3ja ára og kynnir sig sem veiðimann

Egill Óli með þennan líka flotta urriða úr Elliðavatni. Auðvitað er maður í ofurhetjubúningnum innan undir. Maður veit nefnilega aldrei… Ljósmynd/Andri Ólafsson

Nú þegar besti veiðitím­inn í lax­in­um er runn­inn upp og út­lend­ing­ar á einkaþotum í bland við stönd­ug ís­lensk fyr­ir­tæki kepp­ast við að kom­ast í bestu árn­ar, ger­ast líka æv­in­týri á öðrum sviðum stang­veiðinn­ar. Fisk­ar eru mis­jafn­lega dýr­mæt­ir og þá er það ekki endi­lega sentí­metra fjöld­inn sem ræður ríkj­um. Við frétt­um af mögnuðu æv­in­týri hjá ein­um 3ja ára í Elliðavatni.

„Ég veiddi þenn­an fisk fyr­ir alla í fjöl­skyld­unni,“ til­kynnti hann ömmu sinni í síma í lok veiðidags. Eg­ill Óli Andra­son Clausen er þriggja ára og hef­ur verið með óbilandi veiðiá­huga frá því hann fór fyrst að geta tjáð sig. All­ar göt­ur frá því hann sá mynd­ir af afa og ömmu veiða út um all­an heim hef­ur hann sagst vera veiðimaður og jafn­vel kynnt sig þannig af fyrra bragði.

Á föstu­dag fór Eg­ill Óli í veiðibúðina til afa og ömmu til að kaupa veiðidót ásamt pabba og eldri systkin­um. þeim Þóreyju og Haf­steini. Áhug­inn leyndi sér ekki þar sem helst þurfti að kaupa alla spúna og króka sem hug­ur­inn girnt­ist. Þegar heim var komið var farið að moka eft­ir orm­um sem eft­ir langa leit fund­ust í garði ná­granna. Ferðinni var heitið að Elliðavatni. Pabbi græjaði orm á krók og sá stutti kastaði út sjálf­ur með nýju veiðistöng­inni frá ömmu.

Andri sneri sér að eldri systkin­um sem voru að gera sig klár þegar sá stutti kallaði, „Ein­hver fisk­ur stökk á flot­holtið.“ Pabbi sem í þessu til­viki var líka nokk­urs kon­ar leiðsögumaður, hélt það væri fast eða flækja og var frek­ar ró­leg­ur að klára að græja stang­ir fyr­ir þau eldri. Það breytt­ist þegar hann sá að 3ja ára veiðimaður­inn var við það að landa þess­um líka fal­lega urriða al­veg sjálf­ur. Þessi fisk­ur var al­veg ígildi hundraðkalls og ekki bara fyr­ir hinn unga veiðimenn held­ur líka aðra fjöl­skyldumeðlimi.

Feðgar æfa hand­tök­in við að gera að fiski og breyta hon­um í mat. Ljós­mynd/​Andri Ólafs­son

Eft­ir veiðiferð var komið að því að gera að og flaka, elda bráðina og borða. „Ég veiddi þenn­an fisk fyr­ir alla fjöl­skyld­una,“ sagði sá stutti og harðneitaði að pantaður yrði skyndi­biti eins og van­inn er á mörg­um ís­lensk­um heim­il­um á föstu­dög­um.

Hann á svo sem ekki langt að sækja veiðiá­hug­ann hann Eg­ill Óli, 3ja ára afa- og ömmustrák­ur Maríu og Óla í Veiðihorn­inu.

Elliðavatns­urriði er best­ur steikt­ur upp úr smjöri.
Það á reynd­ar við um flest­an mat að smjörið ger­ir allt betra.

Ljós­mynd/​Andri Ólafs­son

Disk­ur­inn sem veiðimaður­inn ungi bauð fjöl­skyld­unni upp á, stolt­ur og svang­ur.
Full­kom­inn veiðidag­ur. 
Ljós­mynd/​Andri Ólafs­son

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is