Veiðiklúbburinn Árdísir telur 90 konur

Nokkrar af Árdísum í einni af veiðiferðum ársins. Félagsskapurinn er eftir því sem næst verður komist sá fjölmennasti þegar kemur að konum í veiði. Ljósmynd/Árdísir

Fé­lags­skap­ur­inn Árdís­ir var stofnaður árið 2001. Þetta er fé­lags­skap­ur kvenna sem stunda stang­veiði og í dag er meðlima­fjöld­inn rúm­lega níu­tíu kon­ur á öll­um aldri. Þetta er án efa stærsti kvenna­veiðiklúbb­ur á land­inu og þótt víðar væri leitað. Fé­lagið bygg­ir á hefðum og ákveðinni form­festu þó að mark­miðið sé gleði og góðar stund­ir, bæði við ár­bakk­ann og einnig á fjöl­mörg­um skemmt­un­um sem Árdís­ir efna til fyr­ir sín­ar kon­ur. Aðal­fund­ur, árs­hátíð, vor­fund­ur og upp­skeru­hátíð eru á meðal fastra viðburða þegar ekki er verið að veiða.

Hóp­ur­inn hef­ur víða komið og veitt sam­an. Eins og gef­ur að skilja er ein­ung­is hluti hóps­ins sem fer í hverja veiðiferð en í sum­ar eru þegar ráðgerðar ferðir í Laxá í Döl­um, tvær ferðir í Laxá í Kjós, sil­unga­svæðið í Vatns­dal, Tungu­læk og í Hítará. En list­inn er mun lengri þegar horft er til baka. Laxá í Laxár­dal, Langá, Þverá, Stóra – Laxá og Haffjarðará svo ein­hverj­ar séu nefnd­ar.

Ágústa “Árdís” Stein­gríms­dótt­ir með svaka­leg­an fisk úr Þverá sum­arið 2014. Þessi var yfir hundrað sentí­metr­ar. Ágústa var val­in veiðikona árs­ins eitt árið hjá Árdís­um. Ljós­mynd/Á​gústa

Esther Finnbogadóttir er formaður Árdísa og ein af aðalhvatakonum þess að stofna félagsskapinn á sínum tíma. „Við vorum nokkrar sem unnum saman hjá Kaupþingi á sínum tíma og langaði að gera eitthvað saman utan vinnunar. Strákarnir voru mjög duglegir við að skipuleggja eitthvað og fóru í fótbolta, golf og sumarbústaðaferðir. Þessi hugmynd kom upp í samtölum um að gera eitthvað saman. Svo bættust fljótlega við vinkonur og systur og ýmislegt. Þetta hefur svo bara vaxið jafnt og þétt og getur ekki orðið stærri en þetta. Um leið og svona félagsskapur fer yfir hundrað þá er hætt við að persónulegu tengslin fari að tapast. En vissulega er alltaf einhver endurnýjun, eins og gefur að skilja. Einhverjar hætta eða flytja erlendis, bara eins og gengur.“

Árdísir hafa orðið kveikjan hjá enn fleiri konum að byrja að veiða. Esther nefnir að margar konur sem byrjuðu að fara í ferðir með þeim séu í dag hörku veiðikonur og sumar hverjar eru í félaginu en aðrar stofnuðu litla klúbba eða urðu hluti af öðrum veiðifélögum. Hún gerir ekki sérstakan greinarmun á körlum eða konum sem veiðimönnum. „Það er helst að keppnisskapið er ekki jafn fyrirferðamikið hjá okkur. Við gerum meira af því að samfagna með þeim sem veiðir. Ég held að á því sviði erum við aðeins öðruvísi en karlarnir. En sportið sem slíkt hentar konum mjög vel. Það eru miklar pælingar í kringum þetta og þolinmæði er dýrmæt þegar kemur að veiði.“

Stór hluti Árdísa sam­an kom­in á tylli­degi. Fé­lags­starfið hjá Árdís­um er líf­legt og teyg­ir sig yfir allt árið.

Ljós­mynd/Á​rdís­ir

Markmiðið er að Árdísir bjóði upp á ólíka kosti þegar kemur veiðiferðum. Bæði ódýrar og dýrari ferðir. Laxveiði- og silungsveiðiferðir eru á dagskrá og sömuleiðis er boðið upp á ferðir þar sem er full þjónusta og einnig þar sem veiðimenn hugsa um sig sjálfir.

Hún rifjar upp. „Við vorum sextán í fyrstu veiðiferðinni sem var farin í Stóru – Laxá á svæði fjögur. Við vorum fjórar á stöng. Þar af voru bara fjórar okkar sem vissu hvað veiðistöng var. Þannig að við skiptum okkur niður á hópana. Auðvitað var ýmislegt með í för eins og gefur að skilja. Bækur, prjónar og sitthvað fleira. Það var nægur tími fyrir allar að veiða og líka að slaka. En það er gaman að rifja það upp að allar þessar konur sem voru þarna að byrja eru í dag orðnar hörku veiðimenn og margar eru enn í félagsskapnum. Við vorum lengi um sjötíu konur í Árdísum en svo síðari ár hefur ásóknin aftur aukist. En ég man þessi fyrstu ár þá varð maður alveg vör við mikla vakningu hjá konum sem höfðu áhuga á að fara að veiða. Svona kvennaklúbbur er flottur vettvangur til að byrja í.“

Ragn­heiður “Árdís” Ragn­ars­dótt­ir með glæsi­leg­an lax úr Stóru-Laxá. Þær hafa farið víða Árdís­ir og prófað mörg vatna­svæði. Ljós­mynd/​RR

Ragnheiður Ragnarsdóttir er ein af Árdísunum. Hún segist stolt af félagsskapnum og nefnir að þær vandi utanumhald og leggi mikið upp úr skipulagi. Hér hlær Ragnheiður. „Þetta er sko kvennaklúbbur. Já við vöndum okkur við að skipuleggja hlutina og á hverju ári höldum við árshátíð. Við erum með aðalfund og þar eru allar sem hafa greitt árgjald gjaldgengar. Við höfum reglulega verið með vorfundi þar sem við blöndum saman fræðslu og skemmtun. Það þarf alltaf að vera skemmtun líka. Svo er það uppskeruhátíðin okkar. Mér persónulega finnst það skemmtilegustu kvöldin. Þá erum við að fara yfir sumarið og veljum veiðikonu ársins og rökstyðjum hver það er sem fær þann heiður og veitum alls konar verðlaun.“

Ragnheiður segir félagsskapinn afskaplega skemmtilegan og það sem svona stór klúbbur bjóði upp á er að oft sé verið að veiða með nýjum félögum og kynnast nýjum veiðikonum. „Í smærri klúbbum er þetta mikið til sami kjarninn sem er að fara á svipaðar slóðir og auðvitað er það gaman en hjá okkur er maður oft að veiða með konum sem maður hefur ekki hitt áður. Ég man einu sinni eftir því að ég fór í Laxá í Dölum og lenti á stöng með konu sem ég þekkti ekki neitt. Hún pikkaði mig upp og það var bara einhvern veginn allt eins hjá okkur. Við töluðum báðar ítölsku sem er ekki mjög algengt. Keyptum báðar sama gosið í sjoppunni sem ekki margir drukku. Kunnum báðar að elda mjög mikið. Svo þegar við fórum að klæða okkur í veiðihúsinu þá vorum við í alveg eins undirfötum undir vöðlurnar og auðvitað var gat á buxunum hjá okkur báðum á sama hné.“

Formaður Árdísa er Esther Finn­boga­dótt­ir. Hér er hún á góðri stundu, ný­bú­in að landa fiski.
Ljós­mynd/​EF

Ragnheiður minnist þess líka þegar þessi nýja vinkona hennar náði sínum fyrsta flugulaxi. Það byrjaði reyndar með ósköpum. Þegar þær fóru veiðislóðann vildi ekki betur til en lamb hljóp undir bílinn hjá þeim og skaddaðist. Leiðsögumenn sem voru að aðstoða hópinn komu til aðstoðar og höfðu upp á bóndanum og tilkynntu atburðinn. Þær voru eins og gefur að skilja ofurlítið miður sín en fóru samt að veiða. Þar fékk vinkonan sinn fyrsta lax á flugu. Það var í Lambastaðakvörn og lambið átti bóndinn á Lambastöðum. Þannig að um kvöldið í veiðihúsinu var boðið upp á lax og lamb en ekki surf and turf eins og þekkt er.“

Þær skipuleggja veiðiferðirnar vel. Hópurinn sem er að fara saman hittist áður og þar er ákveðið hvaða þema verður og lagðar línur fyrir skemmtiatriði. Þær fara gjarnan saman og kaupa flugur og gera mikið úr ferðinni. Ragnheiði er minnisstætt skemmtikvöld fyrir nokkrum árum í Laxá í Dölum þar sem sérlega vel tókst til. Þetta var fyrsta árið í Covid og þemað eitt kvöldið var gamlárskvöld. Borðsalurinn var skreyttur í anda nýs árs og tónlist, klæðnaður og matur í ætt við áramót. „Við vorum reyndar stoppaðar þegar við ætluðum að skjóta upp flugeldunum. En þetta tókst svo frábærlega, og var svo gaman,“ segir Ragnheiður.

Jól hafa verið tilefni þemakvölds. Þær hafa verið pönkarar og trailer trash svo eitthvað sé tilgreint sérstaklega.

Árdísir eru að hefja sitt 23ja starfsár og hefur félagskapurinn aldrei verið fjölmennari. Ljóst er að áhugi kvenna á veiðum hefur aukist afskaplega mikið á þessari öld og eru veiðiklúbbarnir sem eingöngu konur eiga aðild að orðnir fjölmargir þó svo að Árdísirnar séu án efa fjölmennastar.

Þessi grein birt­ist áður í blaðinu Veiði XII sem Veiðihornið gef­ur út. Þetta er tólfta árið sem Veiðihornið gef­ur út blaðið og er það eitt veg­leg­asta veiðiblað sem kem­ur út á Íslandi. Blaðið kom út í byrj­un júní.

Eggert Skúlason

Sporðaköst – Fylgstu með lifandi veiðiumfjöllun.
Veiðihornið er samstarfsaðili Sporðakasta á mbl.is