Veiði XII komið í rafrænan búning

Veiði, veiðiblað Veiðihornsins kom út síðastliðið vor, prentað á vandaðan pappír í 6.000 eintökum. Um er að ræða 12. árgang blaðsins en þar til nú hefur blaðið fyrst og fremst verið vörubæklingur með fróðleik og skemmtun í bland.

Í ár var tekin sú ákvörðun að breyta blaðinu í vandað tímarit og dreifa því frítt til viðskiptavina Veiðihornsins. Í raun eru blöðin tvö því í stað baksíðu voru forsíðurnar tvær þar sem önnur leiddi þig í skotveiðihluta blaðsins en hin í stangveiðihlutann.

Þessu nýja og glæsilega tímariti var svo vel tekið að það var orðið uppurið í byrjun hausts og fjölmargir hafa reynt að nálgast það síðan þá án árangurs. Nú eru bæði blöðin, það er skotveiðihlutinn og stangveiðihlutinn komin í rafrænan búning sem nálgast má hér …

VEIÐI XII – Stangveiðihluti VEIÐI XII – Skotveiðihluti

Efni blaðanna er afar fjölbreytt. Í skotveiðiblaðinu leiðbeinir Einar Páll Garðarsson með uppstillingu gervigæsa, Kjartan Lorange segir frá andaveiði í Ameríku, Ingvar Kristjánsson fjallar um skotveiði á Spáni, fjallað er um Skotfélag Suðurlands og Skotfélag Kópavogs, rætt er við Báru Einarsdóttur um veiðiferð vinkvenna til Eistlands og margt fleira.

Í stangveiðihluta VEIÐI XII er talað við Tarquin Millington Drake hjá Frontiers og Brian Gies hjá Fly Water Travel um stangveiði um allan heim, Viktor Burkni Pálsson segir frá veiðikeppni í Danmörku, fjallað er um veiðklúbbinn Árdísir, Kjartan Þorbjörnsson, Golli, gefur góð ráð varðandi myndatöku á veiðislóð, fjallað er um framleiðandann Semperfli sem framleiðir mikið úrval af fluguhnýtingaefni úr gerviefnum og skemmtilegt viðtal við veiðimanninn Gylfa Pálsson svo eitthvað sé nefnt.

Ljóst er að hér eru á ferð efnismikil og vönduð tímarit sem við vonum að veiðimönn líki vel við.

Þess má geta að undirbúningur að tímaritaútgáfu 2024 er hafinn og lofum við skemmtilegu blaði sem að sjálfsögðu verður dreift frítt til íslenskra veiðimanna.