir mun minni upp­hæðir. Til dæm­is Christ­mas Is­land sem eru að opna aft­ur nú eft­ir tveggja ára Covid lok­un. Þar legg­ur dag­ur­inn sig á rúm­ar 70.000 krón­ur með fæði og leiðsögu­manni. Svona ferðir þurfa því ekki að kosta mjög mikið. Þess­ir tveir staðir sem ég nefni hér eru Gi­ant Trevally staðir fyrst og fremst en svo er einnig fjöldi staða í Karíbahaf­inu þar sem hægt er að kom­ast í fjöl­breytta veiði á mjög viðráðan­legu verði og án mik­illa ferðalaga,“ svaraði Ólaf­ur.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is