„Þetta er svakalega stór fiskur“

Magnaður fiskur og enn einn sem Hrafn H. Hauksson landar í sumar sem er rétt undir hundrað sentímetrunum. Ljósmynd/Hrafn H. Hauksson


„Þetta er svaka­lega stór fisk­ur,“ sagði Hrafn H. Hauks­son við Jóa fé­laga sinn þar sem þeir voru stadd­ir skammt ofan við Frú­ar­hyl í Vatnsá. Hrafn sá eld­rauðan, belg­mik­inn hæng sem lá á grunnu vatni. Í sam­tali við Sporðaköst sagði Hrafn að hann hefði séð fisk­inn í hundrað metra fjar­lægð. „Hann blasti við mér.“

Hrafn valdi að sýna þess­um stór­laxi flug­una Dubb­inn, sem er agn­ar­lít­il flottúba. Í öðru kasti lyfti stór­lax­inn sér og réðist áDubb­inn. „Hann varð virki­lega reiður,“ lýsti Hrafn. Viður­eign­in varð ekki löng. Í mesta lagi tutt­ugu mín­út­ur, giskaði Hrafn á. „Hann gat ekk­ert farið. Bara þumbast en hann hafði ekk­ert pláss.“

Haus­stór og mjög þykk­ur en búkstutt­ur. Þannig lýs­ir Hrafn þess­um flotta fiski úr Vatnsá. Ljós­mynd/​Hrafn H. Hauks­son

Þessi mikli hæng­ur mæld­ist 96 sentí­metr­ar og er sá sjötti í þess­um stærðarflokki sem Hrafn land­ar í sum­ar. „Hann hafði allt sem hundraðkall þarf að hafa. Haus­inn var svaka­lega stór og stærri en á hinum fisk­un­um sem ég hef fengið í sum­ar af svipaðri stærð. Veiðiugg­inn náði nán­ast að sporði. En búk­ur­inn var stutt­ur. Þetta var ótrú­lega sér­stak­ur fisk­ur,“ sagði Hrafn.

Hrafn er bú­inn að taka mikla törn í veiði í sum­ar. Hann er bú­inn að vera í vöðlum upp á dag frá því í lok júní. „Svo er ég bú­inn að vera að veiða frá 30. ág­úst. Þannig að ég er al­veg að verða ró­leg­ur,“ seg­ir Hrafn sem er illa hald­inn af veiðibakt­erí­unni.

Vatnsá er kom­in í rétt um átta­tíu laxa það sem af er sumri. Það er betra en í fyrra en lax­inn mætti óvenju seint í hana í sum­ar, eða ekki fyrr en í lok ág­úst. Frá mánaðamót­um hef­ur verið stuð í henni að sögn þeirra sem til þekkja.

Vatnsá er að upp­leggi sjó­birt­ingsá og um tvö hundruð slík­ir hafa verið bókaðir í sum­ar. Tveir í yf­ir­stærð hafa sést í telj­ar­an­um sem er í Vatnsá og fisk­ar fara í gegn­um á leið sinni upp í Heiðar­vatn. Ann­ar mæld­ist 107 og hinn 100 sentí­metr­ar. „Við erum líka að veiða í vatn­inu og það er mikið af sjó­birt­ingi komið upp,“ sagði Hrafn.

Ásgeir Arn­ar Ásmunds­son rekstr­araðili Vatns­ár seg­ist sjald­an hafa séð jafn góða seiðastöðu í ánni. „Það verður gam­an hjá okk­ur sum­arið 2025,“ sagði hann í sam­tali við Sporðaköst. Hann bygg­ir það á því að allt kraum­ar af tíu sentí­metra seiðum sem lög gera ráð fyr­ir að gangi út snemma næsta sum­ar og mæti ári síðar sem smá­lax.

Vatnsá renn­ur úr Heiðar­vatni, ofan við Vík í Mýr­dal og sam­ein­ast Kerl­inga­dalsá til sjáv­ar.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is