14 ára landaði þeim stærsta í Elliðaánum

Alexander Þór Sindrason með 92 sentímetra hryngu úr Símastreng í Elliðaánum. Samkvæmt rafrænu veiðibókinni er þetta sá stærsti til þessa í sumar í Elliðaánum. Ljósmynd/Sindri Þór


Feðgarn­ir Al­ex­and­er Þór Sindra­son og pabbi hans, Sindri Þór Kristjáns­son áttu sam­an magnaða og allt að því drama­tíska stór­laxa­stund í Elliðaán­um í gær. Þeir voru stadd­ir í Síma­streng, þar sem Al­ex­and­er Þór hafði fyr­ir tveim­ur árum veitt sinn stærsta lax á æv­inni. Það var 86 sentí­metra hæng­ur sem tók flug­una Green But.

Nú tveim­ur árum seinna mættu þeir aft­ur í Elliðaárn­ar og báðir rifjuðu upp æv­in­týrið frá 2021. Þeir byrjuðu á Hraun­inu og svo barst leik­ur­inn í Síma­streng. „Viltu ekki byrja með Green But?“ Spurði Sindri Þór son sinn. Það þurfti svo sem ekki mikið að ræða það og fljót­lega sveif sú græna út í Síma­streng. Ekk­ert gerðist.

Fyr­ir tveim­ur árum. Sami staður en þá fékk Al­ex­and­er þenn­an fal­lega 86 sentí­metra hæng.
Nú var hann enn stærri.
Ljós­mynd/​Sindri Þór

Sindri Þór er van­ur leiðsögumaður og hef­ur meðal ann­ars verið í leiðsögn í Stóru–Laxá í sum­ar. Hann stakk upp á við Al­ex­and­er Þór að setja und­ir klass­íska rauða Frances. Hún fékk að svífa. „Það tók fisk­ur hjá hon­um í fyrsta kasti. Hann rauk strax af stað ég sá að þetta var svaka­leg­ur fisk­ur. Ég vildi ekki stressa strák­inn um of þannig að ég sagði bara við hann að þetta væri stór fisk­ur og nú þyrfti að halda ein­beit­ingu.“

Eft­ir um það bil kort­ers viður­eign sá Sindri Þór loks­ins all­an fisk­inn og taldi að þetta væri um níu­tíu sentí­metra fisk­ur. Eft­ir um það bil hálf­tíma rauk fisk­ur­inn af stað niður úr öllu. „Ég fattaði á þeim tíma­punkti að ég var ekki með laxa­háfinn minn. Hafði gleymt hon­um í leiðsögn í Stóru–Laxá. Ég fann sil­unga­háf í bíln­um og hefði ör­ugg­lega getað háfað hann mun fyrr ef ég hefði haft laxa­háf.“

Sil­unga­háf­ur­inn var allt of lít­ill í þetta verk­efni og því tók viður­eign­in um klukku­tíma.
Ljós­mynd/​Sindri Þór

Viður­eign­in stóð í klukku­tíma og hafði leik­ur­inn þá borist langt niður eft­ir á og var þess­um laxi landað á Hraun­inu. „Þetta var mik­il gleðistund og bara geggjað að fá mynd af strákn­um með þenn­an frá­bæra fisk. Þetta nefni­lega leit ekk­ert allt of vel út á tíma­bili. Ég með sil­unga­háfinn og þorði ekk­ert að ráðast á hann með þeirri græju.“

Al­ex­and­er Þór var með stöng fyr­ir línu sex og miðuðust átök­in því við þá staðreynd. Strák­ur­inn var al­veg bú­inn á því að sögn Sindra Þórs og við það að fá krampa í hand­legg­inn af átök­un­um. „Hann var svaka­lega ánægður en mjög þreytt­ur og pabbi var mjög stolt­ur. Ég var al­veg við það að fella tár þegar þetta kláraðist og hægt var að taka mynd­ina.“

Al­ex­and­er Þór hef­ur landað fjöl­mörg­um fisk­um þrátt fyr­ir ung­an ald­ur. Hann fékk sinn fyrsta flugulax ell­efu ára gam­all og var það í Elliðaán­um í Hunda­stein­um. Síðan þá hef­ur hann veitt í Elliðaán­um og oft farið með í veiði í Stóru–Laxá.

Pabbi fékk líka að veiða og er hér með einn góðan en ekk­ert í lík­ingu við það sem Al­ex­and­er af­rekaði.
Ljós­mynd/​Sindri Þór

Þið hafið ekki tekið hreist­ur­sýni af henni?

„Nei. Ég var stressaður með að ná að sleppa henni og vildi hafa hana sem minnst upp úr vatni. En auðvitað hefði maður átt að gera það og það hefði verið gam­an að sjá hvort hún hef­ur hrygnt áður. En maður hugsaði ekki út í það í stress­inu,“ viður­kenndi Sindri Þór.

Sam­kvæmt ra­f­rænu veiðibók­inni Angling iQ er þetta stærsti lax­inn í Elliðaán­um í sum­ar. Og að er enn merki­legra að svo stór hrygna veiðist í borgarperlunni. Nú hafa veiðst í sum­ar 559 lax­ar í Elliðaán­um. Þrír hafa náð 86 sentí­metr­um en fisk­ur­inn hans Al­ex­and­er Þórs er sá stærsti sem skráður hef­ur verið til þessa. Veiðin í fyrra var tölu­vert betri í Elliðaán­um en á 7. sept­em­ber 20222 var búið að bóka þar 757 laxa eða tvö hundruð löx­um meira en í ár. Það mun­ar um það.

Sporðaköst óska Al­ex­and­er Þór til ham­ingju með stór­lax­inn úr Síma­streng.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is