Einn sá stærsti úr Norðurá á öldinni

Einar Sigfússon með 102 sentímetra hænginn sem hann veiddi í morgun í Norðurá. Þetta er einn af þeim stærstu sem veiðst hafa í ánni á þessari öld. Ljósmynd/ Anna K. Sigþórsdóttir


Einn stærsti lax sem veiðst hef­ur í Norðurá á þess­ari öld kom á land í morg­un. Þar var að verki Ein­ar Sig­fús­son sem sá um rekst­ur Norðurár um nokk­urt skeið, þar til í fyrra að hann taldi nóg komið. Lax­inn veidd­ist mjög neðarlega í ánni í svo kölluðum Neðsta streng sem er neðan við sum­ar­húsa­byggðina í Munaðarnesi.

„Þetta er sami hóp­ur sem veitt hef­ur á þess­um tíma um nokk­urt skeið. Við lent­um í því í holl­inu að áin fór í flóð, al­veg hreint kakólituð og fór í 110 rúm­metra rennsli. Svo hef­ur hún verið að sjatna og hreinsa sig og í morg­un var hún orðin virki­lega flott. Veðrið var hins veg­ar þannig að við átt­um ekki von á miklu. Sól og logn og áin var köld.

Við hjón­in vor­um á neðsta svæðinu í morg­un og ákváðum að byrja í Neðsta streng. Þetta til­heyr­ir Munaðarnessvæðinu og er aðeins fyr­ir neðan or­lofs­húsa­byggðina. Þetta er mjög fal­leg­ur staður. Ég byrjaði á að fara með bæn og óskaði eft­ir því við ána mína blessaða að hún gæfi mér tvo fal­lega laxa. Ann­an langaði mig að gefa Birnu Kon­ráðsdótt­ur fyrr­ver­andi for­manni veiðifé­lags­ins og henn­ar manni. Svo langaði mig að færa Guðrúnu Sig­ur­jóns­dótt­ur nú­ver­andi for­manni, hinn,“ sagði Ein­ar Sig­fús­son í sam­tali við Sporðaköst.

Flug­an sem varð fyr­ir val­inu var mini Snælda í þýsku fána­lit­un­um og nokkuð þyngd. Ein­ar setti nán­ast strax í lax en missti hann eft­ir stutta stund. „Svo bara í þriðja kasti eft­ir það er þrifið fast í flug­una. Ég fann um leið að þetta var stór fisk­ur.“

Eft­ir ekki svo langa stund rann upp fyr­ir Ein­ari að um stór­lax var að ræða. Viður­eign­in stóð í góðan hálf­tíma og staður­inn er þægi­leg­ur að sögn Ein­ars til að eiga við lax og landa. „Þarna eru ekki marg­ar hætt­ur. En hann tók þrjár rok­ur og rauk þá langt niður á breiðuna og langt niður á und­ir­línu. Ég náði samt alltaf að vinna hann til baka.“

Þetta var hæng­ur sem Ein­ar seg­ir að hafi verið þykk­ur og mik­ill og ekki far­inn að hor­ast að neinu ráði. Hann náði að renna stór­lax­in­um upp á grunnt vatn og þar gátu þau hjón­in at­hafnað sig í ró­leg­heit­um við að mæla lax­inn ná­kvæm­lega. Anna K. Sigþórs­dótt­ir kona Ein­ars hljóp upp í bíl að ná í síma til að mynda lax­inn en sím­inn hafði gleymst þar. „Hann var nú ekki al­veg sam­vinnu­fús við mynda­tök­una en við gerðum okk­ar besta,“ brosti Ein­ar.

Lax­inn mæld­ist 102 sentí­metr­ar og er það einn sá stærsti sem veiðst hef­ur í Norðurá á þess­ari öld. Ein­ar man eft­ir fiski frá ár­inu 2006 sem náði hundrað sentí­metr­um og veidd­ist hann á Kálf­hyls­brot­inu. Þá fékk Anna kona Ein­ars 102 sentí­metra fisk í opn­un í Laugakvörn fyrr á öld­inni. Hundrað sentí­metra fisk­ur veidd­ist í ádrætti í fyrra, þannig að þess­ir fisk­ar eru svo sann­ar­lega í Norðurá.

Stærsti fisk­ur­inn fram til þessa í Norðurá í ár mæld­ist 99 sentí­metra og veidd­ist í Kríuhólma snemma sum­ars.

„Þetta var mjög skemmti­legt en af­skap­lega óvænt. Þetta seg­ir okk­ur hins veg­ar að það eru enn stór­ir fisk­ar í Norðurá og það er frá­bært. En þetta er nátt­úru­lega tím­inn. Fisk­ur­inn er að koma aft­ur inn á lend­urn­ar sín­ar eft­ir flóðið og hann er grimm­ur og vill hreinsa til í kring­um sig. Hann er bú­inn að finna hrygn­urn­ar sín­ar og ætl­ar ekki að gefa þetta eft­ir bar­áttu­laust,“ sagði Ein­ar að lok­um.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is