Ævintýrið heldur áfram – þrír yfir 110 cm

Sjóbirtingur háfaður í Heiðarvatni. Þar sveima nú allavega þrír sjóbirtingar á bilinu 112 til 116 sentímetrar og mögulega fleiri og enn stærri. Ljósmynd/Vatnsá


Við spurðum hér á síðunni hvort framund­an væri haust hinna stóru sjó­birt­inga? Ekki óraði okk­ur fyr­ir því æv­in­týri sem sjó­birt­ing­ur á Suður­landi er að verða. Þrír birt­ing­ar sem mæld­ust 100 cm eða lengri hafa verið veidd­ir í Tungufljóti í Vest­ur – Skafta­fells­sýslu í haust. Sá stærsti 107 sentí­metr­ar. Og vel að merkja það er stærsti fisk­ur sem veiðst hef­ur á Íslandi síðustu tvö veiðisum­ur og næst stærsti sjó­birt­ing­ur í heim­in­um sem veiðst hef­ur á flugu.

Nú er kom­inn telj­ari í Vatnsá, sem renn­ur úr Heiðar­vatni skammt frá Vík í Mýr­dal. Telj­ar­inn er af full­komn­ustu gerð og mynd­ar og mæl­ir þá fiska sem þar fara í gegn. Þrír sjó­birt­ing­ar yfir 110 sentí­metra hafa rennt sér í gegn­um hann. Sá stærsti hvorki meira né minna en 116 sentí­metr­ar. Ummiðjan sept­em­ber gekk í gegn­um telj­ar­ann sjó­birt­ings­hæng­ur sem mæld­ist 112 sentí­metr­ar. Þann 18. fór svo 114 sentí­metra fisk­ur í gegn og þann 23. mæld­ist 116 sentí­metra sjó­birt­ings­hæng­ur fara í gegn­um telj­ar­ann. Þetta er ótrú­lega stór­ir fisk­ar og fyrsta hugs­un var að telj­ar­inn kynni að hafa verið bilaður.

Ásgeir Arn­ar Ásmunds­son sem sér um rekst­ur­inn á Vatnsá seg­ir að telj­ar­inn sé rétt­ur og að hann mæli fiska á marga vegu og taki til­lit til hvar fisk­ur­inn er stadd­ur í hon­um. Gögn­in verða síðar yf­ir­far­in af Haf­rann­sókna­stofn­un. „Það er rosa­legt hvað eru mik­il gæði í veiða og sleppa fyr­ir­komu­lagi þegar kem­ur að sil­ungi,“ sagði Ásgeir í sam­tali við Sporðaköst.

Hér er skjá­skot úr víd­eói þegar 114 sentí­metra sjó­birt­ing­ur fór í gegn­um telj­ar­ann fyr­ir rúm­um mánuði.

Ljós­mynd/​Vatnsá

Fisk­ur­inn sem geng­ur upp í Vatnsá á greiða leið að Heiðar­vatni og þar hverf­ur hann þegar komið er í vatnið sem frem­ur stórt og djúpt. Net­sam­band við telj­ar­ann í Vatnsá rofnaði í lok sept­em­ber þannig að þeir geta hafa verið fleiri í þess­ari yf­ir­stærð, en það kem­ur í ljós þegar farið verður yfir gögn­in. „Við sjá­um mikið magn af átta­tíu sentí­metra fisk­um í Vatnsá og það er bara á við þokka­leg­an tveggja ára lax. Maður velt­ir aðeins fyr­ir sér fram­hald­inu. Þegar eru svona marg­ir átta­tíu sentí­metra fisk­ar verða þá bara marg­ir hundrað sentí­metra fisk­ar eft­ir nokk­ur ár?“ Svarið við spurn­ingu Ásgeirs er lík­lega já, að þeim fari fjölg­andi þar sem birt­ing­ur­inn, ólíkt lax­in­um, geng­ur margsinn­is á heima­slóðir og stækk­ar ár frá ári.

Stefán Jo­nes með 107 sentí­metra sjó­birt­ing­inn. Hann tók Krók­inn í Búr­hyl í Tungufljóti. Þetta er einn stærsti sjó­birt­ing­ur sem veiðst hef­ur í heim­in­um á flugu. Ljós­mynd/​Kristján Geir

Ásgeir seg­ist raun­ar hafa fyr­ir nokkr­um árum séð enn stærri fisk. „Ég sá sjó­birt­ing í Kerl­inga­dalsá sem var í al­geri yf­ir­stærð. Ég var að giska á 120 til 130 sentí­metra. Nokkr­um dög­um síðar hafði fé­lagi minn sam­band við mig eft­ir að hafa verið við Vatnsá og sagðist hafa séð birt­ing í kring­um 130 sentí­metra. Senni­lega verið sami fisk­ur­inn.“ Upp­lýs­ir Ásgeir.

Vatnsá renn­ur úr Heiðar­vatni eins og fram er komið en fell­ur í Kerl­inga­dalsá og sam­ein­ast henni til sjáv­ar.

Heiðar­vatn sem Vatnsá fell­ur úr er eitt besta veiðivatn á Íslandi. Þar má finna all­ar teg­und­ir ferks­vatns­fiska. Ljós­mynd/​Vatnsá

Þó að Suður­landið standi upp úr þegar kem­ur að þess­um stór­fisk­um er svipuð þróun að eiga sér stað í Eyja­fjarðará, Hús­eyj­arkvísl og Laxá í Kjós, þar sem slepp­ing­ar á sjó­birt­ing­um skila vax­andi fjölda stór­fiska. Í Ölfusá hef­ur orðið mik­ill vöxt­ur í sjó­birt­ingsveiði og er hann þar í mik­illi sókn. Sjó­birt­ing­ur er að efl­ast um land allt og verða næstu ár spenn­andi þegar þess­ir stóru fara kannski að veiðast í meira mæli.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is