Bestu laxveiðiflugurnar í sumar

Hér má sjá ýmsar útfærslur af Sunray túbum. Það sem einkennir þær þó allar er svartur yfirvængurinn og svo er búið að útbúa margs konar afbrigði. Ljósmynd/Veiðihornið


Sú fluga, eða flugu­fjöl­skylda sem gefið hef­ur lang­flesta laxa á Íslandi í sum­ar er Sunray. Hún er ým­ist bókuð sem Sunray, Sunray Shadow eða Sun ray. Þegar töl­ur eru skoðaðar úr helstu ánum er Sunray und­an­tekn­inga­lítið í efsta sæti. Ra­f­ræna veiðibók­in Angling iQ held­ur sam­an töl­fræði yfir þetta.

Selá í Vopnafirði hef­ur gefið 565 laxa. Þar af eru 143 bókaðir á Sunray. Í Hofsá er hlut­fallið svipað 120 af 551 laxi hafa tekið ein­hverja út­gáfu þess­ar­ar vin­sælu flugu. Meira að segja Laxá í Aðal­dal er kom­in í Sunray klúbb­inn. Af 321 laxi hafa flest­ir er 66 tekið Sunray. Liðinn er sá tími að menn notuðu ein­göngu Aðal­dals­flug­ur í drottn­ing­unni.

Drottn­ing­in á Vest­ur­landi, Norðurá er með 159 laxa bókaða á Sunray af 665 löx­um.

75 lax­ar í Víðidalsá hafa tekiðSunray, af sam­tals 324 fisk­um. Í Jöklu er þetta hlut­fall um 25% en ríf­lega hundrað af 430 löx­um hafa látið glepj­ast af þess­ari út­færslu í flugu­veiði.

Flug­an Brá er ein af þess­um flug­um sem virka sér­lega vel í sól og vatns­leysi. Ljós­mynd/​Veiðihornið

Er nú öld­in önn­ur þegar Frances flug­ur voru ávallt í efstu sæt­um þegar þessi töl­fræði var skoðuð. Þó er svört Frances í efsta sæti í Laxá í Kjós með 27 skrán­ing­ar af 219 löx­um. Hítará er með syst­ur henn­ar í efsta sæti en þar er rauð Frances flug­an sem gefið hef­ur flesta fiska, eða 43.

En það sem af er sumri kemst eng­in fluga með tærn­ar þar sem Sunray hef­ur hæl­ana. Áhuga­vert er hins veg­ar að skoða hvaða flug­ur eru í sæt­un­um fyr­ir neðan. Þar er mjög al­gengt að sjá Frances fljót­lega á list­an­um. En aðrar koma svo sann­ar­lega við sögu. Flug­an Ari­on er í fimmta sæti í Norðurá.

Haug­ur­inn er aldrei langt und­an og sama má segja um marg­vís­legt hitch. Aðrar sem hafa verið að skora vel í sum­ar eru Green But, Black Bra­h­an, Collie Dog, Sil­ver Sheep, Val­beinn og Even­ing Dress.

Með þess­ar flug­ur í boxi ættu veiðimenn að hafa góða mögu­leika á að setja í lax og muna bara í vatns­leys­inu að litl­ar flug­ur stær tólf til sex­tán er mun væn­legri til ár­ang­urs en stór­ar og þung­ar túb­ur. Lax­inn sér þær vel þó að þær séu litl­ar og allt sem er á yf­ir­borðinu kem­ur inn í hans sjónsvið. Oft­ar en ekki snýst þetta um að hafa trú á smá­flugu­veiði. Þær aðstæður sem nú ríkja bjóða ein­göngu upp á smá­ar flug­ur. Það get­ur breyst síðar í sum­ar ef langþráð rign­ing verður í boði.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is